Dansaði af ánægju með hagnaðinn

Jorgen Vig Knudstorp er sáttur með gengi Lego.
Jorgen Vig Knudstorp er sáttur með gengi Lego. AFP

Forstjóri Lego var léttur og brast í söng við kynningu á ársuppgjöri fyrirtækisins. Enda ástæða til, þar sem hagnaður Lego var sá mesti í 83 ára sögu danska leikfangafyrirtækisins.

Góðan árangur fyrirtækisins má að stórum hluta rekja til velgengni Lego kvikmyndarinnar sem kom út í fyrra. Hagnaður Lego jókst um 15 prósent milli ára og nam um sjö milljörðum danskra króna, eða um 140 milljörðum íslenskra króna. Sölutekjur námu um 28,6 milljörðum danskra króna, eða um 574 milljörðum íslenskra króna.

Um sextíu prósent sölutekna fyrirtækisins stafaði frá nýjum vörum sem meðal annars byggja á kvikmyndinni. 

Joergen Vig Knudstorp, forstjóri Lego, var sáttur með niðurstöðuna og tók því óskarsverðlaunatilnefnda lagið „Everything is Awesome“ auk nokkurra dansspora.

Félagið fer ekki á markað

Fjárfestar renna nú margir hýru auga til fyrirtækisins en Knudstorp sagði skráningu á markað ekki koma til greina. Ole Kirk Christiansen stofnaði fyrirtækið árið 1932 en þegar Knudstorp tók við á árinu 2004 var hann sá fyrsti utan Christiansen fjölskyldunnar til þess að setjast í forstjórastólinn. 

Lego hyggur á nýja markaði á næstu árum og er fyrirtækið nú að byggja verksmiðju í Jiaxing í Kína sem á að vera komin í gagnið á árinu 2017.

Knudstorp sagði Lego m.a. stefna að því að breikka vöruúrvalið sem er markaðssett sérstaklega fyrir stúlkur vegna mikillar eftirspurnar og mun ný lína er nefnist Lego Elves líta dagsins ljós á árinu. Lego Friends línan er önnur sem miðuð er að stúlkum og kom á markað fyrir nokkrum árum en hún er í dag á meðal fimm mest seldu vörutegunda Lego. Aðrar eru m.a. Lego City og Lego Star Wars.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/yP7fQ7WmGpw" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK