Má bjóða þér smálán með bókinni?

Smálán eru veitt hjá Smálánum og Kredia en fyrirtækin hafa …
Smálán eru veitt hjá Smálánum og Kredia en fyrirtækin hafa nú hafið sölu rafbóka einnig. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tvær rafbækur hjá Kredia eða Smálánum kosta 5.500 krónur og eftir að þær hafa verið keyptar er hægt að fá 20 þúsund í smálán til 30 daga. Bókakaup eru nú skilyrði smálána hjá fyrirtækjunum en umdeilt flýtigjald er horfið úr verðskrá. 

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hafa smálánafyrirtækin Smálán ehf. og Kredia ehf. breytt starfsemi sinni og tekið til við sölu rafbóka samhliða lánastarfsemi. Ekki er hægt að taka smálán án þess að kaupa rafbók fyrst.

2 bækur = 20 þúsund í smálán

Miðað við þær upplýsingar sem þjónustuver Smálán og Kredia veita þá er hagstæðast að kaupa tvær bækur. Hver keypt bók kostar fullu verði 3.450 krónur en ef keyptar eru fleiri bækur er veittur afsláttur.

Athygli vekur þó að afslátturinn er ekki meiri eftir því sem fleiri bækur eru keyptar, heldur er hlutfallslega mestur afsláttur veittur ef keyptar eru tvær bækur. Tvær bækur veita heimild til töku 20 þúsund króna smáláns. 

Tvær rafbækur hjá annað hvort Smálánum eða Kredia kosta fullu verði 6.900 krónur en viðskiptavinur greiðir aðeins 5.500 krónur. Upphæðin er einmitt nákvæmlega sú sama og upphæð svokallað flýtigjalds.

Flýtigjaldið sem lagt hefur verið á smálánin hefur ítrekað verið úrskurðað brjóta í bága við lög og neytendalán, sem smálánafyrirtækjum er skylt að starfa eftir. Neytendastofa sagði í úrskurði í júní í fyrra að smálánafyrirtækjum væri ekki heimilt að undanskilja kostnað vegna flýtigjalds þegar árleg hlutfallstala kostnaðar við smálán er reiknuð.  Áfrýjunarnefnd neytendamála staðfesti þann úrskurð í nóvember síðastliðnum gagngvart Kredia og Smálánum og staðfesti sams konar úrskurð gagnvart Hraðpeningum, 1909 og Múla í janúar.

Sökum þess að Smálán og Kredia neituðu að hlíta þessum ákvörðunum lagði Neytendastofa dagsektir á þessi tvö fyrirtæki, sem bæði eru sögð í eigu fjárfestisins Mario Megela. Smálán og Kredia hafa áfrýjað álagningu dagsektanna og enn er ekki komin niðurstaða út úr því máli. Ekki var talin ástæða til að beita hin smálánafyrirtækin, þ.e. Hraðpeninga, 1909 og Múla dagsektum þar sem Neytendastofa telur ekkert benda til annars en að þau ætli að fara að úrskurði um að ekki megi undanskilja kostnað vegna flýtigjalds í árlegri hlutfallstölu kostnaðar. 

Neytendastofa hyggst skoða rafbókavæðingu smálána

Fjárhæðir smálána hafa jafnan verið 20 þúsund krónur hvert. Með þessari nýju útfærslu Smálána og Kredia er í raun um nákvæmlega sömu upphæðir að ræða, þ.e. til að fá lán upp á 20 þúsund er viðskiptavinum gert að greiða 5.500 króna gjald. Lögmæti flýtigjaldsins hefur verið dregið í efa en nú er ekkert til lengur hjá Smálánum og Kredia sem heitir flýtigjald.

Þegar blaðamaður hafði samband við Neytendastofu í dag hafði starfsfólk ekki heyrt af þessari breytingu á starfsemi Smálána og Kredia. Þær upplýsingar fengust að Neytendastofa hygðist fara yfir það hvort ástæða sé til þess að kalla eftir upplýsingum frá fyrirtækjunum vegna breytinganna. Telji Neytendastofa ástæðu til verði kallað eftir nánari upplýsingum.

Rafbækur í stað flýtigjalds

Skilmálum Smálána og Kredia, sem áður hétu "Skilmálar fyrir smáláni," hefur verið breytt þannig að nú eru þeir í tvennu lagi. Yfirheitið er "Almennir skilmálar" og skiptast þeir í tvennt. Annars vegar eru birtir skilmálar fyrir bókakaup og hins vegar skilmálar fyrir lán.

Í nýju skilmálunum sem nú er að finna á vefsíðum Smálána og Kredia er engin verðskrá birt. Í eldri skilmálum sem birtir voru á vefsíðum Smálána og Kredia fyrir rafbókavæðingu fyrirtækjanna var verðskrá smálána, miðað við 30 daga lán, svohljóðandi:

Kostnaður vegna 20.000 kr. láns:                                                            570 kr.

Seðilgjald:                                                                                                164 kr.

Heildarlántökukostnaður (50% Árleg hlutfallstala kostnaðar)                  734 kr.

Aukagjald fyrir flýtiþjónustu (valkvætt)                                                     5.500 kr.

Aukagjald fyrir póstlagningu á greiðsluseðli (valkvætt)                             100 kr.

Í tölvupósti sem sendur var frá þjónustuveri Smálána fyrir helgi má sjá að verðskráin er í raun óbreytt þótt „vörurnar“ á verðlistanum séu aðrar.

Góðan daginn

Smálán er nú orðin rafræn bókaverslun, þú getur keypt rafbók úr stóru
rafbókasafni okkar og það veitir þér rétt á því að taka lán á góðum kjörum.

Tökum sem dæmi.
þú kaupir 2 rafbækur og þá hefur þú möguleika á að taka lán fyrir þeim
og 20.000kr umfram.
Kostnaðurinn við 20.000kr er einungis 734kr m.v 30 daga lán, staða til
greiðslu á eindaga  er því 26234kr.

Því miður er ekki hægt að afgreiða lán án bókar,

Kær kveðja,

Þjónustuver Smálána
Sími: 800-1902
samband@smalan.is

Eins og sjá má eru fjárhæðir nákvæmlega þær sömu og í fyrri verðskrá. Að taka 20 þúsund króna lán í 30 daga kostar 734 krónur. En þar með er ekki öll sagan sögð því greiða þarf 5.500 krónur fyrir bækurnar tvær.

Heildarkostnaðurinn við að taka 20 þúsund króna smálán í 30 daga er því 26.234 krónur nú sem fyrr. Eini munurinn virðist vera sá að flýtigjaldið var á sínum tíma sagt valkvætt en bókagjaldið er það ekki heldur er það beinlínis forsenda þess að lán sé veitt. 

Tilgangi fyrirtækjanna breytt

Athygli vekur að á heimasíðum Smálána og Kredia hefur tilgangi fyrirtækjanna verið breytt. Ef smellt er á flipann „um okkur“ mátti áður lesa texta um að fyrirtækin hafi verið stofnuð í þeim tilgangi að „auðvelda aðgang almennings að smálánum“ eins og það var orðað. Þeirri klausu hefur nú verið skipt út fyrir þessa:

„Kredia/Smálán bók og lán var stofnað til að veita almenningi aðgang að stóru rafbókasafni okkar og veita viðskiptavinum lán á góðum kjörum.“

Rafbækur virðast vera hin nýju smálán. 

mbl.is
mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK