Michelin-maðurinn látinn

Hann var þekktur sem „lokaðasti forstjóri Frakklands“ og breytti Michelin dekkjaframleiðandanum í stórfyrirtæki á sínu sviði. Francois Michelin, fyrrum forstjóri Michelin, er látinn 88 ára að aldri.

Hann var aðeins 28 ára gamall þegar hann tók við fyrirtækinu árið 1955. Afi hans stofnaði það árið 1889.

Starfinu gegndi hann í 47 ár þangað, eða þangað til sonur hans Edouard, tók við. Edouard drukknaði hins vegar í sjóslysi á árinu 2006.

Saga Francois er nokkuð mögnuð en faðir hans lést í flugslysi þegar hann var smákrakki og móðir hans lést þegar hann var aðeins tíu ára gamall. Francois var þá einn eftir og munaðarlaus. Eftir háskólanám, þar sem hann lærði stærðfræði, sótti hann um hjá Michelin undir dulnefni og fékk vinnu. Hann vann í verksmiðjunni í fjögur ár og lærði allt um fyrirtækið áður en hann fékk stöðuhækkun.

Kaus einfalt líferni

Francois var þekktur fyrir að veita fjölmiðlum litlar sem engar upplýsingar og var gjarnan nefndur „lokaðasti forstjórinn“. 

„Lekar eru sjálfsmorð,“ sagði hann í viðtali við Le Monde árið 1991. „Við getum verið árum saman að þróa nýtt dekk eða nýja vél. Á fimm mínútum getur samkeppnisaðili stolið hugmyndinni.“

Francois var kaþólikki og kaus einfalt líferni. „Afi minn kenndi mér tvennt sem ég hef haldið í: sannleikurinn og raunveruleikinn eru stærri en þú sjálfur og peningar eiga ávallt að vera sem þjónninn þinn, aldrei yfirmaður,“ sagði Francois, í viðtali við Paris Match árið 2013.

„Þegar ég sá hvernig afi minn lifði skildi ég að peningar geta verið gagnlegir, en ef við förum ekki varlega, geta þeir orðið sem eiturlyf,“ sagði hann.

Francois Michelin
Francois Michelin AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK