Hrunið kostaði minna en talið var

Samsett mynd/Eggert

Kostnaður ríkissjóðs af hruninu og endurreisninni á árunum 2008 til 2011 er allnokkuð lægri en mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði til um. Helsta ástæðan er að endurreisn viðskiptabankanna hefur skilað ríkissjóði ábata auk þess sem talsverðar skatttekjur hafa fengist frá nýju bönkunum og slitabúunum.

Hreinn kostnaður ríkissjóðs er aðeins tæpum 8 milljörðum hærri en þær beinu skatttekjur sem ríkissjóður hefur haft af viðskiptabönkunum og slitabúunum þremur. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Dr. Ásgeirs Jónssonar og Dr. Hersis Sigurgeirssonar, sem nefnist Drög að uppgjöri, og var unnin að beiðni slitastjórnar Glitnis. Höfundar voru beðnir um að rita skýrslu um þá kosti sem eru í stöðunni til þess að ljúka slitameðferð föllnu bankanna og greiða út kröfur án þess að raska greiðslujöfnuði landsins.

Kostnaðurinn lenti á kröfuhöfum

Í skýrslunni kemur fram að markmið neyðarlaganna um að kostnaður vegna hrunsins myndi ekki lenda á skattgreiðendum hafi náðst að mestu leyti. Þess í stað hefur kostnaðurinn að miklu leyti lent á almennum kröfuhöfum bankanna, bæði með því að gera innstæður að forgangskröfum og einnig með því skattleggja eignir þeirra hérlendis.

AGS mat árið 2012 kostnað ríkissjóðs af hruninu og endurreisninni á árunum 2008 til 2011 um 18,3% af VLF. Endurmat skýrsluhöfunda leiðir hins vegar í ljós að kostnaðurinn er töluvert lægri, eða um 13,4% af VLF. Helsta ástæðan er að endurreistn viðskiptabankanna skilaði ríkissjóði hreinum ábata er nemur um 4,6% af VLF á árunum 2008 til 2014. Matið er þó nokkuð háð því hvernig til tekst að selja viðskiptabankana, og gæti því hækkað eða lækkað í kjölfar þess.

Þá hafa skatttekjur ríkissjóðs af nýju bönkunum og slitabúunum verið töluverðar. Beinir skattar á bankana og slitabúin nema alls um 9,3% af VLF og þar af eru um 5,2% vegna nýrra skatta sem voru teknir upp á árunum 2010 til 2013 og 4,1% vegna tekjuskatts.

Af hreinum kostnaði ríkissjóðs af hruninu, þ.e. 13,4%, hefur ríkissjóður náð til baka á bilinu 5,2–9,3% af VLF með skattlagningu bankanna og slitabúanna. Eftir situr því kostnaður er nemur 4,1–8,2% af landsframleiðslu.

Bankarnir velta kostnaðinum á viðskiptavini

„Lykilatriðið í endurheimt kostnaðar hefur verið skattlagning á nýju og gömlu bankanna,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að gera megi þó ráð fyrir að nýju bankarnir reyni að velta þessum háu viðbótarsköttum áfram til viðskiptavina sinna – að minnsta kosti einhverju leyti – og þannig megi segja að almenningur og fyrirtæki séu að bera kostnaðinn af þessari endurheimtu kostnaðar ríkissjóðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK