Spá 0,7% verðbólgu í ár

Niðurstaða kjaraviðræðna skiptir sköpum þegar kemur að verðbólgumælingum.
Niðurstaða kjaraviðræðna skiptir sköpum þegar kemur að verðbólgumælingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seðlabanki Íslands spáir því að verðbólgan verði 0,7% í ár og 2,3% á því næsta. Talsverð óvissa er í spánni, meðal annars vegna óvissu um niðurstöður kjaraviðræðna og hver þróun alþjóðlegrar verðbólgu verður. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í dag en síðast voru þau gefin út í nóvember.

Verðbólguhorfur hafa breyst töluvert frá síðustu útgáfu Peningamála. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði 0,5% á fyrsta fjórðungi þessa árs en í síðustu spá var búist við að hún yrði 2%.

„Frávikið skýrist einkum af mun lægri upphafsstöðu þar sem verðbólga hefur reynst minni undanfarna mánuði en búist var við sem má aðallega rekja til beinna og óbeinna áhrifa lækkunar olíuverðs á heimsmarkaði. Horfur eru á að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram undir lok næsta árs og verði samkvæmt spánni 0,7% á þessu ári og 2,3% á árinu 2016.

Verðbólga verður því líklega minni á meginhluta spátímans en gert var ráð fyrir í nóvember sl. Það felur í sér það mat að til viðbótar við lægri upphafsstöðu verði framleiðsluspennan heldur minni í ár og fram á næsta ár en þá var spáð og að alþjóðleg verðbólga verði minni. Horfur eru einnig á að nýleg lækkun olíuverðs gangi ekki að öllu leyti til baka og að olíuverð verði því lægra á spátímanum en gert var ráð fyrir í nóvember,“ segir í Peningamálum.

 Ýmsar forsendur spárinnar eru háðar töluverðri óvissu. Helst má nefna óvissu um niðurstöður komandi kjarasamninga þar sem launahækkanir gætu reynst meiri en gert er ráð fyrir í grunnspánni.

„ Ef samið yrði um launahækkanir sem eru umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiðinu að viðbættum framleiðnivexti yrði verðbólguþrýstingur meiri en hér er gert ráð fyrir. Óvissa um gengisþróun krónunnar á spátímanum er sem fyrr mikil í ljósi óvissu um áhrif losunar fjármagnshafta og uppgjör búa fallinna fjármálafyrirtækja.

Verðbólguvæntingar hafa nýlega lækkað og eru á flesta mælikvarða nálægt verðbólgumarkmiðinu. Hins vegar hefur ekki reynt á festu langtímaverðbólguvæntinga og því óvíst hvort þær myndu haldast nálægt markmiði Seðlabankans ef verðbólga ykist á ný. Erfiðara gæti þá reynst að ná aftur tökum á verðbólgu.

Verðbólga gæti hins vegar einnig orðið minni en gert er ráð fyrir í spánni ef vöxtur innlendrar eftirspurnar reynist ofmetinn, t.d. vegna þess að alþjóðlegur efnahagsbati verður þróttminni. Einnig gæti verð olíu og annarrar hrávöru haldið áfram að lækka og alþjóðleg verðbólga reynst minni en búist er við,“ segir enn fremur í Peningamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK