Hverfiskaffi og hjólaviðgerðir

Stefán Backman, við kaffihúsið og hjólaverkstæðið.
Stefán Backman, við kaffihúsið og hjólaverkstæðið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Sumir héldu að hér væri verið að opna eitthvað samkomuhús fyrir Hells Angels. Svo er hins vegar alls ekki. Þetta verður bara staður fyrir alls konar fólk," segir fyrrverandi eigandi hverfisbúðarinnar Skerjavers sem nú hyggst opna blöndu af hjólaverkstæði og kaffihúsi í húsnæðinu.

Hjördís Andrésdóttir rak verslunina Skerjaver á árunum 2000 til 2006 og var þá „kaupmaðurinn á horninu“ í Skerjafirðinum. Hún lokaði hins vegar búðinni þegar hún gat ekki lengur haldið í við lágvöruverslanir sem toguðu í viðskiptavini. „Við lokuðum í kringum 2006 þegar krónustríðið hafði verið í verslunum. Stórmarkaðir voru þá að selja mjólkina á eina krónu og fólk hætti að koma hingað til þess að kaupa nauðsynlegustu matvörurnar,“ segir Hjördís sem þó kveðst ekki hafa gefist auðveldlega upp heldur rak hún búðina í nokkra mánuði áður en hún játaði sig sigraða.

Á þeim tíma var Hjördís einnig komin á fullt í kryddframleiðslu þar sem hún framleiddi og seldi „Bezt á lambið” kryddið. Eftir að Skerjaveri var lokað var búðinni hins vegar breytt í húsnæði undir framleiðsluna.

Kryddframleiðslan var þá seld um áramótin og nýja starfsemi vantaði í húsið. „Það komu upp ýmsar hugmyndir en sú fyrsta varð á endanum ofan á; Samkomustaður og vinnuaðstaða fyrir hjólafólk,“ segir Hjördís. Maðurinn hennar, Stefán Bachman, er mikill áhugamaður um mótorhjól og mun sjá um reksturinn.

Í miðri hjólaparadís

„Við erum bæði að hugsa um reiðhjóla- og mótorhjólafólk,“ segir Hjördís og vísar til þess að helsta reiðhjólabraut Reykjavíkur fari í gegnum Skerjafjörðinn. „Það hjólar alveg gríðarlegt magn af fólki hérna framhjá á hverjum degi.“

Nýi staðurinn verður bæði veitingastaður og bar auk þess sem þar verður hjólaverkstæði. Þar verður boðið upp á hamborgara og franskar á grillinu og íslenska kjötsúpu. Þá segir Hjördís að boðið verði upp á skyrdrykki og alvöru kaffi jafnt sem uppáhelling.

„Við verðum með umfelgunarvél og verkfærakistu fyrir þá sem vilja kíkja á hjólin sín. Þeir geta síðan komið inn og fengið sér kaffibolla eða að borða.“ Þá segir hún að spila- og lottókassar verði á staðnum. „Við erum því kannski líka að sigta út atvinnubílstjóra sem vilja koma og borða í hádeginu og taka einn snúning í spilakassanum.“

Vilja þjónustu í hverfin

Staðurinn verður opinn til klukkan ellefu á kvöldin og segir Hjördís það fínt þar sem íbúðahverfi er í grendinni. 

Hún segir undirtektirnar í hverfinu hafa verið mjög góðar og telur að fólk sé í auknum mæli farið að kalla eftir því að fá þjónustu út í hverfin. „Það eru um 250 heimili hér í hverfinu en engin önnur starfsemi. Ég held að fólk sé síður farið að nenna að fara langt út úr sínu nærumhverfi. Það vill hafa allt í göngufæri og eiga kost á því að fara yfir í næstu götu og fá sér rauðvínsglas í stað þess að vera að vesenast með leigubíl niður í bæ.“

Ekki er komin nákvæm dagsetning á opnun staðarins en húsnæðið fer þó að verða tilbúið.

Hægt verður að fá sér mat á grillinu, súpu, kaffi …
Hægt verður að fá sér mat á grillinu, súpu, kaffi eða bjór í Skerjafirðinum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Hjördís Andrésdóttirí versluninni Skerjaveri þegar hún var og hét.
Hjördís Andrésdóttirí versluninni Skerjaveri þegar hún var og hét. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK