Karlmenn og efnaðir bjartsýnni

Karlmenn og tekjuháir einstaklingar eru sérstaklega bjartsýnir um þessar mundir.
Karlmenn og tekjuháir einstaklingar eru sérstaklega bjartsýnir um þessar mundir. mbl.is/Árni Sæberg

Neytendur hafa ekki borið hærri væntingar til efnahags- og atvinnulífs á Íslandi síðan í janúar 2008. Væntingar hækkuðu óvenjulega mikið milli mánaða. 

Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka á nýbirtri væntingavísitölu Gallup. Vísitalan mælist nú 107,1 stig en hún hefur einungis fjórum sinnum mælst yfir 100 stigum frá upphafi árs 2008.

Hækkunin milli mánaða er mest hjá karlmönnum og þeim sem hafa hæstar tekjur. Munur milli karla og kvenna hefur aldrei verið meiri frá því að mælingar hófust árið 2001. Hjá karlmönnum mælist hún 131,4 stig og hækkar um 43,6 stig á milli mánaða á meðan væntingavísitalan fyrir konur mælist 75,9 stig og lækkar um 2,8 stig milli mánaða.

Kjaradeilur hafa áhrif

Að mati Greiningar Íslandsbanka lýsir munurinn eflaust aðstöðumun kynjanna að einhverju leyti, s.s. launamun.

Einnig kann það að skýra muninn að hjúkrunarfræðingar, sem að stærstum hluta eru konur, eiga enn í erfiðum og langvinnum deilum við ríkið.

Hins vegar gæti skýringuna einnig einfaldlega verið að finna í úrtakshópnum og verið tölfræðilegs eðlis. 

Væntingavísitalan hækkar fyrir alla tekjuhópa, en líkt og áður sagði mest hjá þeim sem eru með hæstu tekjurnar. Væntingavísitala þess hóps mælist nú 132,9 stig en hjá þeim tekjulægstu mælist hún 79,6 stig.

Talið er að stökkið milli mánaða megi að miklu leyti rekja til þess að samið hefur við stóran hluta vinnumarkaðarins en harðvítugar og langvinnar deilur stóðu yfir þegar mælingin var gerð í maí. Við það bætist að komin er fram áætlun um afnám gjaldeyrishafta. 

Bílakaup í hæstu hæðum

Vísitala Gallup fyrir fyrirhuguð stórkaup neytenda stóð í júní einnig í sínu hæsta gildi síðan í mars 2008 en sú vísitala er mæld ársfjórðungslega. Mældist vísitalan 66,8 stig í júní og hækkaði um 2,1 stig frá því í mars.

Hluti þeirrar vísitölu sem hækkar mest á milli ársfjórðunga eru fyrirhuguð bifreiðakaup, sem stóðu í júní í sínu hæsta gildi síðan í september 2007, eða í 32,1 stigi og hækkar um 5,0 stig frá því í mars.

Bent er á að þetta rími við tölur um mikla aukningu í innflutningi bifreiða um þessar mundir.

Fleiri hafa ekki hugað að bílakaupum frá því í september …
Fleiri hafa ekki hugað að bílakaupum frá því í september 2007. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK