Það verða áfram höft við lýði

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, telur að ýmis pólitísk og efnahagsleg vandamál muni fylgja því að afnema höftin. Líklegt sé að stjórnvöld stigi ekki mjög stór skref í átt að afnámi fyrir næstu kosningar. Þau vilji fremur tryggja þann stöðugleika sem höftin hafa að ákveðnu leyti veitt.

„Ég held að ráðamenn þjóðarinnar muni stíga mjög varlega til jarðar, enda hafa þeir gætt þess að ræða aðeins um „losun“ hafta fremur en „afnám“ þeirra. Svigrúmið mun aukast í gjaldeyrisviðskiptum en  það verða áfram höft við lýði,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Það má kannski segja að lítil umræða hafi átt sér stað um það hvað eigi að taka við eftir afnám hafta og hvort höftin verði nokkurn tímann afnumin að fullu. Mikill tími fer enn í karp um fortíðina og skortir framtíðarsýn að ákveðnu leyti.

Ásgeir segir að með samningaleiðinni við kröfuhafa gömlu bankanna, sem nú hafi verið valin, sé verið að taka á fortíðarvanda að miklu leyti, hreinsa upp krónueignir útlendinga eftir hrunið. Það sé jákvætt.

„Það virðist vera tvenns konar samkomulag sem hafi skapast, annars vegar við kröfuhafana um að þeir gefi eftir krónueignir sínar að mestu og hins vegar almenn þverpólitísk þjóðarsátt um það að þessum sömu krónum sem þjóðin fær verði ekki hent inn í hagkerfið í einhverju bráðræði. Sú þjóðarsátt er álíka mikilvæg og sáttin við kröfuhafana. Það er bara vonandi að það haldi. En það er óútfært hvað mun gerast í framhaldi.“

Tíu milljarðar naumur skammtur

Hann bendir á að með aðgerðum stjórnvalda, sem kynntar voru fyrr í vikunni, sé ekki verið að afnema höftin. „Það er bara verið að ryðja hindrun úr vegi til þess að hægt sé að losa um fjármagnsviðskipti við útlönd. Eiginleg áætlun um losun hafta hefur ekki enn litið dagsins ljós. Það sem liggur fyrir að opnað verður fyrir ákveðnar undanþágur, svo sem að lífeyrissjóðirnir fái að fjárfesta erlendis fyrir 10 milljarða á ári fram til ársins 2020 og fyrirtæki fái auknar heimildir til aukinna erlendra fjárfestinga, en fátt meira en það. Það er ekki hið sama og frjáls gjaldeyrisviðskipti,“ segir Ásgeir en bætir við að við séum þó komin í ansi góða stöðu til þess að geta losað höftin.

„Mér finnst því líklegt að stjórnvöld stigi mjög varfærin skref í átt að afnámi hafta fyrir næstu kosningar, heldur að þau haldi stjórn á markaðinum og tryggi þennan stöðugleika. Það verða veittar undanþágur en fjármagnsflæði úr landinu verði skorinn mjög þröngur stakkur. Mér sýnist að Seðlabankinn muni leggja höfuðáherslu á að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisforða með kaupum á gjaldeyrismarkaði og það markmið verði í forgangi gagnvart því að leyfa öðrum innlendum aðilum, svo sem lífeyrissjóðum, að byggja upp gjaldeyriseignir. En miðað við eignasafn og fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna verði að telja 10 milljarða fjárfestingaheimild á á ári fremur nauman skammt.“

Magnar upp óstöðugleika

Ásgeir segir að íslenska krónan hafi ákveðna kosti og galla. „Það eru ákveðnir kostir sem felast í því að þjóðríki gefi út sinn eigin gjaldmiðil. Þá hafa þau fleiri tæki í efnahagsstjórninni og geta til að mynda aukið samkeppnishæfni sína með gengislækkun. Að sama skapi að þá leiðir þessi sveigjanleiki oft til óstöðugleika, sérstaklega hjá smærri myntum. Og oft er reyndin þannig að í stað þess að gengishreyfingar verði til þess að auka þjóðhagslegan stöðugleika, snýst þetta upp í andhverfu sína þannig að sveiflur á gjaldeyrismarkaði magnar upp innlendan óstöðugleika.

Íslenska krónan varð til sem sjálfstæður gjaldmiðill árið 1918 þegar þjóðin varð fullvalda og á þessum fullveldistíma hefur krónan einungis flotið í sjö ár, frá 2001 til 2008. Lengst af hefur hún verið fest og það með stuðningi gjaldeyrishafta, eða í rúm 62 ár frá 1931-1994,“ segir Ásgeir.

Á sama tíma og stór hluti þjóðarinnar virðist vera nokkuð ánægður með krónuna, þá séu margir orðnir þreyttir á sveigjanleika hennar. „Og ég sé fyrir mér ýmis pólitísk vandamál sem fylgja því að afnema höftin,“ nefnir hann.

„Það sem er jákvætt við höftin er að þau gefa venjulegi fólki öryggi til þess að sinna sínu daglega lífi án þess að þurfa að hafa áhyggjur af óstöðugleika í gengi og verðlagi. Og í sjálfu sér hefur almenningur ekki fundið mikið fyrir höftunum í sínu daglega lífi. Stjórnvöld hafa gefið loforð um áframhaldandi stöðugleika krónunnar og það þrengir verulega svigrúmið fyrir auknu frjálsræði á gjaldeyrismarkaði.“

Gengi krónunnar gæti styrkst

Hann bendir á að gengi krónunnar muni sveiflast, hækka og lækka, á frjálsum gjaldeyrismarkaði. „Mér finnst til dæmis ekki ólíklegt þegar höftin verða afnumin að gengi krónunnar styrkist, allavega miðað við þann vaxtamun sem er fyrir hendi og þá góðu hluti sem hafa verið að gerast hér á síðustu árum. Hún getur styrkst en í kjölfarið gæti hún líka veikst aftur, ef eitthvað bjátar á.“

Launahækkanirnar sem nýlega var samið um á almenna vinnumarkaðinum séu til dæmis háðar því að gjaldeyrissköpun ferðaþjónustunnar haldi áfram að aukast þannig að hægt sé að fjármagna aukinn innflutning sem fylgir hærri kaupmætti. „Ef það bregst verður gengið langtum hærra en samræmist gjaldeyrissköpun okkar.“

Gjaldeyrismarkaðurinn erfiður við að eiga

Seðlabanki Íslands hefur haldið genginu nokkuð stöðugu undanfarin ár með inngripum sínum á gjaldeyrismarkaði. Ásgeir segir að það verði bæði flóknara og erfiðara eftir að höftin fara.

Hann rifjar upp að á árunum 1994 til 2001 hafi Seðlabankinn lofað að halda genginu föstu, en á sama tíma voru fjármagnsflutningar við útlönd frjálsir. „Það gekk ágætlega á meðan peningarnir streymdu inn í landið og það var lengi vel þannig.“

Hins vegar byggðist upp mikill viðskiptahalli ári 2000 auk þess sem fjármagn tók að leita landi. Seðlabankinn hafi þá eytt lunganum af gjaldeyrisforða sínum í vörn fyrir fastengið og varð hann loks að gefa eftir árið 2001. Fastgengið var afnumið og verðbólgumarkmið tekið upp í staðinn.

Í dag er almennt viðurkennt að einhliða gengisfesting sem þessi gangi ekki upp til lengdar á frjálsum gjaldeyrismörkuðum. „Gjaldeyrismarkaðurinn er mjög erfiður markaður. Þar er gríðarlega mikil velta og afar auðvelt að stunda spákaupmennsku. Ef markaðurinn kemst í verulegt uppnám, þá er enginn seðlabanki sem ræður við hann með gjaldeyrisinngripum,“ segir hann og rifjar upp þegar fjárfestirinn George Soros felldi breska pundið með eftirminnilegum hætti árið 1992.

„Það er eiginlega ómögulegt að lofa stöðugu gengi nema með að ætla að beita höftum í umtalsverðum mæli - og slík loforð geta verið mjög kostnaðarsöm ef þeim á fylgja eftir með gjaldeyrisinngripum. Þess vegna er líklegt að fjármagnshöft í einhverju formi verði varanlega til staðar hérlendis, hvort sem þau leggjast beint á gjaldeyrismarkaðinn eða starfsemi fjármálastofnana. Aðalforsendan fyrir auknu fjármagnsfrelsi er þó að Íslendingar horfist í augu við bæði kosti og galla krónunnar og séu viðbúnir að takast á við gengissveiflur.“

Ásgeir telur ekki ólíklegt að gengi krónunnar styrkist þegar höftin …
Ásgeir telur ekki ólíklegt að gengi krónunnar styrkist þegar höftin verða afnumin. mbl.is/Heiddi
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynntu áætlun …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynntu áætlun ríkisstjórninnar um losun hafta í byrjun vikunnar. mbl.is/Golli
Það verður erfiðara fyrir Seðlabankann að halda genginu stöðugu með …
Það verður erfiðara fyrir Seðlabankann að halda genginu stöðugu með inngripum á gjaldeyrismarkaði eftir að höftin fara. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK