Formúlu-félag Jóns Ásgeirs gjaldþrota

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. Þórður Arnar Þórðarson

Eignarhaldsfélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Þú Blásól ehf., var úrskurðað gjaldþrota hinn 20. maí sl. Félagið komst í fréttir eftir að Pálmi Haraldsson, sem kenndur er við Fons, lánaði því einn milljarð króna en greiddi hins vegar lánið inn á persónulegan tékkareikning Jóns Ásgeirs.

Í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta en skiptafundur verður haldinn þann 10. ágúst nk.

Þú Blásól ehf. skilaði síðast ársreikningi til ríkisskattstjóra árið 2007 en sama ár stofnaði það eignarhaldsfélagið 101 Capital, ásamt Eignarhaldsfélaginu ISP ehf., sem var í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs.

101 Capital átti fyr­ir hrun meðal ann­ars hluta­bréf í FL-Group, en var úrskurðað gjaldþrota í desember 2011. Líkt og fram kemur í fyrri frétt mbl voru hlutabréfin hins vegar færð yfir í Styrk In­vest, sem áður hét BG Capital og varð síðar gjaldþrota, í apríl 2008.

Afskrifað stuttu eftir lánveitingu

Skiptastjóri þrotabús Fons fór fram á riftun á lánveitingunni árið 2010. Hann taldi að um gjafagerning hefði verið að ræða. Jafnframt taldi hann að greiðslan hefði verið ótilhlýðileg, einkum vegna náinna hagsmunatengsla Jóns Ásgeirs og Fons. Einnig kom fram í stefnu málsins að viðskiptin voru talin til málamynda, auk þess sem sömu stjórnarmenn voru í félögunum Fons og Þú Blásól. 

Við skýrslutöku skiptastjóra yfir Pálma Haraldssyni kom fram að þeir Jón Ásgeir hefðu komið sér saman um að fjárhæðin yrði notuð til greiðslu Blásólar á hluta af enska Formúlu 1 kappakstursliðinu Williams.

Skuldina bar að greiða um mitt ár 2012 ásamt vöxtum. Hins vegar var krafan afskrifuð sjö mánuðum eftir að lánið var veitt.

Lánið var greitt inn á tékkareikning Jóns Ásgeirs og við athugun á bókhaldi þrotabús Fons kom hvergi fram að peningarnir hafi í raun og veru runnið til eignarhaldsfélagsins Þú Blásól.

Hluti Aurum-málsins

Lánveitingin var tekin fyrir í Aurum-málinu þar sem milljarðurinn sem um ræðir var hluti sex milljarða láns sem FS38, félag í eigu Fons, fékk til að kaupa hlutabréf í Aurum Holdings af Fons.

Jón Ásgeir sagði fyrir dómi að fjármunirnir hefðu fyrir mistök verið greiddir inn á sinn reikning í stað eignarhaldsfélagsins. Hann sagðist þá hafa ráðstafað fjármununum fyrir hönd Þú Blásólar.

Í málinu kom fram að Jón Ásgeir notaði hluta af milljarðinum til að greiða ríflega 700 milljóna yfirdráttarskuld við Glitni.

Jón Ásgeir var sýknaður í málinu en Hæstiréttur hefur síðar ómerkt dóminn og sent málið aftur heim í hérað.

Ætlaði að hasla sér völl í formúlunni

Í umfjöllun Viðskiptablaðisins um Williams-viðskiptin frá árinu 2009 kemur fram að Jón Ásgeir gerði í byrjun árs 2008 samning við eiganda hins fræga Formúlu 1 kappakstursliðs um að fá að kaupa 10% hlut í lok desember sama ár.

Það var háð því skilyrði að Jón Ásgeir yrði einn af aðalstyrktaraðilum félagsins í gegnum félög undir hans stjórn. Það gekk eftir og voru Hamleys og fleiri fyrirtæki Baugs í Bretlandi bakhjarlar Williamsliðsins.

Glitnir veitti Jón Ásgeiri bankaábyrgð á greiðslunni en hvorki Jón Ásgeir né Glitnir gátu hins vegar efnt samninginn í desember 2008. Stjórn Williams-liðsins lagði þá fram tveggja milljarða kröfu í þrotabú bankans.

Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir. Þú Blásól var annað …
Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir. Þú Blásól var annað stofnfélaga eignarhaldsfélagsins 101 Capital ehf. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Pálmi Haraldsson lagði einn milljarð inn á tékkareikning Jóns Ásgeirs …
Pálmi Haraldsson lagði einn milljarð inn á tékkareikning Jóns Ásgeirs í stað þess að leggja inn á Þú Blásól. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK