QuizUp hinn nýi Tinder

Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi QuizUp.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi QuizUp. Ljósmynd/QuizUp

Spurningaleiknum QuizUp hefur verið lýst sem hinum nýja Tinder í Frakklandi en Frakkar nota spjallið innan leiksins mest allra þjóða. Leikurinn, sem framleiddur er af íslenska fyrirtækinu Plain Vanilla trónir nú í efsta sæti í App store í Frakklandi að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Leikurinn hefur verið fáanlegur á frönsku síðan í fyrra og hefur rokið upp í vinsældum að því marki að netþjónar Plain Vanilla hafa vart undan en í gær var mesta álag á netþjóna fyrirtækisins frá upphafi.

Starfsfólk QuizUp leitar nú skýringa á þessum skyndilegu vinsældum. Mikil spjallnotkun var meðal þess sem kom í ljós þegar kafað var í málið en einnig nota franskir notendur möguleikann á að finna aðra notendur mun meira en aðrir. Samkvæmt tilkynninu QuizUp eru vinsældirnar raktar til nýrrar útgáfu QuizUp sem kom út í maí þar sem meiri áhersla er lögð á samskipti og að tengja fólk með svipuð áhugamál saman.

Fjölmargir franskir Twitter-notendur hafa tíst um leikinn og virðast þeir sammála um að QuizUp sé góður staður til að kynnast nýju fólki, sérstaklega í rómantískum hugleiðingum, og staðhæfa jafnvel sumir að QuizUp sé áhrifaríkara í þessum tilgangi en hið fræga stefnumótaapp Tinder,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Þorsteini Baldri Friðriksyni, stofnanda og framkvæmdastjóri QuizUp, að umræðan á Twitter sé algjörlega sjálfsprottin. „Þetta mikla vinsældastökk kemur okkur dálítið í opna skjöldu og við erum nú á fullu í greiningarvinnu, að reyna að sjá hvað setti þessa bylgju af stað. Það er lykill að næstu skrefum hjá okkur að fá fleiri lönd til að uppgötva möguleikana sem felast í nýja QuizUp,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK