Skortur á iðnaðarmönnum í sumar

Flestir vilja fara í framkvæmdir á sumrin. Því reynist oft …
Flestir vilja fara í framkvæmdir á sumrin. Því reynist oft erfitt að finna verktaka til verksins, en skortur iðnaðarmönnum er fyrirséður hér á landi í sumar. Ernir Eyjólfsson

Fyrirséð er að skortur verði á iðnaðarmönnum í viðhaldsverkefni og aðrar framkvæmdir í sumar, en almenningur stendur áfram að miklum framkvæmdum á heimahúsum, til viðbótar við þær nýframkvæmdir sem verktakar vinna að. Þá var sumarið í fyrra ekki það hagstæðasta fyrir málarar og vetrarverðrið nokkuð kröftugt sem ýtir undir verkefni í þeirri grein. Þetta segja þeir Friðrik Á. Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs Samtaka iðnaðarins og Már Guðmundsson, formaður Málarameistarafélagsins, í samtali við mbl.is.

Þá gætu verkföll iðnaðarmanna í sumar einnig haft talsverð áhrif, en nýlega var verkfallsboðun þeirra samþykkt og verður farið í verkfall 10. til 16. júní næstkomandi og svo aftur í ótímabundið verkfall frá og með 24. ágúst, náist ekki að semja.

Erfitt að fá menn í stærri verkefni

Friðrik segir það vitað mál að það sé skortur á menntuðum iðnaðarmönnum. Eftir hrun hafi verið skortur á nýliðun í greininni, enda erfitt að komast á samninga þegar fjöldi iðnaðarmanna flutti erlendis. Þá hafi þeir sem fluttu út fæstir skilað sér til baka og nú þegar sumarvertíðin skellur á séu hreinlega of fáir starfsmenn í greininni til að sinna öllum verkefnum.

Már segir að enn fáist iðnaðarmenn í smærri viðhaldsverkefni, en að verkfræðistofur og húsfélög séu orðin nokkuð sein til að fá tilboð í verk þetta sumarið. Bendir hann á að vænlegast sé að vinna undirbúningsvinnu ekki mikið seinna en í janúar eða febrúar og bjóða verkin út í mars. Þá sé í fyrsta lagi hægt að byrja fyrr á vorin og fá hagstæðari tilboð, auk þess sem að þá sé öruggt að fá verktaka til að vinna verkið.

Allir vilja framkvæmdir yfir sumarið

Þetta vandamál með skort á iðnaðarmönnum yfir sumartímann skapast, að sögn Más, að talsverðu leyti af því að allir vilja mála og standa í framkvæmdum á sumrin. Segir hann að margir vilji nota sumarfríið til slíkra verka. Starfsstéttin þarf aftur á móti að vinna allt árið og því sé ómögulegt að taka á móti svona toppum yfir stuttan tíma. Hinn hluti vandamálsins sé svo sá mikli starfsmannaflótti sem varð úr stéttinni eftir hrun, en hann segir að á bilinu 50-100 málarar hér á landi hafi farið út og þá aðallega til Noregs, eftir hrun. Af þeim er næstum enginn kominn heim aftur að hans sögn. Til viðmiðunar segir Már að tæplega 200 málarameistarar séu í dag starfandi á landinu. Þetta hafi því verið mikil blóðtaka.

Friðrik segir að það sem þurfi til að viðhalda iðnaðarmönnum hér á landi sé stöðugleiki. Hann hafi brostið eftir hrun og því hafi menn flutt erlendis. „Það er búið að vera ákall um að menn komi heim aftur,“ segir hann, en fáir hafi svarað því kalli.

Hvaða áhrif hafa mikil uppbyggingaráform á næstunni?

Á næstu árum er séð fyrir talsverða uppbyggingu hér á landi. Þannig lítur út fyrir að kísilver verði reist á Bakka fyrir norðan, uppbyggingaráform um tvö kísilver í Helguvík eru langt komin og sólarkísilverksmiðja á Grundartanga er á teikniborðinu. Til viðbótar er nýi Landspítalinn alltaf við það að fara í byggingu, auk þess sem mikill uppgangur hefur verið í byggingu hótela, uppbyggingu í miðbænum og fyrirséð er um framkvæmdir t.d. í Vogabyggð.

Friðrik segir að þrátt fyrir þessi miklu áform, þá sé ljóst að öll verkefnin fari ekki af stað á sama tíma og þá sé einnig alltaf ákveðinn kjarnahópur sem helgar sig viðhaldsverkefnum, en ekki nýbyggingum. Segist hann ekki eiga von á því að þrátt fyrir mikla uppbyggingu að breyting verði þar á. Hann segist aftur á móti eiga von á því að flytja þurfi inn talsvert af erlendu vinnuafli ef uppbyggingin þessara verkefna fer af stað. Þar þurfi þó helst að passa upp á að um sé að ræða menntað vinnuafl, að sögn Friðriks.

Munu verkföll trufla?

Aðspurður um áhrif verkfalla á iðnaðarstéttina í sumar sagði Friðrik að ef til þeirra kæmi væri greinin í vonum málum. „Staðan yrði erfið,“ sagði hann, en tók fram að fyrri hrinan væri þó ekki mjög löng, eða vika. „En þetta mun hitta okkur með fullum þunga um miðjan ágúst,“ sagði Friðrik. Segir hann þetta sérstaklega vont þar sem sumrin eru aðalframkvæmdartíminn.

Friðrik Á. Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs Samtaka iðnaðarins
Friðrik Á. Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs Samtaka iðnaðarins ODD STEFAN
Erfitt getur nú reynst að finna verktaka fyrir verkefni t.d. …
Erfitt getur nú reynst að finna verktaka fyrir verkefni t.d. fyrir húsfélög eða aðrar stærri framkvæmdir. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK