Fáir „heimsækja“ Bláa lónið

Gjaldið var tekið upp til þess að takmarka umferð fólks …
Gjaldið var tekið upp til þess að takmarka umferð fólks sem var ekki á leið í lónið. Árni Sæberg

Þeir sem ætla í heimsókn í Bláa lónið án þess að fara ofan í þurfa að greiða svokallað heimsóknargjald sem nemur 10 evrum, eða um 1.500 krónum. Gjaldinu var komið á til þess að minnka álagið á húsinu.

Tíu prósent gjaldsins rennur til umhverfisverkefna í nágrenni Bláa Lónsins og á Reykjanesi til að bæta aðgengi gesta og umgengni um viðkvæma staði. 

Gjaldtakan hófst þann 3. júní 2013 og er því komin um tveggja ára reynsla á hana. Dagný Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir það ekki vera mjög algengt að fólk sé að greiða gjaldið til þess að koma í „heimsókn“ og til dæmis fá sér einn kaffibolla, að minnsta kosti séu það ekki margir á dag.

Þá bendir hún á að hægt sé að greiða 5 evrur til viðbótar við heimsóknargjaldið og fá leiðsögn um húsið þar sem gestir eru fræddir um sögu Bláa lónsins.

Þrjú þúsund gestir daglega

Dagný segir fólk almennt sýna gjaldinu skilning. „Við erum að fá hátt í þrjú þúsund manns ofan í lónið á hverjum degi og viljum frekar að fólk sem er að koma til þess að njóta alls þess sem lónið hefur upp á að bjóði fái að njóta sín,“ segir hún og bendir á að mikið álag hafi skapast þegar t.d. 500 til 600 farþegar af skemmtiferðaskipum komu í einu lagi til þess að skoða húsið.

Vert er að taka fram að ekki þarf að greiða heimsóknargjaldið þegar gestir fara ofan í lónið. Það kostar 6.800 krónur að sumarlagi.

Fullbókað fyrri partinn

Líkt og fram hefur komið var tekin upp aðgangsstýring í lónið í vetur þar sem hægt er að panta sér tíma á netinu. Dagný segir að kerfið hafi nýst vel þar sem mikið sé bókað. Hins vegar bóka gestir jafnan með stuttum fyrirvara og því er ekki hægt að sjá hvernig sumarið verður. Þó bóka stórir hópar gjarnan á netinu og hótel eru farin að láta ferðamenn vita af fyrirkomulaginu.

Hún segir að það verði oft fullbókað í lónið fyrri part dagsins og velur fólk þá annað hvort að setjast niður og bíða eða koma aftur síðar.

220 þúsund króna tökustaður

Vinsælt hefur verið að taka upp auglýsingar og annað efni í Bláa lóninu og hafa stórfyrirtæki á borð við Apple og Samsung nýtt sér umhverfið í þeim tilgangi. T.d. tók Apple þar upp hluta af auglýsingu fyrir iPad Air spjaldtölvuna.

Það kostar 1.500 evur, eða um 220 þúsund krónur, að taka upp efni í lóninu en gjaldið er nefnt „Location Fee.“ Dagný segir að fjölmargar fyrirspurnir berist en að Bláa lónið velji samstarfsaðila vel og að efnið þurfi að passa innan þess ramma sem fyrirtækið starfar eftir. 

Líkt og mbl greindi frá á dögunum sóttu alls 766 þúsund gest­ir Bláa lónið á síðasta ári. Gestirnir greiddu samtals um 3,7 millj­arða króna í aðgangs­eyri eða um tíu milljónir króna á dag. Um níu­tíu pró­sent gest­anna eru er­lend­ir ferðamenn.

Stærra lón í janúar nk.

Bláa Lónið verður lokað gestum frá 5. janúar til og með 21. janúar 2016 vegna framkvæmda við stækkun og endurhönnun upplifunarsvæðis. Veitingastaðir og verslun Bláa Lónsins verða einnig lokuð á tímabilinu. 

Stefnt er að því að opna endurnýjað og stærra lón þann 22. janúar 2016. Helstu breytingar verða eftirfarandi: Baðlón verður stækkað um helming, nýtt spa-svæði og nýtt veitingasvæði. 

Frétt mbl.is: Reynt að gera Bláa lónið tortryggilegt

Frétt mbl.is: Þú mætir ekki bara í Bláa lónið

Bláa lónið eftir framkvæmdir.
Bláa lónið eftir framkvæmdir.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK