Reyndi að „manna sig upp“

Ingrid Vanderveldt
Ingrid Vanderveldt Mynd/Startup Iceland

„Ég klippti á mér hárið, keypti gleraugu, hætti að mála mig, fór í dragt í stað þess að vera í kjólum. Ég ætlaði að manna mig upp. Það gekk hins vegar ekki. Ekkert gekk neitt frekar og ég leit bara hræðilega út,“ sagði Ingrid Vanderveldt, frumkvöðull, sem hefur stofnað og selt fjölmörg fyrirtæki sem samanlagt velta milljörðum króna.

Ingrid var með erindi á Startup Iceland ráðstefnunni sem fer fram í Hörpu í dag. Fjárfestirinn Bala Kamallakharan stendur fyrir viðburðinum þar sem tuttugu fyrirlesarar frá ýmsum löndum miðla þekkingu sinni um nýsköpun.

Ætlar að efla milljarð kvenna

Ingrid stofnaði m.a. sjóðinn Empowering a billion women by 2020, þar sem markmiðið er að efla konur í nýsköpun. Á heimasíðu sjóðsins bendir hún á að rannsóknir sýna að fyrirtækjum gengur jafnan betur og skapa meiri tekjur þegar konur eru í stjórn þeirra. Þá endurfjárfesta konur frekar í öðrum fyrirtækjum þegar vel gengur og er því samfélagslega hagkvæmt að efla konur í rekstri. Í gegnum síðuna er hægt að fá sérstaka ráðgjöf frá Ingrid og fjármagn ef hugmyndin er rétt.

Þrátt fyrir að Ingrid hafi náð langt í dag segir hún að upphafsskrefin hafi verið þung. Hún sagði að konur ættu oft erfitt með að deila mistökum sínum í upphafi ferilsins þar sem þær hafa jafnan þurft að hafa mikið fyrir því að klóra sig upp framastigann.

Þegar hún var nýútskrifuð og hafði eytt mánuðum í leit að fjármagni fyrir fyrsta fyrirtækið sem hún stofnaði, var henni loks sagt að hún liti einfaldlega ekki út eins og aðrir frumkvöðlar. Greip hún því til þess að „manna sig upp“ líkt og fyrr segir. 

Út fyrir þægindarammann

Hún sagði að útlitið hefði hins vegar ekki verið vandamálið. Sjálfstraustið var rót vandans og Ingrid benti á að margar konur ættu við sama vanda að glíma. „Að vera frumkvöðull snýst um það hversu oft þú getur staðið upp eftir að hafa hrasað,“ sagði hún og bætti við að konur, jafnt sem karlar, þyrftu að stíga út fyrir þægindarammann og læra að njóta þess að vera þar.

Þarfnast beggja kynja til þess að skilja markaðinn

Halla Tóm­as­dótt­ir, fjárfestir og stofnandi Auðar Capital og Sisters Capital, fjallaði um kynjabilið í fjármálaheiminum. „Hvernig í ósköpunum dettur einhverjum í hug að stjórn sem eingöngu er skipuð karlmönnum skilji markaðinn að fullu?“ spurði Auður og benti á rannsóknir sem sýna að fyrirtækjum með konum í stjórn vegni jafnan betur en öðrum. 

Hún benti á að konum í stjórnum fjárfestingarsjóða hefur fækkað frá árinu 1999. Það sagði hún vera slæma þróun, þar sem rannsóknir sýna að stjórnendur séu líklegri til þess að fjárfesta í einhverjum sem líkist þeim sjálfum. 

„Það getur vel verið að það sé auðveldara að safna fjármagni með því að vera einungis með strákalið, en blönduðum liðum gengur betur til lengri tíma litið,“ sagði Halla.

„Það getur verið ógnvekjandi að tala um þetta, en ef þú horfir á gögnin og sérð muninn, að þá ættirðu að vera tilbúinn til þess að láta þér líða óþægilega í smá stund,“ sagði Halla.

Halla Tómasdóttir
Halla Tómasdóttir
Bala Kamallakharan stendur fyrir Startup Iceland ráðstefnunni í Hörpu í …
Bala Kamallakharan stendur fyrir Startup Iceland ráðstefnunni í Hörpu í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Frá Startup Iceland ráðstefnunni í Hörpu í dag.
Frá Startup Iceland ráðstefnunni í Hörpu í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK