Tekjur Landsbankans of lágar

mbl.is/Hjörtur

Tekjur Landsbankans án stórra einskiptisliða teljast of lágar og þurfa að aukast á næstu árum. Þegar sleppt er stórum liðum sem munu skila litlu á næstu árum nemur arðsemi eiginfjár einungis um fimm til sex prósentum en í ársreikningi bankans kemur fram að arðsemin hafi numið 12,5 prósentum.

Ný stefna var kynnt á aðalfundi bankans í dag en markmið hennar er að ná arðseminni til frambúðar yfir 10% að fjórum árum liðnum. Bankasýslan, sem fer með eignarhlut ríkisins í bankanum, hefur lagt að bankanum að bæta reglubundinn rekstur með lækkun kostnaðar og aukningu þjónustutekna. Því hefur bankinn mótað hina nýju stefnu.

Annar veruleiki blasir við bankanum

Í ræðu sinni vísaði Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs, til þess að opinberlega hefði komið fram gagnrýni á góða afkomu bankans og að látið hefði verið að því liggja að hún byggist á of háum vaxtamun og þjónustugjöldum. „Sá veruleiki sem blasir við bankaráðsmönnum og stjórnendum bankans er allt annar,“ sagði Tryggvi og bætti við að gera þyrfti eðlilegar kröfur til arðsemi eigin fjár bankans sem nemur um 250 milljörðum króna. 

Hann sagði arðsemina vissulega hafa verið háa á undanförnum árum en benti á að drjúgur hluti þess skýrist af virðisbreytingum útlána, gengishagnaði, hagnaði af eignum á markaði og sölu eigna. „Viðbúið er að þessir liðir skili litlu á næstu árum og því eru allar horfur á að arðsemi bankans minnki,“ sagði Tryggvi.

Starfsfólki verður fækkað

Tryggvi sagði að starfsfólki bankans yrði fækkað nokkuð á næstu árum en samt sem áður verður lögð áhersla á að laða að, þjálfa og halda í rétta fagfólkið. Þá sagði hann að hagræði í bankanum kallaði m.a. á það að kenna viðskiptavinum að afgreiða sig í auknum mæli sjálfir í gegnum sjálfsafgreiðslulausnir bankans.

Á aðalfundi bankans var samþykkt að greiða arð til hluthafa sem nemur 1,00 krónu á hlut, sem samsvarar um 80% af hagnaði ársins. Að þeirri greiðslu lokinni nema samanlagðar arðgreiðslur til ríkisins fyrir rekstrarárin 2012, 2013 og 2014 tæpum 54 milljörðum króna.

Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs.
Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK