„Komdu heim. Núna“

Björgólfur Thor Björgólfsson er eini íslenski milljarðarmæringurinn að mati Forbes.
Björgólfur Thor Björgólfsson er eini íslenski milljarðarmæringurinn að mati Forbes. mbl.is/Rax

Tvö símtöl hafa skipt sköpum í viðskiptum Björgólfs Thors Björgólfssonar, kaupsýslumanns, frá því í október 2008. Það fyrra frá forseta Íslands og hið síðara frá Sigurði Ólafssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Watson, 2011. Forbes birtir í dag ítarlega umfjöllun um Björgólf og fjárfestingar hans.

Ólafur Ragnar Grímsson var skelfingu lostinn föstudaginn 3. október 2008, þegar fjármálakreppan skall á Íslandi með miklum þunga. Búið var að þjóðnýta Glitni og útlit var fyrir að Landsbankinn væri á sömu leið. Ólafur Ragnar hringdi því í ríkasta mann Íslands sem um leið stýrði Landsbankanum, Björgólf Thor, sem var staddur í London. Skilaboðin voru einföld: „Komdu heim. Núna,“ segir í grein Forbes undir fyrirsögninni Crazy Comeback: From Near Bankruptcy to Iceland's Only Billionaire - Brjáluð endurkoma - frá því að vera næstum því gjaldþrota í að verða eini íslenski milljarðarmæringurinn

Og slökkvistarfið hófst

Blaðið segir að Björgólfur Thor hafi ekki haft ástæðu til annars en að ætla að hann gæti bjargað málunum. Það hafði tekið hann innan við tíu ár að verða einn af 250 ríkustu mönnum heims. Hann fór því heim með einkaþotu og var kominn til Reykjavíkur morguninn eftir og slökkvistarfið hófst.

Næstu ár í lífi Björgólfs einkenndust af þessu björgunarstarfi og hvernig hann gæti gert upp við lánardrottna sína. En á árinu 2011 fékk hann annað símtal sem skipti sköpum. Sigurður Ólafsson, sem áður var forstjóri Actavis, en var á þessum tíma aðstoðarforstjóri bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson, hringdi í Björgólf. Sigurður og forstjóri Watson, Paul Bisaro, vildu skoða samruna Watson og Actavis. Fyrir Björgólf markaði símtalið upphafið á atburðarás sem endaði með yfirtöku Watson á Actavis.

Sigurður segir í viðtali við Forbes að Björgólfur Thor hafi stýrt málum á bak við tjöldin og þrýst á báða aðila að ljúka samningsgerð. Það megi ekki vanmeta hlutverk Björgólfs þegar kemur að samrunanum enda skipti hann gríðarlega miklu máli fyrir Björgólf sem stóran hluthafa í Actavis.

Myndi gera ýmislegt öðruvísi í dag

Í október 2012 var gengið frá samningi um yfirtöku Watson á Actavis og var samningurinn upp á 6 milljarða Bandaríkjadala. Þar af fékk Deutsche Bank um 5,4 milljarða dala í reiðufé, sem er svipað því sem bankinn setti í Actavis fimm árum áður. Björgólfur Thor gat í kjölfarið endurgreitt lánardrottnum sínum og lauk við uppgjör sitt á síðasta ári. Eignir hans eru nú  metnar á 1,3 milljarða Bandaríkjadala eða tæpa 173 milljarða íslenskra króna og Björgólfur skipar 1.415 sæti yfir helstu auðmenn heims að mati Forbes.

Í viðtali við Forbes segir Björgólfur Thor að hann myndi gera ýmislegt öðruvísi núna. „Líkt og dýr sem lærir af frumskóginum,“ segir hann og bætir við að hann ætli sér að læra á þessu. Björgólfur nefnir þar að hann skuldsetji sig ekki lengur líkt og áður og haldi sig við atvinnugreinar sem hann þekki. Nefnir hann þar fjarskiptageirann og samheitalyfjafyrirtæki. Eins að fjárfesta með öðrum í stað þess að starfa einn.

Mammon með skammtímaminni

En minni Mammons nær ekki langt aftur því Björgólfur er byrjaður að fá símtöl frá lánveitendum, þar á meðal Deutsche Bank, sem vilja ólmir lána.

Og hann svarar símanum, segir í grein Forbes. Björgólfur Thor keypti 92% hlut í minnsta farsímafyrirtæki Chile, NextelChile, í janúar og kaupin voru fjármögnuð með láni út á hlut hans í Actavis. Þetta er fyrsta lánið sem Björgólfur Thor tekur í sjö ár. Hann segist reiðubúinn til að fjárfesta þarna frekar eða fyrir allt að hálfan milljarð Bandaríkjadala. 

„Ég er enn ungur,“ sagði Björgólfur Thor í kvöldverðarboði þegar sölunni á Actavis var fagnað. „Ég gæti gert þetta allt aftur. Ég gæti grætt  milljarð, tapað því og haft samt nægan tíma til þess að græða aðra aftur.“

Kannaðist ekki við símtalið

Björgólfur Thor talaði um símtalið við forseta Íslands þegar hann setti vefinn btb.is á laggirnar árið 2010. Ólafur Ragnar Grímsson sagðist hins vegar ekki kannast við fyrrnefnt samtal þegar hann var spurður út í símtalið á mbl.is.

Skýrsla Björns Jóns Bragasonar sem er birt á vef Björgólfs Thors

Hringdi ekki til Björgólfs

Ólafur Ragnar bað Björgólf að koma heim

Umfjöllun Forbes í heild

Björgólfur aftur meðal moldríkra

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands,
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mbl.is/Eggert Jóhannesson
Sigurður Óli Ólafsson ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni
Sigurður Óli Ólafsson ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni mbl.is/G.Rúnar
Af vef Actavis
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK