Bankasýslan verði lögð niður

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum en við gildistöku þeirra er meðal annars gert ráð fyrir að lög um Bankasýslu ríkisins falli úr gildi og stofnunin þar með lögð niður.

Samkvæmt frumvarpinu verður fjármálaráðherra heimilt að selja að hluta eða öllu leyti eignarhluti ríkisins í Arion banka, Íslandsbanka og sparisjóðum auk eignarhluta ríkisins í Landsbankanum umfram 70% hlut ríkisins af heildarhlutafé bankans, að fenginni heimild í fjárlögum. Þá verður ráðherra ennfremur heimilt að sameina sparisjóði öðrum fjármálafyrirtækjum.

Fram kemur að Ríkisendurskoðun skuli hafa eftirlit með söluferli eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. „Þegar sölumeðferð er lokið skal ráðherra leggja fyrir Alþingi skýrslu um sölumeðferð eignarhlutarins þar sem gerð skal grein fyrir helstu niðurstöðum söluferlisins með hliðsjón af markmiðum þess.

Ráðherra getur samkvæmt frumvarpinu tekið ákvörðun að eigin frumkvæði, eða að fenginni tillögu ráðgjafarnefndar um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu, um að hefja sölumeðferð einstakra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að í nefndinni sitji þrír einstaklingar og einn til vara, skipaðir af ráðherra án tilnefningar. 

„Ráðgjafarnefndin skal vera sjálfstæð í störfum sínum og setur sér starfsreglur sem skulu birtar opinberlega. Þeir sem skipaðir eru í ráðgjafarnefnd skulu vera óvilhallir og hafa haldgóða menntun og reynslu, þekkingu á stjórnsýslu, auk sérþekkingar á banka- eða fjármálum. Nefndarmenn skulu vera lögráða og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK