Frjór jarðvegur fyrir framtíðarkynslóðir

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á ársfundi Samáls
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á ársfundi Samáls mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurfum sterkar stoðir fyrir efnahagslíf okkar. Áliðnaðurinn er ein slík meginstoð. Áður stóð sjávarútvegurinn nær einn undir afkomu þjóðarinnar. Nú búum við við gróskumikinn orkuiðnað, ferðaþjónustan er í örum vexti og fjölbreytni atvinnustarfseminnar fer vaxandi á fleiri sviðum.“

Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á ársfundi Samáls sem fram fór í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í morgun. Sagði hann ál- og orkuiðnaðinn í landinu hafa á tæpri hálfri öld treyst grundvöll íslensks efnahagslífs svo um munaði, gert verðmætasköpunina fjölbreyttari, gert sveiflur í hagkerfinu viðráðanlegri og opnað á fleiri tækifæri til framfara á sviði tækni, vísinda og nýsköpunar almennt.

„Eftir því sem stoðunum fjölgar fáum við betri grunn undir stöðugleika og jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það er aftur forsenda þess að enn fjölbreyttari starfsemi skjóti rótum þar sem verðmætasköpunin heldur áfram. Þetta er þess vegna frjór jarðvegur fyrir framtíðarkynslóðir til að sá í,“ sagði Bjarni. Sagði hann það hafa verið mikið gæfuspor fyrir Íslendinga að hefja á sínum tíma uppbyggingu í orkuframleiðslu hér á landi og nýtingu orkunnar. Nú stæði þjóðin í þeim sporum að búa yfir einhverju öflugasta raforkukerfi heimsins.

Lágt orkuverð arðgreiðsla til þjóðarinnar

„Það er líka vandfundið það land sem hefur lægri framleiðslukostnað á framleidda einingu raforku. Þetta hefur meðal annars skilað sér í lægra orkuverði til almennings. Sem er þegar öllu er á botninn hvolft ákveðið form af arðgreiðslu til þjóðarinnar. Þannig að uppbygging síðustu áratuga hefur skilað okkur í öfundsverða stöðu. Á grundvelli hennar erum við nú í færum til að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku frá fjölbreyttari kaupendahópi.“

Þannig væri fjölbreytt verkefni að komast á framkvæmdastig. Þau verkefni sem kæmu nú í kjölfar þeirrar miklu uppbyggingar sem átt hefði sér stað til þessa myndu að verulegu leyti halda uppi hagvexti og fjárfestingastigi næstu árin samkvæmt hagspám. Bjarni kom einnig inn á yfirstandandi kjaraviðræður og benti á hversu nátengd viðfangsefni ársfundarins væru kjarabaráttunni.

„Geta okkar til að bæta kjörin er reist á getu okkar til að skapa aukin verðmæti. Skynsamleg nýting auðlindanna og uppbygging öflugra fyrirtækja sem skapa landinu gjaldeyristekjur, fyrirtækja sem byggja á íslensku hug- og verkviti, þetta er ein helsta forsenda þess að við getum mætt þessum kröfum og staðið jafnfætis eða framar öðrum þjóðum í samkeppni þjóðanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK