„Vitlaust að gera“ í sláturhúsinu

Um 100 nautgripum er slátrað í hverri viku hjá Norðlenska …
Um 100 nautgripum er slátrað í hverri viku hjá Norðlenska til þess að vinna upp biðlista. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum bara gjörsamlega á útopnu. Það er alveg vitlaust að gera,“ segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, og bætir við að verið sé að slátra eins mörgum nautgripum á viku og húsið ræður við.

Hann segist ekki hafa tekið eftir verðbreytingum á nautakjöti í kjölfar verkfalls dýralækna BHM en það kæmi honum hins vegar ekki á óvart ef góð tilboð á kjúklingum fara að skjóta upp kollinum á næstunni. 

Dýralæknar BHM sneru aftur til starfa hinn 15. júní sl. eftir að hafa verið í verkfalli frá 20. apríl. Sigmundur segir að þriggja mánaða langur biðlisti hafi verið búinn að myndast og telur að það muni taka um einn mánuð að vinna úr honum. 

100 nautgripir á dag

Verið er að slátra um eitt hundrað nautgripum á viku í sláturhúsi Norðlenska. Slátrunin fer fram tvisvar í viku og er því um fimmtíu gripum slátrað á dag. „Við erum að slátra alveg upp í toppinn á því sem við höfum leyfi til og ráðum við,“ segir Sigmundur. 

Hann segir að jafnvægi sé að komast aftur á framleiðsluna. Hakkið sé hægt að selja strax en hins vegar þurfi vöðvar að bíða og meyrna. Suma vöðva verður ekki hægt að selja fyrr en eftir um hálfan mánuð en lundir gætu farið í sölu eftir um fimm daga.

Þá segist hann ekki hafa tekið eftir verðbreytingum á nauta- eða svínakjöti í kjölfar verkfallsins. Hins vegar hafi safnast upp mikið magn af kjúklingakjöti sem nú er að rata í búðir. „Það kæmi mér ekki á óvart ef það yrðu góð tilboð á næstunni. Menn eiga mikið af birgðum sem þeir þurfa að losna við og ég vona að neytendur njóti góðs af því,“ segir Sigmundur.

Þurftu að vinna á 17. júní

Í Kjöthúsinu sem framleiðir kjötvörur fyrir fjölmarga veitingastaði og mötuneyti eru hlutirnir einnig að komast aftur í samt horf. Svanur Kristvinsson, starfsmaður Kjöthússins, segir kjötið hafa streymt inn um leið og dýralæknar sneru aftur til starfa. „Það er búið að vera brjálað að gera,“ segir Svanur og bætir við að starfsfólk hafi til dæmis verið við störf á 17. júní og um helgar til þess að vinna kjötið. 

Þá segir hann að fyrirtækið muni ekki ná að safna upp lager í frysti í sumar, líkt og vaninn er, heldur er allt kjötið sent beinustu leið úr húsi.

Engin varanleg áhrif

Björn Christensen, eigandi Kjöthallarinnar, segir að vöruúrvalið í kjötborðinu hjá sér hafi aftur verið orðið samt um tíu dögum eftir að dýralæknar hófu störf. Þá segir hann að verkfallið hafi ekki haft nein varanleg áhrif á reksturinn þar sem starfsmenn redduðu sér m.a. með lambakjöti.

Aðspurður hvort viðskiptavinir sæki enn að í lamb-borgarana segir Björn að einn og einn séu að biðja um það og kveðst þjónusta þá eftir getu. 

Hamborgarar eru komnir aftur í búðir og á grillið.
Hamborgarar eru komnir aftur í búðir og á grillið. Eyþór Árnason
Björn Christensen, eigandi Kjöthallarinnar.
Björn Christensen, eigandi Kjöthallarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK