Erfingi ríkidæmis fannst látinn

Ekki talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Ekki talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. AFP

Andrew Getty, barnabarn olíufurstans J. Paul Getty og einn af erfingjum ríkidæmis hans, fannst látin á heimili sínu í Los Angeles í gær. Hann var 47 ára gamall.

Var Getty nakinn fyrir neðan mitti er hann fannst. Leit út fyrir að hann hafi orðið fyrir einhverskonar höggi. Ekki er talið að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

The Washington Post segir frá þessu. 

Kona sem stödd var í húsinu er Getty fannst er nú í yfirheyrslum. Samkvæmt frétt The L.A. Times hafði Getty sótt um nálgunarbann gegn annarri konu fyrir tveimur vikum. Ekki er vitað hver það var. Heimildarmaður blaðsins innan lögreglunnar segir að engin ástæða sé til þess að tengja þá konu við dauða Getty. 

Bandaríska slúðursíðan TMZ heldur því fram að konan sem var á heimili Getty er hann fannst sé fyrrum kærasta hans. Kemur jafnframt fram að lögregla hafi verið kölluð til heimilisins í 31 skipti síðustu ár vegna parsins en þá voru þau yfirleitt undir áhrifum fíkniefna. 

Andrew Getty er sonur Gordon Getty, en samkvæmt tímaritinu Forbes er hann metinn á 2,1 milljarð bandaríkjadali. Þó svo að ekki sé vitað hvað gerðist á heimili Andrew Getty í gær er ljóst að hneyksli og harmleikir hafa verið áberandi í Getty fjölskyldunni síðustu áratugina. 

„Saga Getty fjölskyldunnar er augljóst dæmi um að peningar kaupa ekki hamingju,“ sagði í tímaritinu Forbes árið 2011. 

Ríkasti almenni borgari heims

J. Paul Getty fæddist árið 1892. Hann græddi milljónir á því að kaupa og selja olíuleyfi í Oklahoma. Var hann búinn að græða sínu fyrstu milljón áður en hann varð 25 ára. Fluttist hann þá til Los Angelse til þess að lifa „glannalegu lífi, fullu af stúlkum“ eins og The New York Times orðaði það.

Fór hann þó fljótlega aftur út í viðskipti stuttu eftir fyrri heimstyrjöld og græddi þá enn frekar. Árið 1957 var hann ríkasti almenni borgari heims.

 En eins og fram hefur komið gerðu peningarnir Getty ekki hamingjusaman. Kvæntist hann fimm sinnum en skildi jafnoft. Vann hann sér inn orðspor sem nánös og voru uppi sögusagnir þess efnis að hann hafi látið setja upp peningasíma á heimili sínu. 

„Ef ég væri sannfærður um það að gefa frá mér eignir mínar myndi leysa fátækt heimsins myndi ég gera það. Ég myndi gefa 99,5% þess sem ég á strax,“ sagði hann eitt sinn. „En mat mitt á ástandinu er það að það myndi ekki leysa vandamálin.“ Getty var öflugur listmunasafnari og gaf hann milljónir bandaríkjadali til Getty safnsins í Los Angeles. 

Hann lést árið 1976, 83 ára gamall. Afkomendur hans hafa margir ekki verið eins langlífir og hafa sumir þeirra þurft að ganga í gegnum tímana tvenna. 

Lánaði fyrir lausnargjaldi

Þremur árum áður en Getty lést, 1973, var J. Paul Getty III, barnabarni auðkýfingsins rænt af mannræningjum í Róm. Kröfðust ræningjarnir 17 milljón bandaríkjadala í lausnarfé. Var það aðeins örlítið brot af ríkidæmi Getty sem neitaði þrátt fyrir það að borga. 

„Ef ég borga eina krónu núna, verður fjórtán barnabörnum rænt,“ á auðkýfingurinn að hafa sagt.

Fjölskyldan greiddi að lokum 2,2 milljónir bandaríkjadali til þess að fá drenginn lausann. Fékkst hluti peningsins lánaður frá afanum, með 4% vöxtum. Var barnabarnið óskaddað að mestu, en missti reyndar eyra í átökum við mannræningjana.  Eftir að honum varð sleppt varð Getty III þekktur fyrir eiturlyfjafíkn sína og drykkju. Var hann góður vinur listamannsins Andy Warhol. Árið 1981 tók hann of stóran skammt eiturlyfja sem varð til þess að Getty III var bundinn við hjólastól. Hann lést árið 2011, 54 ára að aldri. 

Yfirgaf viðskiptin fyrir tónlistina

Voru þó aðrir afkomendur auðkýfingsins ekki að slá í gegn á meðan. Gordon Getty, faðir Andrew sem fannst látinn í gær, viðurkenndi árið 1999 að hann ætti þrjú börn með konu, en ekki þeirri sem hann var kvæntur. Komst málið upp er dætur hans breyttu eftirnafni sínu í Getty. 

„Nicolette, Kendalle og Alexandra eru börnin mín,“ sagði Getty í yfirlýsingu. „Móðir þeirra, Cynthia Beck, og ég elskum þær mjög mikið.“

Á níunda áratugnum seldi Gordon Getty olíufyrirtækið Getty Oil til Texaco fyrir tíu milljarða bandaríkjadali. Í kjölfarið yfirgaf hann viðskiptaheiminn til þess að reyna fyrir sér sem tónskáld. Hann er enn kvæntur konu sinni þrátt fyrir framhjáhaldið og dæturnar þrjár utan hjónabandsins. 

Hafa Gordon og kona hans, Ann Getty, staðfest fráfall Andrew. Hafa þau jafnframt beðið um að friðhelgi þeirra verði virt á þessum „gífurlega erfiða tíma“.

J. Paul Getty var árið 1957 sagður vera ríkasti almenni …
J. Paul Getty var árið 1957 sagður vera ríkasti almenni borgari heims. Af Wikipedia
J. Paul Getty III var bundinn við hjólastól í kjölfar …
J. Paul Getty III var bundinn við hjólastól í kjölfar ofskammts eiturlyfja. Af Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK