Skortur erfiður fyrir litla verslun

Pavel Ermol­in­skij á verslunina Kjöt og Fiskur ásamt Jóni Arn­óri …
Pavel Ermol­in­skij á verslunina Kjöt og Fiskur ásamt Jóni Arn­óri Stef­áns­syni og Benóný Harðar­syni. mbl.is/Árni Sæberg

„Fyrir litla verslun sem okkar er mjög erfitt að fá svona högg. Að geta ekki boðið upp á þá vöru sem viðskiptavinir eru að leitast eftir,“ segir Pavel Ermol­in­skij, landsliðsmaður í körfu­bolta og eigandi verslunarinnar Kjöt og Fiskur á Bergstaðarstræti. Hann hefur miklar áhyggjur af kjötskortinum sem gerir að líkum vart við sig í vikulok.

Hann segist eiga til nautakjöt í búðinni og skilst að það verði til út vikuna. „Eftir það gæti farið að halla undan fæti,“ segir hann. „Núna er að detta inn tímabil þar sem kjötið er hvað vinsælast í góðu veðri. Það væri hræðilegt að geta ekki boðið upp á það,“ segir Pavel.

„Blessunarlega höfum við þó fiskinn og við yrðum þá með meira af lambakjöti. Við tæklum þetta þegar að því kemur. Það er í rauninni ekkert annað hægt að gera.“

Ekkert gúllas á borðið

Sömu sögu er að segja í Kjöthöllinni þar sem nautakjötið er að klárast. „Við eigum nautakjöt út þessa viku en ekki mikið lengur en það. Síðan þurfum við að stilla okkur inn á lambakjötið,“ segir Björn Christensen, eigandi Kjöthallarinnar. „En skorturinn er farinn að segja til sín,“ segir Björn og bætir við að núna geri þeir til dæmis færri hamborgara á dag og leyfi þeim að klárast. „Það er ekki hægt að sinna þessu eins og maður vildi.“

Líkt og Pavel segir Björn að mikið sé að gera þar sem veðrið er að lagast og grillsumarið að ganga í garð. 

Spurður hvort einhver vörutegund sé alfarið horfin úr borðinu segir hann nautagúllasið vanta en steikurnar séu hins vegar ennþá til. „Ef þetta heldur hins vegar áfram svona fer algjörlega að vanta kjöt á markaðinn.“

Ótíma­bundið verk­fall fé­lags­manna BHM í Dýra­lækna­fé­lagi Íslands hófst hinn 20. apríl sl. og hefur slátrun spen­dýra og fiður­fénaðar því stöðvast.

Björn Christensen í Kjöthöllinni.
Björn Christensen í Kjöthöllinni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK