Reynt að gera Bláa lónið tortryggilegt

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Bláa lónið mun greiða virðisaukaskatt af baðgjöldum lónsins frá og með næstu áramótum þar sem breytingar voru gerðar á lögum um virðisaukaskatt í desember á síðasta ári. Árið 2014 sóttu alls 766 þúsund gestir Bláa lónið sem greiddu um 3,7 milljarða króna í aðgangseyri. Forstjóri Bláa lónsins segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um upphæð aðgangseyrisins eftir að breytingarnar taka gildi.

Hingað til hefur Bláa lónið fallið undir undanþágu í virðisaukaskattslögum þar sem stafsemi þess hefur talist falla undir starf sundstaða, heilsuræktarstarfsemi og íþróttastarfsemi, sem er undanþegin skattinum. 

11% VSK um áramótin

Líkt og kunnugt er voru hins vegar gerðar breytingar á lögunum í desember á síðasta ári þar sem skattstofninn var m.a. breikkaður. Eftir breytingarnar, sem taka gildi þann 1. janúar 2016, mun Bláa lónið greiða virðisaukaskatt í lægra þrepi af baðgjöldum lónsins, eða alls 11 prósent.

Aðgangseyrinn er í dag 5.300 krónur að vetrarlagi en 6.800 krónur á sumrin. Aðspurður hvort gjaldið verði hækkað þegar breytingarnar taka gildi segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, að það hafi ekki verið ákveðið. „Við munum bara skoða það í okkar áætlanagerð,“ segir Grímur.

Grímur er í hópi þeirra sem hefur lengi talað fyrir því að fella ætti sem flestar undanþágur úr virðisaukaskattkerfinu og hefur sagt að heild­ar­hags­mun­um ferðaþjón­ust­unn­ar sé bet­ur borgið í kerf­inu en utan þess.

90% erlendir ferðamenn

Í afkomutilkynningu sem Bláa lónið sendi frá sér á dögunum má greina mikinn vöxt fyrirtækisins milli ára. Tekjurnar námu tæpum 6,2 milljörðum króna og hagnaður eftir skatta nam 1,8 milljörðum. Gestum fjölgaði um 18 prósent og voru alls 766 þúsund talsins. Þeir greiddu alls 3.7 milljarða króna í aðgangseyri ofan í lónið eða rúmar tíu milljónir króna á dag. Um níutíu prósent gestanna eru erlendir ferðamenn.

Grímur segir umræðuna um fyrirtækið oft vera undarlega. „Það er reynt að gera það tortryggilegt hvað fyrirtækið er að skila góðri afkomu. Eins og að við séum að reyna að svíkjast undan okkar samfélagslegu skyldum,“ segir hann og vísar í umræðu um að fyrirtækið sé ekki að greiða virðisaukaskatt af baðgjöldum - sem breytist um áramótin líkt og að framan greinir.

Grímur bendir jafnframt á að Bláa lónið borgaði 430 milljónir króna í tekjuskatt á síðasta ári auk þess að greiða hundruð milljóna í virðisaukaskatt af annarri starfsemi, svo sem veitingasölu og verslunarrekstri. „Þessi umræða er alveg úti á túni,“ segir hann og bætir við að félagið hafi þá ekki heldur fengið að nýta sér innskattinn á móti og þar með greitt hann að fullu.

Engin viðskiptaleg rök í verðlækkun

Inntur eftir viðbrögðum við reglulegri umræðu um háan aðgangseyri segir hann Bláa lónið byggja verðlagninguna á verðmæti vörunnar sem verið er að selja og vísar til þess að gestum hafi fjölgað milli ára. „Ættum við að lækka miðaverðið þegar gestafjöldinn vex milli ára? Ég sé ekki alveg viðskiptalegu rökin í því,“ segir Grímur.

„Við höfum búið við þessa umræðu allt frá því að við opnuðum baðstaðinn fyrir 16 árum á nýjum stað. Fólk setur samasemmerki á milli Bláa lónsins og sundstaða. Við erum hins vegar að bjóða upp á upplifunarvöru. Það kostar 10 þúsund krónur í hvalaskoðun og 6 þúsund krónur í Bláa lónið. Þetta eru hvort tveggja upplifunarvörur,“ segir Grímur. „Er ekki bara frábært að búið sé að byggja upp svo gott vörumerki að hægt sé að verðleggja þjónustuna með þessum hætti,“ segir hann. „Við erum að skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðina.“

Gestum fjölgaði um 18%.
Gestum fjölgaði um 18%. Eggert Jóhannesson
Langflestir gestir eru erlendir ferðamenn.
Langflestir gestir eru erlendir ferðamenn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK