Olíuverðið nær helmingast

Til lengra tíma litið mun lækkandi olíuverð líklegast skila meiri …
Til lengra tíma litið mun lækkandi olíuverð líklegast skila meiri hagvexti á heimsvísu. Retuers

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur næstum því helmingast frá því seinasta sumar. Um miðjan júnímánuð í fyrra kostaði tunna af Brent-hráolíu um 115 Bandaríkjadali en um þessar mundir er verðið um það bil sextíu Bandaríkjadalir. Áhrifin af þessu miklu verðhruni eru margvísleg en meðal annars er talið að tuttugu dollara lækkun á olíuverði auki hagvöxt í heiminum um 0,5%.

Olíulækkunin teygir einnig anga sína til Íslands en þrjátíu dollara varanleg lækkun á olíuverði gæti haft þau áhrif hér á landi að hagvöxtur ykist um 1,4%.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Gísla Halldórssonar, hlutabréfasérfræðings hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, á upplýsingafundi sem VÍB stóð fyrir um stöðu erlendra markaða á þriðjudag. Gísli fjallaði meðal annars um hríðlækkandi olíuverð og áhrif þess á efnahag ríkja.

Hann benti meðal annars á að Sádí-Arabar og Rússar væru langstærstu nettóútflytjendur á olíu í heiminum. Árið 2013 hefði nettóútflutningur Sádí-Araba verið um átta milljónir olíutunna á hverjum degi og rúmlega sex milljónir í Rússlandi. Augljóslega væri mikið í húfi fyrir ríkin og til marks um það sagði Gísli að olíuverðið gæti vart haldist undir hundrað dollara ef ríkin ætluðu sér að reka ríkissjóð sinn án halla. Hvað það varðaði væri ástandið einkar verst í Íran og Barein, þar sem olíuverðið þyrfti að nema um 140 Bandaríkjadölum til að það gæti staðið undir ríkisútgjöldum ríkjanna.

Níutíu milljónir tunna á dag

Þá kom fram í máli Gísla að um mitt seinasta sumar, þegar olíuverðið var í kringum 115 dollara, hefði útflutningsverðmæti stærsta nettóútflytjandans, Sádí-Arabíu, numið 360 milljörðum Bandaríkjadala. Þegar verðið lækkaði skarpt niður í 85 dollara, þá hríðlækkaði útflutningsverðmætið jafnframt líka og fór niður í 270 milljarða dollara.

Til að gera enn frekari grein fyrir hversu miklir fjármunir væru í húfi benti Gísli á að heimsframleiðsla á olíu væri um níutíu milljónir tunna á dag. Þegar verðið á olíutunnunni væri 115 dollarar, þá næmi verðmætið um 3.700 milljörðum dollara. Á 85 dollara á tunnu gerði það um 2.800 milljarða dollara og loks þegar tunnan kostaði sextíu dollara, þá væri verðmætið aðeins um það bil 1.900 milljarðar dollara. Til samanburðar væri heildarneysla 4,5 milljarða fátækustu jarðarbúanna um 5.000 milljarðar dollara á ári.

Fælandi áhrif á fjárfesta

Þess má geta að alþjóðlega matsfyrirtækið Moody’s spáir því að verð á tunnu af Brent-olíu verði um það bil 55 Banda­ríkja­dal­ir að meðaltali á þessu ári og hækki síðan í 65 Banda­ríkja­dali á því næsta.

Það er í takti við spár annarra sér­fræðinga. Spá Alþjóðaorku­mála­stofn­un­ar­inn­ar ger­ir til að mynda ráð fyr­ir að verð hækki upp í um það bil 73 dali á tunnu árið 2020.

Vignir Þór Sverrissonar, fjárfestingarstjóri hjá VÍB, sagði í erindi sínu á fundinum að verðhrunið á olíu hefði greinilega haft fælandi áhrif á fjárfesta. Samkvæmt greiningu Alpha Research á eignasöfnum 54 eignastýringarfyrirtækja víða í heiminum forðast fjárfestar að kaupa hrávörur, sem eru nú í undirvigt. Eins er efnahagsástandið síður en svo bjart í helstu olíuframleiðlsuríkjum heims.

Gísli Halldórsson, hlutabréfasérfræðingur hjá VÍB, hélt erindi á fundinum.
Gísli Halldórsson, hlutabréfasérfræðingur hjá VÍB, hélt erindi á fundinum. mbl.is/Eggert
Vel var mætt á fundinn sem haldinn var í höfuðstöðvum …
Vel var mætt á fundinn sem haldinn var í höfuðstöðvum Íslandsbanka. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK