Skoða flugrútu til Akureyrar

Gray Line rútur.
Gray Line rútur.

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line hefur undanfarna mánuði skoðað möguleikann á því að bjóða beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar. Þannig yrði að hluta til mætt þörfum farþega í millilandaflugi sem eiga erindi norður eða að norðan.

„Hugmyndin er að ferðirnar verði í tengslum við komur og brottfarir á Keflavíkurflugvelli síðdegis. Við teljum að við þurfum að byrja með a.m.k tvær ferðir í viku, síðdegis til Akureyrar og að norðan að morgni dags,“ er haft eftir Þóri Garðarssyni, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Gray Line, í tilkynningu. 

„Með þessu móti gætu farþegar verið komnir til Akureyrar fyrir miðnætti sama dag og þeir lenda. Á sama hátt gætu þeir náð síðdegisflugi frá Keflavíkurflugvelli sama dag og þeir leggja af stað frá Akureyri,“ segir Þórir. 

Í tilkynningu segir að Gray Line muni leggja áherslu á að ferðalagið verði þægilegt og ánægjulegt og leggja til leiðarinnar lúxusrútur úr flota fyrirtækisins.  

Fyrirtækið hefur kynnt þessi áform fyrir ýmsum aðilum í ferðaþjónustunni og fengið ágætar undirtektir. 

Stuðla að lengri dvöl á Akureyri

„Beint flug til Akureyrar hefur verið reynt og ekki gengið upp. Vafalítið mun koma að því að slíkar ferðir geti orðið sjálfbær kostur. En meðan verið er að skapa þann markað teljum við farsælast að byggja á þeirri staðreynd að mestallt millilandaflug fer um Keflavíkurflugvöll. Sá flugvöllur þjónar öllum áfangastöðum erlendis en viðbúið er að beint flug til Akureyrar tengist aðeins einum áfangastað erlendis. 

Við teljum því skynsamlegast í stöðunni að megináherslan í markaðssetningu Norðurlands beinist áfram að flugfarþegum sem fara um Keflavikurflugvöll, enda fara þar um 9 af hverjum 10 ferðamönnum sem hingað koma,“ segir Þórir ennfremur.

Að mati Gray Line geta beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar stuðlað að lengri dvöl ferðamanna fyrir norðan og verið ákjósanlegur valkostur fyrir þá sem eiga aðeins erindi þangað og ætla ekki að stoppa á höfuðborgarsvæðinu.

„Til að þetta geti gengið upp þurfa flugfarþegar að vita af þessum valkosti. Gray Line treystir því á góða samvinnu og samstarf við flugfélög og ferðaskrifstofur, ef af þessu verkefni verður,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK