Huga að bensínstöð í landi Lundar

Olís er með starfsleyfi fyrir stöðina í Hamraborg til ársins …
Olís er með starfsleyfi fyrir stöðina í Hamraborg til ársins 2021. mbl.is/Ómar

„Við höfum átt þessa lóð mjög lengi og höfum í gegnum tíðina haft fullan hug á því að byggja þar stöð. Við höfum verið að reyna að komast út úr erfiðu rekstrarumhverfi allt frá hruni og af þeim sökum verið að bíða eftir því að við höfum tækifæri til að huga að málinu,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, í samtali við mbl.is.

Í umfjöllun Kópavogsblaðsins fyrr í þessum mánuði um bílageymslu í Hamraborg í Kópavogi kemur fram að olíufélagið hafi frá árinu 1974 átt lóð við Nýbýlaveg í landi Lundar. Lóðin hefur því verið í eigu Olís í fjörutíu ár en enn gæti orðið nokkur bið á því að þar rísi bensínstöð. Verði hún reist á næstu árum mun hún ekki endilega koma í stað þeirrar sem nú er í Hamraborg. 

Fallið var frá lok­un bíla­geymslunnar í Hamra­borg um miðjan síðasta mánuð þar sem skil­yrði sem sett höfðu verið af Slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins voru upp­fyllt. Deilt hafði verið um upp­setn­ingu bruna­varna í bíla­geymslu Hamra­borg­ar 14 til 38.

Frétt mbl.is: Fallið frá lokun bílageymslunnar

Eld­varn­ir í bílageymslunni hafa verið óviðun­andi í ára­tugi og ákvað slökkviliðsstjóri um miðjan des­em­ber að loka efri hluta bíla­geymsl­unn­ar til að tryggja ör­yggi íbúa. Slökkviliðið hef­ur meðal ann­ars sagt að geymsl­an sé bruna­gildra og þar geti skap­ast hætta á stór­felld­um elds­voða.

Hafa lagt drög að hönnun stöðvarinnar

Jón Ólafur bendir á Olís sé með mörg verkefni sem hafi þurft að fresta í langan tíma og alltaf þurfi að forgangsraða verkefnum.

„Þetta verkefni er það stórt að við höfum kosið að klára önnur smærri áður en við komumst að þessu. Þetta verkefni er áhugavert og spennandi að okkar mati og við teljum að það sé þörf fyrir það en við þurfum að finna réttan tímapunkt til að geta farið af stað með málið,“ segir Jón Ólafur.

Búið er að leggja drög að hönnun nýrrar stöðvar. „Við höfum lagt vinnu í þetta samhliða öðrum verkefnum. Þær hugmyndir taka mikið mið af því að stöðin geti fallið vel að umhverfinu og verði mjög hugguleg og flott.  Við erum að leggja okkur fram í þeirri hugmyndavinnu að taka mið af því að geta verið þarna í góðri sátt við alla,“ segir Jón Ólafur.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði mjög kostnaðarsöm en meðal annars þarf að fylla töluvert upp í landið þar sem gert er ráð fyrir að stöðin muni rísa. Olís er með starfsleyfi fyrir stöðina í Hamraborg til ársins 2021.

Meðvituð um afstöðu íbúa í Hamraborg

Mun stöð við Nýbýlaveg koma í staðinn fyrir stöðina í Hamraborg?

„Við höfum alltaf litið svo á að þetta séu tvö aðskilin mál. Auðvitað munum við skoða hagkvæmustu lausnina fyrir okkur og sem við teljum að þjóni best íbúum Kópavogs og annarra sveitarfélaga sem þarna eiga leið um. Við eigum alveg eftir að taka afstöðu til þess. Við erum mjög vel meðvituð um afstöðu íbúa í Hamraborg,“ segir Jón Ólafur.

Hann bendir á að félagið hafi komið inn í Hamraborgina á sínum tíma þegar húsið var í byggingu og þegar búið var að leita til annarra olíufélaga sem höfðu ekki áhuga á að þjóna íbúum Kópavogs á þessum stað.

„Við tókum boltann til að byggja upp þjónustu á þessu svæði. Nú eru komin önnur sjónarmið. Við virðum þau en bendum á að við höfum uppfyllt allar reglugerðir sem settar eru á okkur þarna og munum gera eins lengi og við höfum starfsleyfi. Einhvern tíma kemur stöð eins og Hamraborgin á tíma varðandi viðhald. Þá metum við þá stöðu á nýjan leik. Ef við verðum á þeim tíma komin með stóra og öfluga stöð við Nýbýlaveg er vel mögulegt að sú þjónustustöð gæti leyst þessa þætti af hólmi,“ segir Jón Ólafur.

Frétt mbl.is: Deilan um brunagildruna óleyst

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK