Stjórn VÍS fékk 75% launahækkun

Stjórnarformaður Marel er hæst launaður með 1,2 milljónir á mánuði.
Stjórnarformaður Marel er hæst launaður með 1,2 milljónir á mánuði. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mikið hefur verið rætt um þá ákvörðun aðal­fund­ar HB Granda að hækk­a launa stjórn­ar­manna fé­lags­ins um 33% eða úr 150 þúsund krón­um í 200 þúsund krón­ur. Þetta hefur eðli máls samkvæmt vakið athygli þar sem almennir starfsmenn fyrirtækisins standa á sama tíma í harðri kjaradeilu og hefur verið boðin 3,3% launahækkun.

Þrátt fyrir að HB Grandi hafi af þessum sökum vakið hvað mesta athygli er launahækkun stjórnarinnar langt því frá sú hæsta milli ára hjá skráðum félögum í Kauphöllinni.

Á aðalfundi VÍS var samþykkt að veita almennum stjórnarmönnum 75 prósenta launahækkun. Mánaðarlaun þeirra voru hækkuð úr 200 þúsund krónum í 350 þúsund krónur. Laun Guðrúnar Þorgeirsdóttur, stjórnarformannsins, voru þó hækkuð aðeins minna, eða um 50 prósent og fær hún nú 600 þúsund krónur á mánuði.

Þegar litið er til annarra tryggingafélaga má sjá að hjá Sjóva voru laun stjórnarmanna hækkuð um 10 prósent milli ára. Stjórnarformaðurinn fær nú 550 þúsund krónur á mánuði en aðrir stjórnarmenn 275 þúsund krónur. Launin hjá TM héldust hins vegar óbreytt og eru stjórnarmennirnir betur launaðir með 350 þúsund krónur á mánuði. Mánaðarlaun formanns stjórnarinnar nema þá 700 þúsund krónum.

1,2 milljónir hjá Marel

Stjórnarmenn Marel eru með hæstu launin innan Kauphallarinnar en Ásthildur M. Otharsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins, fær 8.250 evrur á mánuði, sem jafngildir í dag um 1,2 milljónum króna. Aðrir stjórnarmenn fá hins vegar 2.750 evrur eða um 400 þúsund krónur á mánuði. Laun stjórnarformannsins voru þá hækkuð um 13,3 prósent  milli ára, eða úr 7.500 evrum.

Laun í öðrum skráðum félögum standa þá ýmist óbreytt milli ára eða eru launahækkanir hóflegar og nokkurn veginn í samræmi við þær launahækkanir sem boðnar hafa verið í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Hóflegar hækkanir

Stjórnarlaun hjá fasteignafélaginu Reginn standa óbreytt milli ára og nema 250 þúsund krónum á mánuði hjá almennum stjórnarmönnum. Stjórnarformaðurinn fær hins vegar 500 þúsund krónur á mánuði. Laun stjórnarmanna Icelandair standa þá einnig óbreytt milli ára. Stjórnarmenn eru með 275 þúsund krónur á mánuði en stjórnarformaður fær 550 þúsund krónur.

Þá nema launahækkanir hjá Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone, 2,7 prósentum, þar sem stjórnarformaður fær 421 þúsund krónur á mánuði en aðrir stjórnarmenn 210.700 krónur. Hjá Eimskip voru launin hækkuð um 3,7 prósent milli ára og nema 550 þúsund krónum hjá stjórnarformanni en 275 þúsund hjá almennum stjórnarmönnum.

Laun stjórnarmanna Nýherja voru þá hækkuð um 4 prósent og fær formaðurinn 390 þúsund krónur en aðrir stjórnarmenn 130 þúsund. Þá voru launin hækkuð um 5,45 prósent hjá N1 og er stjórnarformaðurinn með 580 þúsund krónur á mánuði en aðrir stjórnarmenn með 290 þúsund á mánuði.

Frétt mbl.is: Bankatoppar fengu rúman milljarð

Leiðrétting: Fyrir mistök var fyrirsögn fréttarinnar „Stjórn Sjóvá fékk 75% launahækkun“ við birtingu hennar. Líkt og segir í greininni og núverandi fyrirsögn var það hins vegar stjórn VÍS.

Laun stjórnarmanna VÍS voru hækkuð um 75%.
Laun stjórnarmanna VÍS voru hækkuð um 75%. Kristinn Ingvarsson
Launahækkanir voru með ýmsu móti hjá skráðum félögum.
Launahækkanir voru með ýmsu móti hjá skráðum félögum. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK