Með 26 verktaka á lægri launum

Þota fraktflugfélagsins Bláfugls.
Þota fraktflugfélagsins Bláfugls. Jim Smart

Hjá íslenska fragtflugfélaginu Bláfugli starfa 32 flugmenn. Þar af eru 26 verktakar en einungis sex þeirra eru með kjarasamning við Félag íslenskra flugmanna. Verktakarnir voru ráðnir í gegnum hollenska áhafnaleigu og eru með lægri laun en flugmenn eiga rétt samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

Samkvæmt ráðningarsamningi sem mbl hefur undir höndum nema laun flugmanns á vegum áhafnaleigunnar 4.500 evrum fyrir 75 flugtíma, eða um 670 þúsund krónum auk 1.000 evra viðbótargreiðslu, eða um 150.000 krónum, fyrir störf þar á milli. Alls um 826 þúsund krónur.

Þá á eftir að taka tillit til orlofs, veikindaréttar, sem er lögbundinn fyrir útsenda starfsmenn, desember- og orlofsuppbóta, slysa- og líftrygginga, fatapeninga, dagpeninga, framlaga í lífeyrissjóð, greiðslna í sjúkrasjóð vegna aukins veikindaréttar, uppsagnarfresta og annarra grundvallarréttinda sem verktakinn nýtur ekki.

Samkvæmt því sem fram kom hjá Samtökum atvinnulífsins fyrir síðustu kjarasamninga, áður flugmenn Icelandair fengu 8 prósent launahækkun, voru þeir að meðaltali með um 770 þúsund í föst mánaðarlaun. Að viðbætt­um launaliðum sem greidd­ir eru við hverja launa­út­borg­un, s.s. akst­urs­greiðslur, álags­greiðslur og hlunn­indi, voru reglu­leg laun þeirra reglu­leg laun þeirra 852.000 og heild­ar­laun 912.000.

Laun verktakans, sem þó telst í skilningi íslenskra og evrópskra laga einungis vera gerviverktaki, þyrftu því að vera hærri til þess að vera jöfn launakjörum íslenskra flugmanna.

FÍA með hótanir 

Steinn Logi Björnsson, framkvæmdarstjóri Bláfugls, segir flugmennina hafa verið ráðna sem verktaka til þess að auka sveigjaleika í rekstri. Það hafi ekki verið gert til þess að spara pening. Hann bendir á að að Bláfugl starfi einnig sem verktaki fyrir önnur fyrirtæki og að þeim gæti allt eins verið sagt upp með stuttum fyrirvara. 

Þá segist hann eiga í kjarasamningaviðræðum við Félag íslenskra atvinnuflugmanna og að þeir hafi beinlínis hótað því að beita sér gegn þeim vegna verktökunnar.

Vinnumálastofnun hefur ekki skoðað Bláfugl

Bláfugl er með flugrekstrarleyfi á Íslandi og samanstendur floti þeirra af fimm Boeing 737 fraktvélum auk þess sem sú sjötta mun bætast við í apríl. Félagið er í eigu Haru Hold­ing ehf., sem er í sömu aðila og eiga Air Atlanta. Helstu eig­end­ur og stjórn­end­ur Air Atlanta eru: Hann­es Hilm­ars­son, for­stjóri, Helgi Hrafn Hilm­ars­son, Stefán Eyj­ólfs­son og Geir Val­ur Ágústs­son. Flugfloti félagsins samanstendur af fimm Boeing 737 fraktvélum en sú sjötta mun bætast við í apríl

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru málefni Bláfugls ekki á þeirra borði en stofnunin tekur mál til skoðunar eftir að ábendingar berast, líkt og var í máli Primera Air flugfélagsins. Alþýðusam­band Íslands af­henti þeim á dögunum gögn sem eru sögð sýna fram á að flug­fé­lagið brjóti á rétt­ind­um starfs­mann­anna.

Eiga rétt á sömu kjörum og íslenskir flugmenn

Alþýðusamband Íslands hefur bent á að áhafnir flugfélaga með heimahöfn á Íslandi eigi rétt á lágmarkslaunum og lágmarkskjörum skv. íslenskum kjarasamningum og íslenskum lögum. Þetta séu og verða skyldur viðkomandi fyrirtækja og sem skýrt endurspeglast í Samkomulagi ASÍ og SA um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. „Samtökin eru sammála um að félagsleg undirboð grafi ekki bara undan réttarstöðu launafólks heldur grafi þau einnig undan samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem rækja skyldur sínar með réttum hætti á íslenskum vinnumarkaði,“ sagði í tilkynningu ASÍ á dögunum.

Þá sló Evrópudómstóllinn því einnig föstu, að greiða skuli útsendum starfsmönnum á EES svæðinu laun og önnur kjör í samræmi við ákvæði þeirra kjarasamninga sem gilda þar sem þeir vinna, nema og þá því aðeins að heimakjörin séu betri. 

Steinn Logi segist ósammála því að dómurinn eigi við um flugmennina þar sem dómurinn vísi til almennra kjarasamninga á markaði, en ekki sértækra líkt og samninga FÍA við Icelandair.

Hefur áhrif á flugöryggi

Í nýrri rannsókn um óhefðbundin ráðningarform sem var birt í síðustu viku var gerviverk­taka í flugi tengd við flu­gör­yggi með af­drátt­ar­laus­um hætti. Rannsóknin var unn­in var á veg­um há­skól­ans í Ghent í Belg­íu í sam­vinnu við full­trúa frá sam­tök­um stétt­ar­fé­laga og at­vinnu­rek­enda en kostuð af Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins. Þar kemur jafnframt fram að fjór­ir af hverj­um tíu flug­mönn­um und­ir þrítugu í Evr­ópu vinna sem gervi­verk­tak­ar í gegn­um starfs­manna­leigu. Í skýrslunni er bent á að laun gervi-verk­taka­flug­manna séu oft tengd vinnu­fram­lagi meira en eðli­legt geti tal­ist og að eng­inn veik­inda­rétt­ur sé til staðar. Þetta geti m.a. leitt til þess að flug­menn mæta frek­ar veik­ir til vinnu. Þá segir einnig að þess­ir flug­menn telji sig síður hafa nægt sjálfstæði í starfi til þess að taka mikilvægar ákvarðanir um flugöryggi.

Alþýðusamband Íslands hefur skorað á íslensk stjórnvöld að taka starfsemi Primera Air og Primera Air Nordic hér á landi til rækilegrar skoðunar og stöðva starfsemi þeirra þar til úrbætur hafa verið gerðar.

Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri Bláfugls, segir FÍA hafa verið með …
Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri Bláfugls, segir FÍA hafa verið með hótanir í kjarasamningaviðræðum. Kristinn Ingvarsson
Vinnumálastofnun er með mál Primera Air til skoðunar.
Vinnumálastofnun er með mál Primera Air til skoðunar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK