Sendu málið fyrir dómstól götunnar

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson

Björgólfur Thor Björgólfsson vill fá opinbera afsökunarbeiðni frá RÚV vegna umfjöllunar um hópmálsókn gegn honum í Kastljósinu hinn 23. júní. Björgólfur hefur sent bréf um málið til stjórnar Ríkisútvarpsins þar sem hann sakar stofnunina um að hafa brotið þau lög sem um hana gilda.

Í pistli sem Björgólfur birti á heimasíðu sinni fyrir stundu sakar hann RÚV um að hafa beitt ófaglegum vinnubrögðum og látið „sanngirni og hlutlægni lönd og leið og látið ógert að leita upplýsinga frá báðum aðilum eða kynna sjónarmið þeirra sem jafnast.“

Hann segir umfjöllunina hafa verið meiðandi og til þess fallna að valda honum tjóni og fer því fram á formlega afsökunarbeiðni. „Með því að hunsa eigin reglur tók RÚV að sér að birta einhliða alvarlegar ásakanir í minn garð og lét dómstól götunnar eftir að dæma í máli, sem hefur enn ekki komið fyrir rétta dómstóla.“

Líkt og að framan segir fjallaði Kastljósið um hópmálsókn hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi. Málsóknin byggir á því að Björgólf­ur hafi með sak­næm­um hætti komið í veg fyr­ir að hlut­haf­ar Lands­bank­ans fengju upp­lýs­ing­ar um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar gegn hon­um og einnig að hann hafi brotið gegn regl­um um yf­ir­töku.

Vissu að hann hafði ekki séð stefnu

„Ég rita þetta bréf til að gera athugasemd við Kastljós þriðjudaginn 23. júní sl. Þar fékk lögmaður að flytja mál gegn mér, mótmælalaust, í rúman stundarfjórðung. Vísað var til þess hvað stæði í stefnu boðaðs dómsmáls og mátti fréttamanni þó vera ljóst að sú stefna hefur ekki verið birt mér þannig að ég geti tekið til varna. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig þessi framsetning stenst lagareglur um hlutlæga frétta- og fréttaskýringaþjónustu RÚV,“ ritar Björgólfur í bréfinu sem hann birtir í heild á heimasíðu sinni.

Þá segir hann ljóst að þátturinn hafi ekki verið unninn á einum degi og furðar sig á því að ekki hafi verið haft samband fyrr en nokkrum klukkustundum fyrir útsendingu þar sem talsmanni hans var boðið að senda inn yfirlýsingu. 

„Það er ekki hægt að svara ávirðingum nema hafa heyrt þær fyrst, en fréttamaður vissi fullvel að ekki var búið að birta mér stefnu málsins – og er ekki enn,“ skrifar Björgólfur en líkt og fram hefur komið stendur til að birta honum stefnuna síðar í sumar.

Hér að neðan er bréfið í heild sinni:

Ég rita þetta bréf til að gera athugasemd við Kastljós þriðjudaginn 23. júní sl. Þar fékk lögmaður að flytja mál gegn mér, mótmælalaust, í rúman stundarfjórðung. Vísað var til þess hvað stæði í stefnu boðaðs dómsmáls og mátti fréttamanni þó vera ljóst að sú stefna hefur ekki verið birt mér þannig að ég geti tekið til varna. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig þessi framsetning stenst lagareglur um hlutlæga frétta- og fréttaskýringaþjónustu RÚV.

Í Kastljósi fékk lögmaðurinn Jóhannes Bjarni Björnsson nægan tíma til að bera á mig ýmsar sakir án þess að nokkur tilraun væri gerð til að andmæla þeim eða spyrja ítarlegar út í fullyrðingar hans. Ef ég hefði fengið færi á að svara þá hefði ég t.d. getað sýnt fram á með gögnum að fullyrðingar um að lán til mín hafi numið 50% af eiginfjárgrunni Landsbankans eru úr lausu lofti gripnar. Sama gildir um staðhæfingar lögmannsins um stöðu á lánveitingum til mín í lok júní 2007 í tengslum við Actavis: Þar kýs lögmaðurinn að fara fram með hálfsannleik og sleppa alveg að nefna að mánuði síðar hafði ég yfirtekið Actavis, eftir það lék aldrei nokkur vafi á að félagið var skilgreint sem mér tengdur aðili og því til viðbótar var það endurfjármagnað með þeim hætti að áhættan færðist frá Landsbankanum til Deutsche Bank. Vart getur slík breyting talist hluthöfum í óhag.

Ummæli samstarfsmanna minna í fundargerðum og tölvupóstum eru rifin úr samhengi, en ég fékk ekki tækifæri til að skýra það samhengi áður en þessi einhliða „fréttaskýring“ birtist. Þá er ekki á nokkurn hátt reynt að varpa kastljósi á fullyrðingar lögmannsins um að viðskipti hafi verið „sýndarviðskipti“, samningar horfið og ég hafi beitt blekkingum árum saman og þannig unnið gegn hluthöfum bankans.

Þetta eru gríðarlegar ásakanir og mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna vanur fréttamaður staldraði aldrei við og kannaði hver mótrök mín væru. Að sama skapi furða ég mig á að ekki skyldu settir neinir fyrirvarar við fullyrðingar lögmannsins. Ef þær stæðust, hefðu þessi meintu stórbrot mín ekki verið rannsökuð af þar til bærum embættum? Vekur það ekki a.m.k. spurningar í huga fréttamanns að ég eigi að vera sekur um alvarleg brot, en að þau hafi ekki fundist við ítarlegar rannsóknir slitastjórna, Fjármálaeftirlitsins og embættis sérstaks saksóknara? Öllum er fullkunnugt að eftir hrun hefur hverjum steini verið velt við í rannsóknum á bönkunum. Samt sem áður birtir RÚV fyrirvaralaust þátt með yfirbragði fréttaskýringar þar sem lögmannsstofa og Vilhjálmur Bjarnason eiga, með þráhyggjuna eina að vopni, að hafa fundið brot sem öllum öðrum yfirsást.

Það skýtur líka skökku við, að fréttatilefnið var í raun ekki að hluthafar ætluðu í mál við mig. Heldur hitt, að lögmaður teldi sig hafa uppgötvað ýmis brot mín og fékk svo Kastljós í lið með sér til að auglýsa eftir áhugasömum stefnendum svo hann gæti höfðað málið. Þarna er öllu snúið á hvolf.

Mér sýnist augljóst að þátturinn hafi ekki verið unninn á einum degi. Fréttamanni hefði verið í lófa lagið að hafa samband við mig og leita minna sjónarmiða. Það, að hafa samband við talsmann minn nokkrum klukkustundum fyrir útsendingu og bjóða að send yrði inn yfirlýsing, getur ekki talist fullnægjandi.

Það er ekki hægt að svara ávirðingum nema hafa heyrt þær fyrst, en fréttamaður vissi fullvel að ekki var búið að birta mér stefnu málsins – og er ekki enn. Talsmaður minn sendi inn yfirlýsingu, en hún var aðeins lesin upp að hluta, eftir að 16 mínútna „fréttaskýringunni“ loksins lauk. Svör talsmannsins, jafn takmörkuð og þau hlutu að vera þegar ég hafði ekki séð stefnuna eða þáttinn, fengu 45 sekúndur, á eftir 16 mínútna – og margra milljóna virði - auglýsingu lögmannsins.

Með þessari framsetningu virðist mér ljóst að RÚV hafi brugðist lagaskyldu sinni. Í lögum um Ríkisútvarpið nr 23/2013, 3. grein, segir að í starfsháttum sínum skuli Ríkisútvarpið:

1. Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.

2. Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.

3. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.

Vinnubrögðin í þessu tilviki voru ekki fagleg, sanngirni og hlutlægni látin lönd og leið, svo sannarlega var ekki leitað upplýsinga frá báðum aðilum og því fór fjarri að sjónarmið væru kynnt sem jafnast. Og hvað heimildir varðar þá hef ég áður nefnt rangfærslur lögmannsins. Þær hefði ég getað hrakið í þættinum, hefði RÚV gefið mér færi á því.

Með því að hunsa eigin reglur tók RÚV að sér að birta einhliða alvarlegar ásakanir í minn garð og lét dómstól götunnar eftir að dæma í máli, sem hefur enn ekki komið fyrir rétta dómstóla.

Umfjöllun Kastljóss þriðjudaginn 23. júní var meiðandi og til þess fallin að valda mér miklu tjóni. Ég fer hér með fram á formlega afsökunarbeiðni frá Ríkisútvarpinu á þeim vinnubrögðum sem beitt var í þessu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK