„Hvernig borðar maður fíl?

Lækkandi olíuverð hefur áhrif á flugfélögin.
Lækkandi olíuverð hefur áhrif á flugfélögin. Sigurður Bogi Sævarsson

Enn er of snemmt að meta hvaða áhrif lægra heimsmarkaðsverð á olíu mun hafa á ferðaþjónustuna að sögn Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar Icelandair Group. Hann segir langtímaáhrif eiga eftir að koma í ljós þar sem við stöndum enn í miðjum framboðsskelli.

Verðið hefur helmingast á tæpu ári, frá um 110 dollurum á fatið niður í 55 dollara. Landsbankinn hefur bent á að haldist verðið svipað gæti þjóðarbúið sparað sér að jafnvirði um 40 milljarða króna í gjaldeyri á árinu, sem jafnast á við gjaldeyristekjur frá 250 þúsund ferðamönnum. Líkt og Sam­tök ferðaþjón­ust­unn­ar hafa áður bent á er gert ráð fyrir að um millj­ón ferðamenn muni leggja leið sína til Íslands á árinu. Samkvæmt útreikningum Landsbankans jafngildir sparnaður þjóðarbússins vegna olíulækkunarinnar því um fjórðungi teknanna sem af þeim má hafa.

Varnir fjara út á næsta ári

Á morgunverðarfundi Landsbankans í morgun var fjallað um þau tækifæri sem fólgin eru í lægra olíuverði. Þar voru áhrif verðlækkunarinnar sett í samhengi við aukinn hagvöxt á Íslandi og benti Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, meðal annars á að verðbólgan í dag væri að líkum um einu prósenti hærri ef ekki væri fyrir lægra olíuverð. Þá vísaði hann til þess að olían hafi bein áhrif á kostnað fyrirtækja og þar með talin flugfélögin.

Halldór B. Þorbergsson sagði að eldsneytisvarnir flugfélaga væru miklar á árinu 2015 en taldi líklegt að áhrif þeirra myndu fjara út á árinu 2016 haldist olíuverðið í lágmarki.  Hann benti á að flugmarkaðurinn hefði vaxið gífurlega á síðastliðnum árum auk þess sem líkur væru á að hann myndi tvöfaldast á næstu tuttugu árum. Jákvæðra áhrifa vegna þessa gætir víðs vegar í rekstri Icelandair að sögn Halldórs.

Vitleysa að horfa á milljón ferðamenn

Þá fór hann á aðra braut í máli sínu og sagði að virði ferðaþjónustunnar á Íslandi ætti að geta haldið áfram að aukast, þrátt fyrir að ferðamönnum fjölgi ekki. „Það á ekki að einblína á höfðafjölda. Það á að auka virði hvers ferðamanns,“ sagði Halldór. 

Hann benti á að samkvæmt mælingum hefðu um 45 þúsund ferðamenn verið daglega á Íslandi yfir sumarmánuðina. Á sama tímabili væru að meðaltali um 20 þúsund Íslendingar erlendis í ferðalögum. „Það skiptir máli að hugsa um þessar tvær tölur og hugsa um hversu margir séu að nýta innviði okkar á hverjum tíma,“ sagði hann. 

Þegar litið er til ferðamanna á Íslandi annars vegar og Íslendinga í útlöndum hins vegar sagði hann nettó áhrifin á heildarfjölda vera að 25 þúsund einstaklingar, umfram heildaríbúafjölda, væru á Íslandi á hverjum tíma. Líta ætti til þess að um 350 þúsund manns væru hér staddir á hverjum degi. „Það er reiknað með einni milljón ferðamanna á næsta ári en það er algjörlega tilgangslaust að horfa á þá risastóru tölu,“ sagði hann. „Hvernig borðar maður fíl?“ spurði Halldór og svarði: „Maður brytjar hann niður.“ 

„Lækkun olíuverðs mun auka hagvöxt í gegnum allar helstu stærðir en við þurfum að meta ávinninginn á skynsamlegan máta,“ sagði hann að lokum.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur nær helmingast á tæpu ári.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur nær helmingast á tæpu ári. AFP
Landsbankinn stóð í morgun fyrir morgunverðarfundi um þau tækifæri sem …
Landsbankinn stóð í morgun fyrir morgunverðarfundi um þau tækifæri sem fólgin eru í lægra olíuverði. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK