Ísinn fæst bara fyrir vestan

Arna fram­leiðir laktósa­frí­ar mjólk­ur­vör­ur
Arna fram­leiðir laktósa­frí­ar mjólk­ur­vör­ur mbl.is/​Krist­inn

Sykurlaust skyr með nýtíndum vestfirskum aðalbláberjum er meðal væntanlegra nýjunga frá Örnu, sem framleiðir laktósa­frí­ar mjólk­ur­vör­ur. Ísblanda á dælur er einnig tilbúin en ísinn er þó einungis í boði í Hamraborg á Ísafirði, þar sem erfiðlega gengur að koma honum á dælur annars staðar.

Hálf­dán Óskars­son, fram­kvæmda­stjóri Örnu ehf., segist hafa rætt við nokkra aðila og reynt að koma ísnum á dælur á fleiri stöðum. Flestar ísbúðir eru hins vegar með tæki og tól frá Emmessís eða Kjörís og versla þá einungis við þau fyrirtæki. Þá myndu sjálfstæðir aðilar líklega hafa meira upp úr því að framleiða sína ísblöndu sjálfir en að kaupa hana af öðrum.

Spurður hvort Örnufólki hafi dottið í hug að opna sína eigin ísbúð segir Hálfdán að hugmyndin hafi komið upp. Hins vegar sé fyrirtækið með marga bolta á lofti og að sinna ýmsu öðru. Þá kosti það einnig mikið að opna sérstaka búð.

Finna einhvern í berjatínslu

Eins og að framan segir er von á sykurlausu skyri á markað í haust. Til stendur að tína aðalbláber fyrir vestan, þar sem framleiðslan er á Bolungarvík, og bæta í skyrið. Hálfdán játar þó að hann nenni ekki sjálfur út í móa heldur ætlar hann að finna einhvern í verkið og bætir við að ýmsir á svæðinu hafi verið að tína ber og selja.

Arna er um tveggja ára gamalt fyrirtæki sem Hálfdán segir vera vestfirskt í hólf og gólf enda mjólkin úr vestfirskum kúm auk þess sem til standi að blanda salti úr Ísafjarðardjúpi í nýjan fetaost. Hann er væntanlegur á markað í næstu viku en það mun vera hreinn fetaostur með sólblóma- og ólífuolíu ásamt salti frá Saltverki að vestan.

Þá segist Hálfdán einnig vera að leggja lokahönd á þróun grillostsins Halloumi, en ferlið hefur reynst nokkuð snúið þar sem viðkvæmu jafnvægi þarf að viðhalda til þess að osturinn bráðni ekki ofan í grillið en verði þó mjúkur við eldunina. 

Erfiður bransi

Spurður hvort fyrirtækið anni framleiðslunni að fullu segir Hálfdán að vissulega sé mjög mikið að gera. „En við erum verkglaðir og tilbúnir að vinna. Þetta er búið að vera mikill barningur þar sem mjólkurbransinn getur verið ansi erfiður. Við erum þó orðnir tveggja ára og það þykir nú gott í þessum bransa,“ segir Hálfdán.

Frétt mbl.is: Koma íslnum ekki í búðir

Frétt mbl.is: Mjólk, ostar og skyr úr vestfirskum kúm

Hálfdán Óskarsson, mjólkurtæknifræðingur og annar aðstandanda Örnu ehf.
Hálfdán Óskarsson, mjólkurtæknifræðingur og annar aðstandanda Örnu ehf. Arna ehf.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK