Rífandi sala í einu frolf-búðinni

Frisbígolf er fljótleg og ódýr íþrótt.
Frisbígolf er fljótleg og ódýr íþrótt. Malín Brand

Gert er ráð fyrir að í sumar verði komnir upp þrjátíu frisbígolf-vellir á Íslandi. Haukur Arnar Árnason rekur einu frisbígolf-búð landsins og hefur notið þess að kynna landsmenn fyrir íþróttinni á síðastliðnum tíu árum. Hann telur að hefðbundið golf sé deyjandi íþrótt. Frisbígolf, eða frolf, er það sem koma skal.

Haukur kynntist íþróttinni fyrir um tíu árum síðan og segir að ekki hafi verið aftur snúið. Á þeim tíma voru aðeins þrír vellir á Íslandi en þeim hefur fjölgað ár frá ári. Í dag eru þeir tuttugu en Haukur segir tíu aðra vera á teikniborðinu fyrir sumarið.

„Ég fattaði strax að mig langaði að vinna í þessari íþrótt,“ segir Haukur sem hóf fljótlega að flytja inn frisbígolfdiska og selja úr skottinu á bílnum sínum. Hann var sá eini í bransanum í nokkur ár en segir nokkra aðra vera á því stigi í dag. 

Hugsjónin rekur hann áfram

Haukur hefur hins vegar fært fyrirtækið upp á næsta stig og opnaði sérstaka frisbígolf-búð í Hafnafirði í fyrra. Hann segist þó ekki vera með sérstaka opnunartíma heldur skýst hann og afgreiðir þegar þörf er á. „Þetta stendur nú kannski ekki undir sér sem slíkt. Ég er kannski aðeins að borga með húsnæðinu,“ segir hann og viðurkennir að hugsjónin ráði för. „Þetta eru bara trúarbrögð og lífsstíll,“ segir hann. „Þessi búð er eiginlega alveg ótrúleg. Ég er með um 1.500 til 2.000 diska á lager. Allir veggir eru mjög litskrúðugir,“ segir hann léttur.

Haukur leiðréttir blaðamann sem taldi að töluverðar árstíðarsveiflur væri í sölunni. „Það er hægt að spila þetta allt árið. Við spilum í lofti en ekki á jörðu. Þú þarft bara að gæta þess að vera ekki með hvíta diska í snjónum,“ segir hann og hlær. „Í ár var ég í fyrsta skipti með jólatraffík.“

Haukur er þó einnig í öðru starfi en frolfið er honum greinilega alltaf ofarlega í huga þar sem hann nýtir hádegishlé til þess að skjótast á Klambratún í stuttan leik. Leikirnir skotganga og taka einungis um tuttugu mínútur og Haukur segir það hluta af fegurðinni við íþróttina. Þá sé sportið einnig aðgengilegt að því leyti að startkostnaðurinn sé ekki hár.

Stuttur tími og lítill startkostnaður

Haukur segir byrjendur einungis þurfa einn frisbígolfdisk, sem kostar 2.500 krónur, á meðan þeir skoða íþróttina og meta hvort frolfið sé þeirra. Þeir sem eru komnir aðeins lengra geta þá keypt þriggja diska sett sem kostar 5.500 krónur. Þeir lengra komnu geta hins vegar valið úr hundruðum diska og Haukur bendir t.d. á að hann sé með um 100 mismunandi tegundir af dræverum.

Auk þessa er ókeypis inn á alla velli. „Þú hreyfir þig hins vegar ekki af stað í golfi fyrir minna en fleiri hundruð þúsund krónur,“ segir Haukur sem þó kveðst smeykur við að móðga golfiðkendur. „Það er ótrúlegur samdráttur í sölu á golfvörum og það er verið að loka völlum og brautum og breyta þeim í frisbígolf-velli mjög víða,“ segir hann. „Golfið er deyjandi sport miðað við sumt sem maður heyrir.“

Hann segir tímana vera breytta og að enginn hafi tíma fyrir nokkurra klukkustunda golfhring. „Ég stekk í tuttugu mínútur í hádegishléinu út á Klambratún. Það er alveg óþekkt í golfi.“

Íslendingar eru ekki þeir einu sem hafa vaxandi áhuga á íþróttinni heldur hefur íþróttin verið í stöðugum vexti í heiminum á síðustu tíu til tuttugu árum. Haukur bendir á að vöxturinn á heimsvísu hafi verið 12% árið 2013 og 20% í Evrópu á sama tíma. Hann segir Finnland vera höfuðvígi íþróttarinnar þessa dagana og bætir við að fleiri beinar útsendingar séu frá frisbígolf-mótum en hefðbundnum golfmótum í sjónvarpinu þar í landi.

Aðspurður hvort hann telji að íþróttin geti náð slíkum vinsældum hér á landi segir hann, viss í sinni sök: „Algjörlega. Þetta getur ekkert farið neitt öðruvísi.“

Um 1.500 til 2.000 diskar eru á lagernum hjá Hauki.
Um 1.500 til 2.000 diskar eru á lagernum hjá Hauki. Mynd/Haukur Árnason
Litskrúðugar uppstillingar í versluninni.
Litskrúðugar uppstillingar í versluninni. Mynd/Haukur Árnason
Haukur í frisbígolfi.
Haukur í frisbígolfi.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK