Þriðjungur nær tæplega endum saman

Einn af hverjum tíu landsmönnum safnar skuldum.
Einn af hverjum tíu landsmönnum safnar skuldum. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Einn af hverjum tíu landsmönnum safnar skuldum og endar ná með naumindum saman hjá þriðjungi þjóðarinnar. En 11 prósent landsmanna gengur á sparifé sitt til þess að ná endum saman.

Þetta kemur fram í Þjóðarpúls Gallup þar sem fram kemur að staða heimilanna líti aðeins betur út en í síðustu könnun sem gerð var fyrir þremur árum þar sem um þriðjungur getur safnað svolitlu sparifé og rösklega 7 prósent getur safnað talsverðu sparifé.

Fólk undir þrítugu getur helst safnað sparifé en síst fólk á aldrinum 30 til 39 ára. Þeir sem eru með háskólapróf eru ólíklegri til að safna skuldum en þeir sem hafa minni menntun. Þá getur fólk almennt frekar safnað sparifé eftir því sem tekjur þess eru hærri.

Þeir sem styðja ríkisstjórnina líklegri til að spara

Niðurstöðurnar sýna að þeir sem myndu kjósa Bjarta framtíð eða Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru ólíklegri til að safna skuldum og líklegri til að ná að safna sparifé en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem styðja ríkisstjórnina eru þá líklegri til að ná að safna sparifé en þeir sem styðja ekki stjórnina.

Fjórir af hverjum tíu sögðu einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt en fjölskylda var skilgreind bæði sem allra nánasta fjölskylda og nánir ættingjar eins og frænkur og frændur. Þetta hlutfall hækkaði talsvert milli áranna 2007 og 2011 og hefur farið heldur hækkandi síðan þá.

Fólk á aldrinum 40 til 49 ára er líklegra, en þeir sem yngri eða eldri eru, til að segja einhvern fjölskyldumeðlim búa við fátækt. Þeir sem myndu kjósa flokk sem ekki á sæti á Alþingi í dag eru þá jafnframt líklegri til að eiga fátækan fjölskyldumeðlim en þeir sem myndu kjósa einhvern þeirra flokka sem sæti eiga á þingi. Þeir sem styðja ekki ríkisstjórnina eru jafnframt líklegri til að segja fjölskyldumeðlim búa við fátækt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK