Ekkert hægt að gera við Alcoa

Ekkert er hægt að gera í málefnum Alcoa ef vaxtagjöldin …
Ekkert er hægt að gera í málefnum Alcoa ef vaxtagjöldin eru ekki hærri en þau mega vera milli óskyldra aðila. Steinunn Ásmundsdóttir

Jafnvel þótt Alcoa sé eingöngu fjármagnað með lánum frá erlendu systurfélagi í Lúxemborg til þess að komast hjá skattgreiðslum hérlendis er ekkert við því að gera. Ekki nema að hægt sé að sýna fram á að vaxtagjöldin séu hærri en þau mega vera milli óskyldra aðila.

Þetta segir Kristján Gunnar Valdimarsson, lögmaður hjá Cato og lektor í skattarétti við Háskóla Íslands. Í Kast­ljósi Rík­is­út­varps­ins í gær ræddi Eva Joly, þingmaður á Evr­ópuþing­inu og fyrr­ver­andi rann­sókn­ar­dóm­ari, um það hvernig alþjóðleg fyr­ir­tæki notuðu gluf­ur í skatta­lög­um til þess að koma hagnaði und­an skatti hér á landi með gervi­lán­um. Nefndi hún ál­fyr­ir­tækið Alcoa sér­stak­lega í því sam­bandi og sagði slíkt fram­ferði vera ólög­legt og að senda þyrfti skila­boð um að það yrði ekki liðið. Kanna ætti hér á landi með hvaða hætti væri staðið að slík­um mál­um.

Vantar ákvæði um magra eiginfjármögnun

Kristján Gunnar bendir á að jafnvel þótt Ríkisskattstjóri kanni málið megi fyrirtæki færa eins mikil vaxtagjöld og þau vilja séu vaxtakjörin eins og milli óskyldra aðila.

Sérstakt ákvæði um magra eiginfjármögnun er ekki í íslenskri löggjöf en Kristján bendir á að nefnd um aðgerðir gegn skattsvikum hafi lagt til að slíkt ákvæði yrði tekið upp á árinu 2004. Það hafi hins vegar ekki verið gert. Slíkt ákvæði myndi koma í veg fyrir að félög gætu verið skuldsett umfram tiltekin mörk og þannig lækkað skattstofn með því að færa frádrátt á móti vöxtum.

Varin gegn breytingum á skattalögum

Alþingi hefur hins vegar samþykkt að ekki sé hægt að breyta skattalögum að því er snýr að þessum aðilum. Samkvæmt lögum um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, er tekið fram að ekki megi breyta reglum í skattalögum um frádrátt vaxta frá því sem var við undirritun samningsins og eiga efnisatriði laganna sem eru í gildi að haldast óbreytt á gildistíma samningsins. Til viðbótar er ekki hægt að hækka skatt umfram 18% á álbræðsluna en nú er 20% skattur á almenn fyrirtæki í landinu.

Þá er einnig í lögum um heimild til álbræðslu á Grundartanga tekið fram að félagið sé undanþegið breytingum sem kunna að verða á reglum um vaxtafrádrátt eftir undirritun samninganna en samskonar ákvæði eru í flestum ef ekki öllum samningum um stóriðju á Íslandi. 

Samkvæmt fyrri umfjöllun Kastljóssins hefur Alcoa á Íslandi ekki greitt krónu í tekjuskatt síðan 2003 og á þar að auki inneign á móti sköttum næstu ára.

Kristján Gunnar Valdimarsson
Kristján Gunnar Valdimarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK