„Evran var dauðadæmd frá upphafi“

AFP

„Ég varð þeirra forréttinda aðnjótandi að semja um undanþágu Bretlands frá evrunni árið 1991. Mér er minnistæðast hversu augljóst það var að evran hafði ekkert með hagfræði að gera og að hún væri pólitískt verkefni byggt á vafasömum rökum. Fulltrúar sumra annarra ríkja viðruðu opinberlega efasemdir sínar en pólitískir leiðtogar þeirra héldu fast um taumana.“

Þetta segir Norman Lamont lávarður, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, í grein sem birt er í dag í breska dagblaðinu Daily Telegraph undir fyrirsögninni „The euro was doomed from the start“ eða „Evran var dauðadæmd frá upphafi“. Lamont, sem var fjármálaráðherra 1990-1993 í ríkisstjórn Íhaldsflokksins, segir að tilkoma evrunnar hafi verið söguleg mistök sem hafi valdið Evrópusambandinu miklum skaða.

Lamont bendir þannig á að fyrstu 40 árin frá stofnun þess hafi Evrópusambandið stuðlað að efnahagslegri velmegun í Evrópu. Ríki sem staðið hafi verr að vígi efnahagslega hafi hagnast á lægri tollum og auknum milliríkjaviðskiptum. Með evrunni hafi hins vegar hagvöxtur dregist umtalsvert saman. Fátækari ríkjum hafi farnast verr en efnaðri ríkjum líkt og Þýskalandi sem hafi hagnast á veikara gengi evrunar en þýska marksins.

Ráðherrann fyrrverandi segir ennfremur að efnahagserfiðleikar Grikklands séu „fullkomið dæmi um það algera uppnám“ sem Evrópusambandið hafi skapað í kringum evruna. Aldrei hafi átt að veita Grikkjum aðild að evrusvæðinu þó það ætti við um fleiri ríki eins og Belgíu og Ítalíu sem hafi ekki uppfyllt inngönguskilyrðin. 

„Allt frá upphafi hafa reglurnar sem settar voru um evruna, varðandi björgunaraðgerðr, fjármögnun frá seðlabönkum og fjárlagahalla, verið hafðar að engu. Evrópusambandið segist starfa samkvæmt settum reglum en hvernig sem haldið hefur verið á málum í tengslum við evrusvæðið hefur það ekki verið samkvæmt þess eigin reglum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK