Verðmerkingar urðu verri

Mikið var um ranglega verðmerktar vörur þegar Neytendastofa kannaði nýlega ástand verðmerkinga hjá matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Af 24 verslununum sem farið var voru einungis sex þeirra með verðmerkingar í góðu lagi. 

Þetta var seinni heimsókn Neytendastofu í þessar 24 verslanir þar sem athugasemd hafði einnig verið gerð við verðmerkingarnar í fyrri heimsókn.

Athugasemd var gerð við eftirtaldar verslanir Bónus Korputorgi, Smáratorgi og Smiðjuvegi, Iceland Arnarbakka, Engihjalla og Vesturbergi, 10-11 Efstalandi, Hjarðarhaga, Langarima, Laugavegi og Lágmúla, Krónuna á Bíldshöfða, Háholti og Hvaleyrarbraut, Nettó mjódd, Mini Market í Drafnarfelli, Plúsmarkaðinn og Vietnam market á Suðurlandsbraut.

„Kemur verulega á óvart“

Í tilkynningu frá Neytendastofu kemur fram að það hafi verið áberandi hversu mikið af vörum voru óverðmerktar, eða 233 af þeim 900 vörum sem valdar voru af handahófi. Þá voru 64 vörur ranglega verðmerktar. 

Til samanburðar má geta að í fyrri heimsókn í þessum sömu 18 verslunum voru 89 vörur óverðmerktar og 105 vörur með rangri verðmerkingu.

„Kemur það verulega á óvart að ástand verðmerkinga í verslununum hafi versnað á milli heimsókna,“ segir Neytendastofa.

Ástand á einingarverði var óbreytt frá fyrri könnun í verslununum Mini Market, Drafnarfelli og Vietnam Market, Suðurlandsbraut þar sem einingarverð vantaði á allar vörur.

Á vef Neytendastofu kemur fram að einingarverð sé nauðsynlegt til þess að neytendur geti áttað sig á hagkvæmustu kaupunum þar sem úrval af vörum er mikið og pakkningar misstórar. Þess vegna hafi verið settar reglur sem skyldar verslunareigendur til að gefa upp mælieiningaverð og söluverð.

Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort verslanirnar verði sektaðar fyrir að virða að vettugi fyrirmæli og ábendingar Neytendastofu um að koma verðmerkingum í viðunandi horf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK