Tryggi öryggi í fluggeiranum

AFP

Frank Holton, sem sér um að skipuleggja stundaskrá Keflavíkurflugvallar, segir að skynsemin hafi sigrað í máli sem WOW air höfðaði á hendur Samkeppniseftirlitinu, Isavia og Icelandair vegna úthlutunar afgreiðslutíma.

Þann 16. janúar sl. vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur málinu frá. WOW air hefur hins vegar áfrýjað málinu og þá er von á nýjum úrskurði frá Samkeppniseftirlitinu, að því er segir á vef Túrista, sem ræddi við Holton.

Með úthlutun afgreiðslutíma er átt við tíma sem flugfélögum er úthlutað á flugvöllum til að lenda og hleypa farþegum frá borði, fá nauðsynlega flugafgreiðslu og taka farþega um borð og fara aftur á loft.

WOW air hafði kvartað vegna afgreiðslutímanna til Samkeppniseftirlitsins sem beindi fyrirmælum til Isavia sem fer með framkvæmdastjórn flugvallarins. Isavia og Icelandair vildu ekki una ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og skutu henni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér vegna niðurstöðunnar sagði að ekkert kæmi fram um það í úrskurði héraðsdóms, ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins eða í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að það fyrirkomulag sem viðhaft væri við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hefði skaðleg áhrif á samkeppni, enda væri það sama fyrirkomulag og sé viðhaft alls staðar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Á vef Túrista kemur fram, að það sé danska fyrirtækið Airport Coordination sem sjái um uppröðun á flugtímum á íslenskum flugvöllum. Rætt er við Frank Holton, framkvæmdastjóra Airport Coordination, sem segir að niðurstaða héraðsdóms staðfesti að rétt hafi verið staðið að úthlutuninni. 

„Þetta er að mínu mati stór sigur fyrir neytendur sem og flugrekstraraðila og tryggir öryggi í kringum flugþjónustuna. Ef fjárfesta á í dýrum flugvélum verða fyrirtækin að búa við skilyrði sem gilda til lengri tíma og það gagnast á endanum neytendum líka. Það verður einnig að hafa í huga að hefðarrétturinn er ekki bara réttur því hann leggur líka skyldur á herðar flugrekenda. Þeir verða nefnilega að nýta að a.m.k. áttatíu prósent flugtímanna ef þeir ætla að halda þeim,“ er haft eftir Holton. 

Bent er á að, að samkvæmt reglum Evrópusambandsins og IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga, þá missi flugfélög aðeins afgreiðslutíma ef þeir séu ekki nýttir í að lágmarki átta af hverjum tíu tilvikum.

Þá segir Holton, að hann telji að ef niðurstaða héraðsdóms hefði verið á hinn veginn þá hefðu afleiðingarnar geta orðið óyfirstíganlegar, ekki aðeins fyrir íslenska flugrekstraraðila, heldur einnig valdið dómínóáhrifum út í heimi.

„Sem betur fer sigraði skynsemin að lokum. Sagan sýnir að bæði ný flugfélög og þau þekktari hafa náð að koma sér upp hentugum afgreiðslutímum án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar. Í stuttu máli sagt þá virkar kerfið eins og það er í dag, bæði fyrir eldri og nýja aðila,“ segir Holton í samtali við Túrista.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK