SV í alvarlegum kröggum

Sparisjóður Vestmannaeyja starfar í Vestmannaeyjum, á Höfn í Hornafirði og …
Sparisjóður Vestmannaeyja starfar í Vestmannaeyjum, á Höfn í Hornafirði og á Selfossi. Eiginfjárvandi sjóðsins tengist helst útlánasafni frá Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja (SV) leitar nú allra leiða til að auka eigið fé sjóðsins um 1.200 milljónir króna en athugun á útlánasafni hans, sem ráðist var í undir lok árs 2014, leiddi í ljós að raunverulegt eiginfjárhlutfall sjóðsins er undir því lágmarki sem Fjármálaeftirlitið hefur sett. Sjóðurinn hefur frest til síðdegis á föstudaginn til að bæta úr stöðunni en að öðrum kosti mun FME grípa til aðgerða og skipa skilanefnd yfir sjóðinn.

Vilhjálmur Egilsson, varaformaður stjórnar SV, segir að vandinn sé mikill en að stjórnin telji sig geta leyst úr honum innan þess frests sem gefinn var. „Auðvitað finnst okkur fresturinn styttri en æskilegt væri en við höfum fulla trú á því að lausn verði komin fyrir lok dags á föstudag, en málið er í góðum farvegi. Um leið og stjórnin gerði sér grein fyrir því að útlánasafnið var mun veikara en áður var talið var gripið til aðgerða og Fjármálaeftirlitinu gert viðvart.“ Síðan þá hefur verið unnið með FME að úrlausn málsins.

Útlánasafn Sparisjóðsins er bókfært í hálfsársuppgjöri hans fyrir árið 2014 á rétt rúma 8 milljarða króna. „Það er fyrst og fremst útlánasafnið frá Selfossi sem ekki hefur reynst jafn gott og áður var talið. Svo virðist vera sem safnið hafi verið ofmetið þegar sjóðurinn gekk í gegnum endurskipulagningu árið 2010,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir stefnt að því að breyta víkjandi lánum að fjárhæð 400 milljónir í eigið fé, 600 milljónir komi með nýju eiginfjárframlagi og 200 milljónir verði sóttar með víkjandi lánum sem teljist með þegar eiginfjárgrunnur sjóðsins er metinn. Þá segist hann geta fullyrt að engin innlán séu í hættu.

Sparisjóður Vestmannaeyja er að stærstum hluta í eigu ríkisins en Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlutinn fyrir þess hönd. Eignarhlutur þess er til kominn vegna stofnfjárframlags upp á 555 milljónir króna sem lagt var fram til bjargar sjóðnum í kjölfar þeirra erfiðleika sem mynduðust í árslok 2008. Aðrir stórir stofnfjáreigendur eru Lífeyrissjóður Vestmannaeyja með 14,3%, Vestmannaeyjabær með 10,2%, Vinnslustöðin 5% og Tryggingasjóður sparisjóða 2,8%. Þessir aðilar komu inn í rekstur sjóðsins á sama tíma og ríkissjóður en fram til ársins 2007 voru stofnfjáreigendur aðeins einstaklingar í Vestmannaeyjum. Frá þeim tíma tók stofnfjárskráin nokkuð að riðlast og hlutir að færast á færri hendur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK