Eggert tekur við af Eggerti

Eggert Benedikt Guðmundsson, fráfarandi forstjóri N1.
Eggert Benedikt Guðmundsson, fráfarandi forstjóri N1. mbl.is/Golli

Stjórn N1 og Eggert Benedikt Guðmundsson hafa gengið frá samkomulagi um að Eggert Benedikt láti af störfum hjá félaginu, en Eggert hefur verið forstjóri N1 frá árinu 2012.

Í tilkynningu frá N1 segir að þegar Eggert Benedikt var ráðinn til N1 hafi miklar breytingar staðið fyrir dyrum. Skráning félagsins á markað hafði verið ákveðin og lauk henni í desember 2013. Auk þessa voru gerðar viðamiklar skipulagsbreytingar sem m.a. fólu í sér stofnun Bílanausts og síðar sölu þess til þriðja aðila. Breytingar voru gerðar á vörustjórnun og birgðahaldi, m.a. með sameiningu á lagerhaldi félagsins í einu húsnæði í Klettagörðum. Þá var rekstrarkostnaður lækkaður með margs konar hagræðingu.

„Eggert Benedikt hefur leitt þessi verkefni og stjórnað þeim á farsælan hátt. Við viljum nota tækifærið og þakka Eggerti Benedikt fyrir góð störf og óska honum velgengni í framtíðinni,“ segir Margrét Guðmundsdóttir stjórnarformaður N1 í tilkynningu.

Eggert Þór Kristófersson, núverandi fjármálastjóri félagsins, hefur verið ráðinn forstjóri N1.

„Með þessum breytingum mun stjórn N1 leggja áherslu á að lækka kostnað við yfirstjórn félagsins en nú þegar liggur fyrir að framkvæmdastjórum N1 mun fækka um einn þar sem ekki verður endurráðið í stöðu framkvæmdastjóra markaðssviðs, sem nýverið lét af störfum hjá félaginu. Staða fjármálastjóra verður auglýst laus til umsóknar á næstunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK