Tuttugu kreppur á 150 árum

Ellefu gjaldeyriskreppur hafa myndast á síðastliðnum 150 árum.
Ellefu gjaldeyriskreppur hafa myndast á síðastliðnum 150 árum. mbl.is/Golli

Á næstum 150 á tímabili hafa orðið yfir tuttugu gjaldeyris-, verðbólgu- og bankakreppur á Íslandi og þar af eru sex stórar og „fjölþættar“ fjármálakreppur sem skollið hafa á hér á landi á um það bil fimmtán ára fresti.

Þetta kom fram í kynningu á fyrri hluta rannsóknar á sögu fjármálakreppa á Íslandi á árunum 1875 til 2013 í Seðlabankanum í dag. Að rannsókninni standa Bjarni G. Einarsson, Kristófer Gunnlaugsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson og Þórarinn G. Pétursson, sem starfa á hagfræði- og peningamálastefnusviði Seðlabanka Íslands.

Stefnt er að því að klára rannsóknina fljótlega og gefa hana út í rannsóknarritröð SÍ og er vinna við seinni hluta hennar jafnframt hafin og er stefnt að því að ljúka henni á þessu ári. Markmiðið er að fjalla um megineinkenni fjármálakreppa og greina þróun helstu fjármála- og þjóðhagsstærða í aðdraganda og kjölfar þeirra.

Ekkert er nýtt

Í kynningunni var vísað til orða Marie-Jeanne Rose Bertin, fatahönnuðar Marie Antoinette, fyrrum Frakklandsdrottningar, sem sagði „There is nothing new except what has been forgotten“ eða „Það er ekkert nýtt fyrir utan það sem hefur gleymst.“

Á málstofunni kom fram að fjármálakreppan árið 2008 hefði verið gríðarlega umfangsmikil í alþjóðlegu samhengi og afleiðingar hennar verulegar þar sem gengi krónunnar lækkaði um liðlega 50% og ríflega 92% af fjármálakerfinu féll. Þá dróst landsframleiðsla saman um næstum 12%, innlend eftirspurn um 30% og atvinnuleysi jókst um 7 prósentur.

Þessi fjármálakreppa var hins vegar ekki sú fyrsta sem skellur á hér á landi. Niðurstöður rannsóknirnar sýna að á næstum 150 ára tímabili hafa orðið 20 gjaldeyris-, verðbólgu- og bankakreppur á Íslandi. Út frá þeim er hægt að greina sex stórar á fimmtán ára fresti.

Farið var yfir að algeng atburðarás fæli í sér að verulegur samdráttur á innlendri eftirspurn kæmi fjármálakreppunni af stað. Þá fylgir gjaldeyriskreppa, sem oft kemur í kjölfar skyndilegra straumhvarfa á innflæði erlends gjaldeyris. Verðbólgukreppa fylgir þá stundum í kjölfarið og að síðustu kemur gjarnan bankakreppa sem dýpkar efnahags-kreppuna enn frekar

Ellefu gjaldeyriskreppur

Alls hafa ellefu misalvarlegar gjaldeyriskreppur myndast, en flestar hafa þær verið frekar stuttar. Ein þeirra var þó mjög löng og varði í tólf ár á árunum 1974 til 1985, Gjaldeyriskreppan í kjölfar fjármálahrunsins 2008 varði til samanburðar einungis í tvö ár. Þá áttu þær allar sér stað, utan þeirrar síðustu, þegar fastgengisstefna var við lýði.

Þá hafa fimm verðbólgukreppur átt sér stað en þær eru nátengdar gjaldeyriskreppum og koma jafnan í kjölfar þeirra. Sú lengsta varði í sautján ár frá 1973 til 1989.

Flestar gjaldeyriskreppurnar eiga sér stað um leið og viðsnúningur verður í jöfnuði í viðskiptum við útlönd, sem talið er benda til náinna tengsla vandamála við að fjármagna viðskiptahalla og gjaldeyriskreppa. Tvær gjaldeyriskreppur uppfylla þá hefðbundna skilgreiningu á „sudden stop“ kreppu, þ.e. kreppan árið 1919 og 2008 auk þess sem kreppan árið 1932 kemst nálægt því en allar þrjár leiddu til innleiðingar fjármagnshafta. Fram kom að þetta mætti einnig sjá í erlendri fjármögnun banka í síðustu kreppunni en hins vegar síður í öðrum, m.a. vegna inngripa ríkis.

Þrjár kerfislægar bankakreppur

Þegar að kemur bankakreppum má greina tvær minni, þ.e. með Útvegsbankann á árinu 1985 og Landsbankann á árinu 1993. Þá eru þrjár kerfislægar; Árið 1920 þegar Íslandsbanki og Landsbanki þurftu lausafjáraðstoð, 1930 þegar Íslandsbanki fór í þrot og Landsbankinn þurfti lausafjáraðstoð og 2008 þegar yfir 90% af fjármálakerfinu féll.

Tíðni bankakreppa, lengd, umfang og áhrif á ríkissjóð er þá svipuð að meðaltali á Íslandi og meðal annarra iðnríkja. Sú síðasta stendur hins vegar upp úr þar sem einungis má finna sex tilvik frá árinu1970 þar sem meira en 90% af fjármálakerfinu fellur.

Mismunandi tegundir fjármálakreppa hafa tilhneigingu til að koma hver á fætur annarri og hægt er að finna sex tilvik fjölþættra bankakreppa á Íslandi sem bresta á á u.þ.b. 15 ára fresti og vara í tæplega 4 ár í senn þar sem landsframleiðsla dregst að meðaltali saman um 5% og innlend eftirspurn á mann um 19%.

Þetta eru fjármálakreppurnar 1914-21, 1931-32, 1948-51, 1968-69, 1991-93 og 2008-10.

Fimm af sex með alþjóðlega samsvörun

Bent var á að fjármálakreppur geta smitast frá einu landi til annars í gegnum fjárhagsleg tengsl landa eða orðið alþjóðlegar vegna sameiginlegra uppspretta. Alþjóðlegar fjármálakreppur virðast hafa sterk áhrif á innlendar bankakreppur og almennar fjármálakreppur en hins vegar minni á innlendar gjaldeyris- og verðbólgukreppur. 

Sterkur samhljómur hefur verið með fjármálakreppum hér og landi og alþjóðlega og er í raun einungis ein, á árunum 1968 til 1969 sem virðist ekki eiga sér neina alþjóðleg samsvörun.

Í kynningunni sagði að engin ein fjármálastærð varaði kerfisbundið við öllum fjármálakreppunum. Í aðdragandanum mætti þó stundum sjá skýr hættumerki í þróun fjármálastærða og þá sérstaklega í þeirri síðustu. Skýrustu merkin sjást hins vegar gjarnan í vaxandi innra og ytra ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, líkt og t.d. í óhóflegri eftirspurn og miklum halla á viðskiptum við útlönd.

Fjallað var um rannsóknina á málstofu um bankakreppur á Íslandi …
Fjallað var um rannsóknina á málstofu um bankakreppur á Íslandi í dag. mbl.is/Árni Sæberg
Ríflega 92% af fjármálakerfinu féll á árinu 2008.
Ríflega 92% af fjármálakerfinu féll á árinu 2008. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK