500 frumkvöðlar taka þátt í Gullegginu

Verkefnastjórn Gulleggsins.
Verkefnastjórn Gulleggsins. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson

Fimm hundruð frumkvöðlar taka þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu í ár, en alls bárust keppninni 251 hugmyndir. Gulleggið er haldið af frumkvöðlasetrinu Klak Innovit og fer nú fram í áttunda sinn, en samtals hafa 1954 hugmyndir borist frá upphafi. Dæmi um þátttakendur síðustu ára eru Clara, Meniga, Pink Iceland, Gracipe, Radiant Games, Nude magazine, Videntifier, Róró, Betri Svefn og mörg fleiri.

“Við fundum fyrir miklum áhuga og meðbyr í aðdraganda keppninnar og erum ánægð með þann fjölda hugmynda sem skilað var inn í ár. Við höfum notið góðs af stuðningi margra stærstu og öflugustu fyrirtækja og stofnana landsins á sviði nýsköpunar og þekkingar sem hefur hjálpað okkur mikið. Eins er samstarfið við stærstu háskóla landsins okkur ákaflega dýrmætt og ekki síst til að ná eyrum verðandi frumkvöðla,” segir Svava Björk, verkefnastjóri Gulleggsins.

Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Þannig er keppnin orðin gæðastimpill á viðskiptahugmyndir og fyrir frumkvöðla sem munu á næstu árum laða að enn fleiri fjárfesta, skapa ný störf og verðmæti fyrir íslenskt samfélag að því er fram kemur í tilkynningu frá Innovit. Bakhjarlar keppninnar eru Landsbankinn, KPMG, Advel, Alcoa, Samtök Atvinnulífsins og Nova auk annarra stuðningsaðila.

Þátttakendur í Gullegginu fá nú tækifæri til að sækja námskeið og fá aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Samstarfsaðilar keppninnar flytja erindi og bjóða fram aðstoð sína en þeir eru mörg stærstu og öflugustu fyrirtæki og stofnanir landsins á sviði nýsköpunar.

Um 150 þátttakendur og gestir sóttu Opnunarhátíðina sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík þann 22. janúar sl. Ari Kristinn Jónsson opnaði formlega Gulleggið 2015 og til máls tóku Salóme Guðmundsdóttir framkvæmdarstjóri Klak Innovit og Georg Lúðvíksson framkvæmdarstjóri Meniga. Meniga var í topp tíu í Gullegginu árið 2009 og er nú orðið yfir 100 manna fyrirtæki. Georg sagði meðal annars frá reynslu sinni af því að taka þátt í keppninni og fá þannig það aðhald sem honum fannst nauðsynlegt til að gera hugmynd sína að veruleika.

Nánari upplýsingar um Gulleggið má finna á www.gulleggid.is

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, opnaði formlega Gulleggið …
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, opnaði formlega Gulleggið 2015. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson
Georg Lúðvíksson, framkvæmdarstjóri Meniga, sagði frá reynslu sinni af því …
Georg Lúðvíksson, framkvæmdarstjóri Meniga, sagði frá reynslu sinni af því að taka þátt í keppninni. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK