Opal felur áfengislykt í Bandaríkjunum

Um tveir fjörutíu feta gámar af Opali fara til Rússlands …
Um tveir fjörutíu feta gámar af Opali fara til Rússlands á hverju ári. Friðrik Tryggvason

Sælgætið frá Nóa Síríus virðist höfða til fleiri en íslenskra nammigrísa. Nóa Konsum 70% súkkulaðið er það mest selda í verslunum Whole Foods á austurströnd Bandaríkjanna, Opal er vinsælt á vesturströndinni og heitir Nu-breath og Aktív-próteinbitar rjúka úr hillunum í Suður-Kóreu.

Gamla og góða Konsum-súkkulaðið hefur verið til sölu í Whole Foods frá árinu 2006 og samkvæmt mælingum sem gerðar voru í sumar var það mest selda sælgætið í verslunum keðjunnar á austurströndinni. Þórhallur Ágústsson, vörustjóri útflutnings hjá Nóa Síríus, segir súkkulaðið aðallega hafa verið í dreifingu á þessu svæði sökum flutningskostnaðar en hins vegar sé það einnig nýkomið í verslanir í Denver í Colorado. Hann segir velgengni á einu svæði liðka fyrir frekari dreifingu. Þá er markmiðið að auka vöruúrvalið í verslununum enn frekar og fara í fleiri verslanir.

Nýjungar í súkkulaði

Innan skamms hefst sala á fjórum nýjum súkkulaði tegundum frá Nóa Síríus í Whole Foods: möndlu-, karamellu- og salt-, appelsínu- og hvítu súkkulaði. Á Íslandi fæst hvorki möndlu- né karamellusúkkulaðið og aðspurður hvort landsmenn fái ekki einnig að smakka segir hann það örugglega í farvatninu að koma því í verslanir hér á landi. „En þetta er vara sem hefur verið kallað eftir að utan,“ segir hann. 

Þórhallur segir úrvalið af dökku súkkulaði í Whole Foods vera mikið og því sé góð sala mikill gæðastimpill. „Við viljum meina að varan sé sérlega góð. Það er sérstök áferð sem hefur fallið vel í kramið hjá þeim auk þess sem gömlu smjörpappírs-umbúðirnar vekja lukku,“ segir hann.

Smellpassa við bragðlaukana

Tólf vörur frá Nóa Síríus eru í dreifingu í dönsku verslanakeðjunni Irma. Þá eru nokkrar í Netto og Aktív-próteinbitarnir eru vinsælir í 7/11. Próteinbitarnir einnig vinsælir í Svíþjóð og nú nýlega í Suður-Kóreu þar sem þeir eru seldir í Hyundai- og Samsung-verslunum, sem helst líkjast Harrods, sem margir Íslendingar þekkja, að sögn Þórhalls.

Eðli málsins samkvæmt segir Þórhallur þó erfitt að einbeita sér að Asíumarkaði sökum fjarlægðar en segir að ýmislegt sé þó hægt með góðum samstarfsaðilum.

Þá segir hann dreifingu á piparperlum nýlega hafna í Noregi og bætir við að Nói Síríus sé nú á fullu að kynna súkkulaði- og lakkrísblönduna í Skandinavíu. „Lakkrísperlur og piparperlur eru tvær af mest seldu vörunum í Danmörku og hlutdeild Trompsins fer vaxandi. Þetta smellpassar við bragðlaukana hjá þeim,“ segir hann.

Stökkt Opal í Rússlandi

Opal nýtur einnig vinsælda utan landsteinanna og eru um tveir fjörutíu feta gámar fullir af Opali sendir til Rússlands á hverju ári. Töflurnar eru hins vegar þurrkaðar lengur fyrir rússneskan markað þannig þær verði stökkari. Þórhallur segir Opalið vera sent út í pokum og endurpakkað í Rússlandi undir rússnesku nafni. Hann segir Nóa Síríus vera vel í stakk búinn til að anna mikilli töfluframleiðslu og eiga auðvelt með að taka að sér verk fyrir önnur fyrirtæki, og þá ef til vill framleiða töflur með öðru bragði eða annarri áferð.

Opal nýtur þá einnig vinsælda á vesturströnd Bandaríkjanna þar sem sælgætið kallast Nu-breath og er markaðssett sérstaklega til þess að fela áfengislykt. 

 Frétt mbl.is: Meira en 10.000 páskaegg úr landi

Konsum-súkkulaðið er mest selda sælgætið á svæði níu.
Konsum-súkkulaðið er mest selda sælgætið á svæði níu.
Töflurnar eru seldar þeim sem vilja draga úr áfengislykt úr …
Töflurnar eru seldar þeim sem vilja draga úr áfengislykt úr vitum sér. Mynd af heimasíðu Nu-Breath
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK