Fá lánað í stað þess að kaupa

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent við …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent við Háskólann á Bifröst, Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Þorvarður Sveinsson, forstöðumaður stefnumótunar hjá Vodafone, Sigurður Jensson, sviðstjóri eftirlitssviðs RSK, Dagný Bjarnadóttir, Dagný Land Design. mbl.is/Árni Sæberg

„Kannski þurfum við gera einkahlutafélög úr öllum einstaklingum í framtíðinni. Við verðum öll orðin að rekstrareiningu og eigum öll eitthvað sem við hægt er að gera sér mat úr og tekjur,“ segir Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, um deilihagkerfið svokallaða, sem farið hefur ört vaxandi á undanförnum árum samhliða hraðri tækniþróun.

Í deilihagkerfinu sam­nýtir fólk eig­ur sín­ar, eins og til dæm­is bif­reiðar og hús­næði og nær þannig fram betri nýt­ingu. „Stafar ógn af deilihagkerfinu eða býður það upp á ný tækifæri?“ var yfirskrift morgunverðarfundar sem Reykjavik Economics, Expectus  og Reykjavíkurborg stóðu fyrir í Ráðhúsinu í morgun.

Ný tækifæri fólgin í tækninni

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði „Ekki fá lánað þegar þú getur keypt“ hugmyndafræði hafa verið ríkjandi í samfélaginu fyrir nokkrum árum. Nú horfi dæmið hins vegar öðruvísi við og deilihagkerfið sé farið að spretta upp í ýmsum myndum þar sem hugsunin er að spara meira, sóa minna og vernda umhverfið. „Tæknin og snjallsímar hjálpa okkur að komast í samband við nýtt fólk og ýta undir þessa þróun,“ sagði Dagur og vísaði til fjölskyldu úr Laugardalnum sem var að gefa kjúklingasnitsel, sem varð afgangs af kvöldmatnum, á Facebook í gær. 

„Við hjá borginni erum að fylgjast með og hugsa um hvernig hægt sé að nýta þetta, sagði Dagur og benti meðal annars á hugmyndir um hjólaleigu í Miðbænum og samnýtt rafskutlukerfi.

Ungt fólk er opnara

Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, benti á að deilihagkerfið hefði alltaf verið til staðar en hins vegar væru í því nokkurs konar hagsveiflur. „Það sem er nýtt í þessu er samskiptatæknin sem hefur keyrt þessa þróun áfram,“ segir hann. „Til eru fjölmargar útgáfur og hægt er að skiptast á hjólum, bílum og húsnæði, allt í gegnum snjallsímaforrit,.“

Hann segir traust vera lykilatriði í viðskiptum sem þessum og að það byggi á reynslu. Þá sagði hann ljóst að ungt fólk væri mun opnara fyrir að nýta sér þessa möguleika og deila. „Þetta er þróunin og er að gerast. Þetta byggir ekki bara á einhverri spá,“ sagði Gunnar og benti á ferðaþjónustuna sem orðið hefur fyrir miklum áhrifum á þróuninni þar sem fjöldi í íbúðargistinganátta í Reykjavík hefur fjórtánfaldast á liðnum árum. 

Hagsmunaaðilar munu krefjast aðgerða

„Reynslan sýnir að opinberir aðilar hafa mikil áhrif á þessa þróun,“ sagði Gunnar og vísaði til þess að borgaryfirvöld í París hefðu t.d. bannað Uber þjónustuna, þar sem fólk nýtir einkabíla til leigubílaaksturs. „Það þarf að fylgjast með þessu, þar sem þróunin hefur til dæmis víðtæk áhrif á skatta, gjöld, leyfisveitingar og skipulag. Hvað ef ég er að leigja út íbúðina mína. Þarf ég leyfi? Hvað með brunavarnir?,“ spurði hann. „Hvað verður um vegina okkar og bílastæðin sem minni þörf skapast fyrir ef menn samnýta bílana,“ sagði hann. „Hvað með borgarskipulagið. Eigum við að skipuleggja Reykjavík til þess að ýta undir þessa þróun eða draga úr henni?“ spurði Gunnar. „Það sem að minnsta kosti er augljóst, er það að hagsmunaaðilar munu krefjast aðgerða yfirvalda,“ sagði hann að lokum.

Ekki skattskylt að selja gamla muni

Sigurður Jensson, sviðsstjóri eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra, fjallaði um sjónarhorn skattyfirvalda og sagði það vera lykilspurningu hvort einhver efnisleg verðmætaaukning yrði af viðskiptum sem þessum. „Menn hafa alla tíð hjálpast að, en þegar við erum komin með vettvang til þess að gera þetta með svona skipulegum hætti, vakna álitaefni,“ sagði hann.

Hann benti á að það þyrfti að vera hægt að meta verðmæti til peningaverðs til þess að skattskylda vakni, þótt undantekningar séu þar á, líkt og þegar einstaklingar selja gamla muni á uppboðssíðum svo sem bland.is. „En ef sami einstaklingur er farinn að flytja inn gamla stóla til þess að selja myndast viðvarandi skattskylda,“ sagði hann.

Hann benti á að það skipti máli hverjir væru að skiptast á verðmætum þegar verðmætaskipti eru skattlögð. Skipti í atvinnustarfsemi þar sem t.d. pípari er að taka að sér vinnu fyrir smið og smiðurinn vinnu fyrir píparann á móti, telst skattskyld.

Þá sagði hann skattlagningu á hluta deilihagkerfisins vera skýra, líkt og með vefi á borð við Airbnb og booking.com þar sem menn hafa tekjur af því að leigja út húsnæðið sitt. „Deilihagkerfið hefur yfir jákvætt yfirbragð og sumt er skattskylt og annað klárlega ekki. Við þurfum að fylgjast vel með þróuninni og þetta má ekki verða hluti af neðanjarðarhagkerfinu, en til þess þurfum við að nota heilbrigða skynsemi,“ sagði Sigurður.

Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar.
Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar. Árni Sæberg
Úteiga á íbúðum í gegnum síður á internetinu er skattskyld.
Úteiga á íbúðum í gegnum síður á internetinu er skattskyld. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK