Rétti tíminn til að afnema höftin

Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Ghada Fayad og Peter Dohlman.
Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Ghada Fayad og Peter Dohlman. mbl.is/Golli

Tvær stærstu áskoranir íslenskra stjórnvalda á sviði efnahagsmála eru annars vegar launahækkanir í yfirstandandi kjaraviðræðum sem gætu ógnað þeim stöðugleika sem skapast hefur hér á landi og hins vegar afnám fjármagnshaftanna. Þetta segir Peter Dohlman, formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland, en nefndin hefur verið stödd hér á landi að undanförnu og rætt við stjórnvöld, þingmenn, fulltrúa Seðlabanka Íslands, aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa einkageirans.

„Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að íslenskt efnahagslíf er fyrst núna náð árangri sem er sambærilegt við það sem best gerðist áður en efnahagserfiðleikar landsins hófu innreið sína. Það er einnig vert að hafa í huga að ísland er í dag á meðal þeirra ríkja í heiminum þar sem jafnrétti er mest. Þetta er markmið sem samfélagið hefur sett sér, lagt áherslu á og náð. Misrétti hefur þannig dregist saman frá því efnahagserfiðleikarnir hófust,“ segir Dohlman.

Mikilvægt að varðveita stöðugleikann

Mikilvægt sé því að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um launahækkanir sem séu í samræmi við framleiðsluaukningu í landinu og verðbólgumarkmið Seðlabankans. Svigrúm sé að mati AGS fyrir launahækkanir í kringum 3,5% árlega. Takist það ekki er ljóst að of miklar launahækkanir muni leiða til aukinnar verðbólgu sem kalli á mótaðgerðir af hálfu stjórnvalda. Það gæti leitt til viðvarandi aukinnar verðbólgu, hærri vaxta og verðlags í nokkur ár.

Of miklar launahækkanir munu að mati AGS leiða til aukins kaupmáttar til skamms tíma litið og aukinnar neyslu. Hagvöxtur muni aukast að sama skapi. „En síðan eftir u.þ.b. tvö ár munu aukin verðbólga og hærri vextir leiða til minni fjárfestingar og neysla mun dragast saman. Meðal annars vegna þess að erfiðara verður að fá lán vegna hárra vaxta. Það mun að lokum leiða til hratt minnkandi hagvaxtar,“ segir hann ennfremur.

Kjarasamningar gætu tafið afnám hafta

Spurður um fjármagnshöftin segir Dohlman að AGS telji að nú sé rétti tíminn til þess að hefja afnám þeirra. „Við teljum að tíminn sé réttur fyrir ríkisstjórnina að fara af stað með uppfærða aðgerðaáætlun sína. Málið hefur verið í gaumgæfilegri skoðun hjá henni undanfarið rúmt ár þar sem lagt hefur verið mat á þær áskoranir sem fylgja því, þá áhættu sem er fyrir hendi og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Við teljum að ríkisstjórnin sé ekkert að vanbúnaði að setja aðgerðaáætlunina í framkvæmd.“

Dohlman segir AGS leggja áherslu á að aðgerðir stjórnvalda séu almennar, byggðar á ákveðnum skilyrðum, innihaldi hvata þar sem skattheimta getur komið til álita og þar er áhersla er lögð á að tryggja eins litla mismunun og mögulegt er auk þess sem þær þurfi að virða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Eitt af því sem skipti miklu máli í þessum efnum er hvernig til tekst í kjaraviðræðum að hans sögn. Takist ekki að standa vörð um þann stöðugleika sem skapast hafi hér á landi gæti það gert stjórnvöldum erfiðara fyrir að afnema höftin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK