Eins og að nota fallbyssu á rjúpu

Rjúpa við Elliðavatn. Ásgeir Jónsson, segir innleiðingu þjóðpeningakerfis vera líkt …
Rjúpa við Elliðavatn. Ásgeir Jónsson, segir innleiðingu þjóðpeningakerfis vera líkt og að nota fallbyssu til þess að veiða rjúpu í jólamatinn. Vandamálið sé lítið í samanburði við kostnaðinn. Ómar Óskarsson

„Meg­in­stefið er að sumu leyti rétt og það get­ur verið ástæða til þess að aðskilja greiðsluþjón­ustu frá út­lána­starf­semi en þetta er eins og að nota fall­byssu til þess að veiða rjúpu í jóla­mat­inn,“ seg­ir Ásgeir Jóns­son, hag­fræðing­ur, um nýja skýrslu Frosta Sig­ur­jóns­son­ar, for­manns efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is, um end­ur­bæt­ur á pen­inga­kerf­inu.

Skýrsl­an, sem unn­in var að beiðni for­sæt­is­ráðherra, skoðar að hvaða leyti megi rekja vanda­mál í stjórn pen­inga­mála hér á landi til þess að bönk­um sé heim­ilt að „búa til pen­inga‟ þegar þeir veita lán.

Þar legg­ur Frosti til hug­mynd að svo­kölluðu þjóðpen­inga­kerfi þar sem öll inn­lán sem nú eru hjá viðskipta­bönk­un­um yrðu færð yfir í Seðlabank­ann sem jafn­framt myndi stjórna pen­inga­magni í um­ferð.

Halda magn­inu stöðugu með þjóðpen­ing­um

Þegar inn­lán­in væru færð yfir myndi Seðlabank­inn eign­ast kröfu á hvern banka að sömu fjár­hæð. Sú krafa yrði alls um 452 millj­arðar króna og myndi greiðast upp á tíu árum. Í hvert skipti sem greitt yrði af kröf­unni myndi pen­inga­magn í um­ferð minnka og Seðlabank­inn þyrfti að láta búa til nýja „þjóðpen­inga“ til þess að að halda magn­inu stöðugu.

Það yrði t.d. gert með því að auka rík­is­út­gjöld, draga úr skatt­tekj­um, greiða upp rík­is­skuld­ir eða með því að greiða arð til rík­is­borg­ara eða skatt­greiðenda.

Viðskipta­bank­arn­ir myndu þó áfram bjóða upp á bundna inn­láns­reikn­inga sem fólk gæti lagt inn á til þess að fá hærri vexti og tæki jafn­framt af því áhætt­una. Á þeirra veg­um væru þó eng­ir reikn­ing­ar sem fyr­ir­vara­laust er hægt að taka út af.

Aðspurður sagði Frosti að ef sátt myndi skap­ast um lausn­ina og ef ákveðið yrði að inn­leiða hana þyrfti ferlið sjálft ekki að taka meira en sex mánuði í fram­kvæmd þótt tíu ár tæki að greiða upp kröfu Seðlabank­ans á bank­ana.

Óraun­hæf­ar til­lög­ur

Ásgeir seg­ir skýrsl­una áhuga­verða og von­ast til þess að hún geti komið af stað umræðu um málið en tel­ur til­lög­urn­ar þó ekki raun­hæf­ar. Aðspurður seg­ir hann einnig hættu á efna­hags­legri stöðnun þar sem erfiðara yrði að nálg­ast láns­fjár­magn. Banka­kerfið myndi minnka veru­lega og þar af leiðandi yrði mun minna af fjár­magni til reiðu á miklu hærri vöxt­um. „Ég held að vanda­málið sem verið er að leysa með þessu sé lítið í sam­an­b­urði við kostnaðinn sem af þessu myndi hljót­ast.“

Hann seg­ir ljóst að fáir vilji binda pen­ing­ana sína til lengri tíma, held­ur vilji fólk al­mennt hafa þá lausa. Þá vilji flest­ir jafn­framt eiga kost á láni til lengri tíma, fyr­ir­tæki vilji eiga kost á láns­tíma til jafns við end­ing­ar­tíma fram­leiðslu­tækja og ein­stak­ling­ar vilji miða hús­næðislán­in við vinnuæv­ina. „Það er ákveðin þver­sögn til staðar. Fólk vill spara en það vill ekki binda pen­ing­ana sína. Á sama tíma vilja fáir taka lán nema til langs tíma,“ seg­ir hann og bæt­ir við að brota­forðakerfið svo­kallaða, sem er kerfið sem Íslend­ing­ar og aðrar þjóðir búa við, mæti þess­ari þörf.

Ekki prent­un að ástæðulausu

Frosti vísaði til þess að nítj­án­föld aukn­ing hefði verið á pen­inga­magni í um­ferð á fjór­tán árum fram að ár­inu 2010 og að nauðsyn­legt væri að koma bönd­um á þró­un­ina. Ásgeir bend­ir á að bank­arn­ir séu ekki einir og sér að prenta pen­inga og neyða þá upp á hag­kerfið. „Peningamagn er innlán. Það er alltaf einhverjir sem eiga innlánin og það af ástæðu. Fólk hefur bæði þörf fyrir innlán og útlán og bankarnir mæta þessari þörf,“ segir Ásgeir.

Þá bætir hann við að peningaprentunin sé heldur ekki ókeypis þar sem bankarnir greiða innlánavexti og sinna greiðsluþjónustu fyrir viðskiptavini sína. „Segja má að útibúanetið, greiðsluvélar og alls kyns utanumhald séu það gjald sem bankarnir greiða fyrir skammtímainnistæður. Það er mikið efamál að Seðlabankinn hefði síðan arð af því að taka þessa starfsemi yfir samhliða því að fá öll innlánin til sín og líklega á það eftir að reynast mjög dýr fjármögnun fyrir ríkissjóð.“

Ásgeir seg­ir ákveðinn ávinn­ing geta verið af því að aðskilja greiðsluþjón­ustu og út­lán og tel­ur í raun að það muni ger­ast á næstu árum. Þá umræðu seg­ir hann í gangi og tengj­ast skugga­banka­starf­semi, sem færst hef­ur í auk­ana, og merk­ir það þegar aðrir aðilar en bank­ar eru að taka að sér hefðbundna banka­starf­semi, s.s. að lána pen­inga. Bend­ir Ásgeir á að ástæða væri til að aðskilja hefðbundna og áhættu­litla banka­starf­semi með lág­um vöxt­um og áhættu­meiri fjár­fest­inga­starf­semi með hærri vöxt­um.

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.
Ásgeir Jónsson, hagfræðingur. Ómar Óskarsson
Frosti Sigurjónsson, kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í dag.
Frosti Sigurjónsson, kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í dag. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK