Spólurnar út og djúsinn inn

Mæðgurnar Halldóra Sif Guðlaugsdóttir og Ásta Björk Benediktsdóttir.
Mæðgurnar Halldóra Sif Guðlaugsdóttir og Ásta Björk Benediktsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Myndbandsspólurnar fengu að fjúka úr hillum Snæland Vídeós í Mosfellsbæ í vikunni þegar eigendur breyttu nafni staðarins og opnuðu safa- og samlokubar. Ásta Björk Benediktsdóttir, annar eigandinn, hafði gengið með hugmyndina í maganum í langan tíma en beðið eftir rétta augnablikinu.

„Það er svo mikil heilsubylting í gangi í Mosfellsbænum og fólk vill eiga kost á hollari máltíð,“ segir Ásta sem hefur rekið Snæland Vídeó ásamt eiginmanni sínum í fimmtán ár. 

Hún segir viðskiptavini hafa tekið vel í breytingarnar. „Allir virðast mjög glaðir með þetta og fólk kemur aftur og aftur. Það er virkilega gaman að fá svona viðbrögð þar sem við höfum lagt mikinn metnað í þetta,“ segir hún.

Ný andlit fylgja breytingum

Í stað þess að einungis sé að finna hefðbundinn grillmat á matseðlinum er nú hægt að fá ferskar samlokur, nýkreista ávaxtasafa og skyrdrykki. Ásta segist hafa notið góðrar aðstoðar við gerð matseðilsins þar sem Daníel bakari úr Mosfellsbakarí hannaði brauðið auk þess sem kokkur á veitingastaðnum Einari Ben þróaði heimagert pestó.

Ásta segir að grillið fái þó að vera áfram á sínum stað þar sem gaman sé að geta boðið upp á alla flóruna. Aðspurð hvort einhverjir fastagestir hafi skipt yfir í hollari valkost segir hún einn og einn tínast í safabarinn en hins vegar séu einnig mörg ný andlit í sjoppunni.

Spólurnar í kassa

Á sama tíma og breytingarnar voru gerðar var öllum spólum hent út. Ásta segir leiguna hafa snarminnkað á síðustu árum og nánast alveg hafa lagst af. „Þetta var bara orðið sama fólkið sem kom. Þeir sem eru ekki orðnir alveg tölvuvæddir,“ segir hún létt í bragði.

Hún setti því allar spólurnar niður í kassa og kom þeim fyrir á bak við borðið. Þar geta viðskiptavinir rótað í kössunum, keypt sér spólu og fengið einhverjar gefins. Aðspurð hvort einhverjir hafi kvartað yfir spóluleysinu segir hún fólk þvert á móti vera ánægt með að fá skoða safnið og eignast spólurnar.

Ætlaði ekki að stoppa svona lengi

Með nýjum áherslum töldu eigendur að nýtt nafn væri einnig við hæfi. Nafnið Snæland Vídeó var því lagt til hliðar eftir fimmtán ár en „Ice boost and burgers“ tekið upp. Aðspurð um erlenda tengingu segir Ásta að ferðamenn séu mikið á ferð í bænum og því hafi verið sniðugt að höfða einnig til þeirra. Þar að auki finnist sér nafnið einfaldlega flott. „Mér fannst þetta vera rétta augnablikið til þess að skipta alveg um gír, fyrst við vorum að þessu, og færa þetta upp á hærra plan,“ segir Ásta.

„Þegar ég tók við Snælandi fyrir fimmtán árum ætlaði ég sko aldrei að vera lengur í þessu en í tíu ár,“ segir Ásta glettin en bætir við að starfið hafi verið mjög skemmtilegt upp á síðkastið. „Þetta er búið að vera svaka stuð þar sem allir hafa verið svo ánægðir með breytingarnar,“ segir Ásta að lokum.

Snæland Video heitir nú Ice boost and burgers.
Snæland Video heitir nú Ice boost and burgers. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Á nýja matseðlinum eru ýmiss konar drykkir og samlokur.
Á nýja matseðlinum eru ýmiss konar drykkir og samlokur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK