Deloitte sýknað af kröfum Toyota

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið Deloitte í skaðabótamáli sem Toyota á Íslandi höfðaði á hendur fyrirtækinu, en Toyota sagði að Deloitte hefði valdið fyrirtækinu tjóni vegna ráðgjafar og krafðist 31,7 milljóna króna í skaðabætur.

Toyota hefur hins vegar verið dæmt til að greiða 1,5 milljónir í málskostnað.

Toyota hélt því fram að Deloitte hefði valdið fyrirtækinu tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, vegna ráðgjafar við samruna Bergeyjar ehf. og P. Samúelssonar hf. og skattskila hvað varðar frádráttarbærni vaxtagjalda í kjölfar samrunans. 

Toyota byggði á svonefndri sérfræðiábyrgð, en í henni felst að sakarreglunni er beitt með strangari hætti en almennt gerist. Toyota hélt því fram, að Deloitte hefði veitt sérfræðiaðstoð við val á aðferð við samruna félaganna, þ.e. öfugan samruna eða skuldsetta yfirtöku.

Þessu mótmælti endurskoðunarfyrirtækið og sagði að forsvarsmenn félaganna hefðu staðið að því að sameina félögin með þessum hætti og Deloitte hefði aðeins komið að framkvæmd samrunans.

Í dómnum kemur fram að Deloitte hafi hvorki veitt eigendum Toyota ráðgjöf um val á þeirri aðferð sem viðhöfð var við samruna fyrirtækjanna árið 2005 né endurskoðað ársreikning félagsins fyrir það ár.

Í dómnum segir að það sé „niðurstaða dómsins að sú vinna sem stefndi innti af hendi hafi verið í fullu samræmi við viðurkenndar aðferðir, innlendar sem erlendar. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.“

Sigurður Páll Hauksson, forstjóri Deloitte, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dómsins, en þar segir:

„Við teljum að niðurstaða dómsins sé í samræmi við málflutning okkar, þ.e. að sérfræðingar Deloitte ollu Toyota ekki tjóni vegna starfa sinna. Deloitte skorast ekki undan ábyrgð á ráðgjöf sem samið hefur verið um. Hins vegar sáum við ekki um skattalega ráðgjöf fyrir Toyota á Íslandi í umræddu máli. Dómurinn staðfestir að sérfræðivinna Deloitte olli Toyota ekki tjóni og var í fullu samræmi við viðurkenndar aðferðir sem beitt hafði verið um víða veröld.”

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK