Warren Buffett kveður brátt

Warren Buffett mun brátt stíga til hliðar sem forstjóri Berkshire …
Warren Buffett mun brátt stíga til hliðar sem forstjóri Berkshire Hathaway, eins verðmætasta hlutafélags í Bandaríkjunum, og leyfa öðrum að eiga sviðið. AFP

Það styttist í að stundin renni upp. Ljóst þykir að Warren Buffett, einhver slyngasti fjárfestir allra tíma, mun brátt stíga til hliðar sem stjórnandi fjárfestingafélagsins Berkshire Hathaway og leyfa öðrum að eiga sviðið. Hluthafarnir hafa kviðið þeim degi, enda er allsendis óljóst hver örlög félagsins verða eftir að Buffett hverfur á braut.

Warren Buffett er um þessar mundir að leggja lokahönd á hið árlega bréf sitt til hluthafa Berkshire. Bréfið í ár markar reyndar tímamót, þar sem fimmtíu ár eru liðin síðan Buffett eignaðist ráðandi hlut í félaginu, sem var þá raunar vefnaðarvöruframleiðandi. Í tilefni þess hyggst Buffett bregða af vananum. Auk þess að fjalla almennt um aðstæður á fjármálamörkuðum og þá fjárfestingarkosti sem hann telur fýsilega þessa stundina, eins og venjan hefur verið í gegnum árin, þá mun hann og viðskiptafélagi hans til fjölmargra ára, Charlie Munger, skrifa sitthvort bréfið.

Í bréfunum hafa þeir í hyggju að fjalla um reynslu seinustu fimm áratuga og, það sem er meira um vert, hvers þeir vænta af félaginu sínu, Berkshire, á næstu fimm áratugum - fram til ársins 2065.

Með því að bregða svona af vananum og skrifa um næsta fimmtíu ár gera félagarnir tveir, sem verða samanlagt 175 ára á þessu ári, heiðarlega tilraun til þess að móta stefnu Berkshire til framtíðar sem og minna okkur á grunngildi félagsins. 

Markaðsvirðið 358 milljarðar dala

Buffett og Munger keyptu vefnaðarvöruframleiðanda, sem var nánast að hruni kominn, og gerðu hann að einu stærsta og þekktasta fjárfestingafélagi sögunnar. Starfsemi félagsins hefur ávallt verið mjög fjölbreytt. Tryggingarstarfsemin er umfangsmikil en auk þess á félagið tugi rekstrarfélaga í hinum og þessum geirum atvinnulífsins og er jafnframt stór hluthafi í þekktum og rótgrónum hlutafélögum á borð við Coca-Cola, McDonald’s og American Express.

Á sama tíma og mörg fjárfestingafélög hafa í meira mæli einblínt á kjarnastarfsemi sína, þá hefur eignasafn Berkshire orðið fjölbreyttara með hverju ári sem líður. Til marks um það hefur félagið ráðist í miklar fjárfestingar í bandaríska orkugeiranum á undanförnum árum og keypt helmingshlut í tómatsósuframleiðandanum Heinz, svo dæmi séu tekin.

Þá eru ónefnd kaup félagsins á járnbrautafélaginu Burlington Northern Santa Fe fyrir 34 milljarða Bandaríkjadala í byrjun árs 2010. Þau kaup vöktu heilmikla athygli, bæði vegna þess að þetta var stærsta fjárfesting félagsins frá upphafi og að á þessum tíma hafði félagið ekki ráðist í neinar fjárfestingar - að minnsta kosti ekki af neinni alvöru - í um það bil þrjú ár.

Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Markaðsvirði félagsins er komið í 358 milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir rúmlega 47 þúsundum milljarða íslenskra króna. Það er um 26-föld landsframleiðsla Íslands - hvorki meira né minna.

Fjárfestir sem var svo framsýnn að kaupa eitt hlutabréf í Berkshire fyrir ellefu dollara, þegar Buffett tók við stjórn þess fyrir fimmtíu árum, á í dag hlut að verðmæti yfir 195 þúsund dollara. Meðaltalsávöxtunin hefur verið um það bil 21% á ári.

Hafa hluthafarnir ástæðu til að óttast?

Buffett hefur því byggt upp sannkallað fjármálaveldi - og það nánast einn síns liðs. Samkvæmt kenningunni um skilvirka markaði, sem kennd er í viðskiptaháskólum um víða veröld, er ekki hægt að „sigra markaðinn“ til lengri tíma litið. Samt sem áður hefur honum einmitt tekist það - ár eftir ár.

Það er því ekki að ástæðulausu að fólk leggur við hlustir þegar spámaðurinn frá Omaha, eins og hann er jafnan kallaður, lætur í sér heyra. Svo virðist stundum að allt sem hann snerti verði að gulli og sjálfur er hann orðinn næstríkasti maður heims samkvæmt mælingu viðskiptatímaritsins Forbes, með auðæfi sín metin á 73,6 milljarða dala.

Buffett hefur sjálfur sagt að stærð Berkshire sé orðin slík að stjórnendur félagsins þurfi að vera mjög útsjónarsamir ef rekstur þess á að vera áfram - til frambúðar - þessi gullnáma fyrir hluthafa eins og hann hefur tvímælalaust verið á undanförnum áratugum. En stóra spurningin er sú hvort árangur Berkshire standi og falli með Buffett? Hafa hluthafarnir ástæðu til að hafa áhyggjur af því, jafnvel óttast það, hvað gerist þegar hann hverfur á braut?

Þeir binda að minnsta kosti vonir sínar við að Buffett muni gefa einhverjar vísbendingar um framtíðaráform sín og félagsins í bréfi sínu, sem verður birt undir lok febrúarmánaðar.

„Það mikilvægasta sem Warren Buffett þarf að huga að er hvernig hann getur búið svo í haginn fyrir framtíðina að Berkshire haldi áfram að skapa virði fyrir hluthafana,“ segir Jay Gelb, fjármálagreinandi sem fylgist vandlega með starfsemi Berkshire, í samtali við Financial Times. „Ég held að þetta gæti orðið mikilvægasta bréf sem hann hefur nokkurn tímann skrifað til hluthafa sinna.“

Fréttaskýrendur, og aðrir, virðast sammælast um það að Berkshire verði aldrei hið sama án Buffetts. Skarðið sem hann mun skilja eftir sig verður ekki fyllt. Það var til dæmis aðeins vegna orðstírs og snilligáfu Buffetts að hluthafar Berkshire fóru að ráðum hans í tæknibólunni, rétt fyrir aldamótin, og keyptu ekki hluti í tæknifélögunum sem nutu svo mikilla vinsælda á þeim tíma. Hann taldi að félögin væru alltof hátt verðlögð og fylgdi sannfæringu sinni: „Vertu gráðugur þegar aðrir eru hræddir og hræddur þegar aðrir eru gráðugir.“

Eins var það heldur ekki að ástæðulausu að stórfyrirtæki eins og General Electric og Goldman Sachs leituðu til Buffetts þegar illa áraði í fárviðri efnahagshrunsins fyrir sjö til átta árum. Þær fjárfestingar skiluðu að lokum sínu.

Uppskrift að árangri í viðskiptum

Á allra seinustu árum hefur Buffett lagt mikla áherslu á að efla nafn fjárfestingafélags síns sem vörumerki. Eftir að hafa fjárfest í verðmætustu vörumerkjum heims undanfarna áratugi hefur Berkshire á undanförnum árum, sérstaklega á því seinasta, útvíkkað verulega notkunina á sínu eigin nafni. Fjöldi veitufyrirtækja í eigu Berkshire hefur tekið upp nafn félagsins, auk fasteignasala í Bandaríkjunum og bílasölu sem fjárfestingafélagið festi kaup seint í fyrra.

Markaðsráðgjafar og sérfræðingar fyrirtækisins telja mikil verðmæti felast í vörumerkinu Berkshire Hathaway. Þeir telja að það endurspegli það orðspor sem fer af þekkingu og löngum ferli Buffetts í fjármálum.

Oscar Yan, meðeigandi ráðgjafafyrirtækisins Millward Brown Vermeer, segir að rétt eins og Virgin endurspegli uppreisnargirni Sir Richards Branson og Apple endurspegli snilligáfu Steve Jobs, þá byggist virði vörumerkisins Berkshire á trausti og heilindum Buffetts. Sóknarfæri séu sannarlega til staðar.

Samkvæmt síðustu könnun Millward Brown á Berkshire umtalsverðan eignarhlut í tíu af hundrað verðmætustu fyrirtækjum heims. Það kemur heim og saman við smekk Buffetts fyrir nöfnum sem staðist hafa tímans tönn, á borð við Coca-Cola, American Express og Walmart, eins og áður var nefnt. Eins og hann skrifaði í bréfi sínu til hluthafa árið 2011: „Kaup á hrávörum og sala á vörumerkjum hefur löngum verið uppskrift að árangri í viðskiptum.“

Þessi viðleitni Buffetts til að efla nafn Berkshire sem vörumerki stingur í stúf við þær raddir, sem hafa verið nokkuð háværar, um að Buffett muni brjóta fjármálaveldi sitt upp og hefja brátt eignasölu aldarinnar.

Í því sambandi hafa margir rifjað upp söguna af James Hanson. Eins og kunnugt er byggði hann upp sannkallað viðskiptaveldi á sjöunda áratug síðustu aldar, en í stað þess að finna eftirmann og halda með þeim hætti samsteypu sinni lifandi ákvað hann að brjóta veldið upp. Hann taldi að eignasala væri betri kostur en að horfa upp á mögulega hnignun veldis síns.

Þannig hafa sumir bent á að flest félög, sem eru í eigu Berkshire, séu alveg nægilega stór til að komast lífs af ein síns liðs. Hægt væri að sameina önnur minni félög og jafnframt selja þau til annarra fjárfestingafélaga eða jafnvel til keppinauta.

Leita að heppilegum arftaka

Sá valkostur þykir hins vegar ólíklegur. Félagið sé of rótgróið til að nokkurt vit sé í því að leggja það niður. Þess í stað sé markmiðið núna að finna heppilegan eftirmann. Kappar á borð við Howard Buffett, sem er sonur Warrens, og Bill Gates, stofnandi Microsoft, hafa verið nefndir sem hugsanlegir arftakar Buffetts - sem stjórnendur Berkshire. Ekki ríkir hins vegar einhugur innan stjórnar félagsins um hver eigi að leiða félagið til framtíðar. Að mörgu þarf að huga.

Þrátt fyrir að mikil óvissa ríki um framtíð Berkshire hafa hlutabréf félagsins haldið áfram að hækka í verði. Í fyrra flugu þau hátt - hækkuðu um meira en 25% - og hafa þau sjaldan verið eins hátt verðlögð. En enginn veit hvað framtíðin mun bera í skauti sér.

„Ég spyr mig á hverjum degi hvort hlutabréf Berkshire muni hækka eða lækka í verði þegar Buffett kveður,“ segir David Rubenstein, stofnandi vogunarsjóðsins Carlyle Group. „Og ég veit ekki svarið. Verðið gæti hækkað með þeim rökum að ef félagið verður brotið upp, þá sé það meira virði. En það gæti líka lækkað vegna þess að menn telja að enginn geti mögulega afrekað það sem Buffett hefur afrekað.“ 

Berkshire á um 9% hlut í Coca-Cola.
Berkshire á um 9% hlut í Coca-Cola. AFP
Eins og er Berkshire stór hluthafi í Heinz, með helmingshlut.
Eins og er Berkshire stór hluthafi í Heinz, með helmingshlut. Af vef Wikipedia
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK