Íslenskar snyrtivörur úr minkafitu

Fyrirtækið framleiðir nú þrjár tegundir af smyrslum og leðurfeiti.
Fyrirtækið framleiðir nú þrjár tegundir af smyrslum og leðurfeiti.

Að Syðra-Skörðugili í Skagafirði búa hjónin Einar E. Einarsson og Sólborg Una Pálsdóttir. Þar reka þau fyrirtækið Urðarkött, sem er minkabú og verkunarstöð á skinnum, ásamt foreldrum Einars, þeim Ásdísi Sigurjónsdóttur og Einari E. Gíslasyni. Við verkun á skinninu fellur til fita sem notuð er í snyrtivörur sem fyrirtækið framleiðir undir heitinu Gandur.

„Við erum búin að vita í mörg ár að þessi fita er mjög græðandi og hún gerir hendurnar á manni mjög mjúkar þegar maður er að vinna þessi verk,“ segir Einar E. Einarsson eigandi Urðarkattar. Það var svo í fikti við eldhúsborðið heima sem hugmyndin varð til, að blanda fitunni við íslenskar jurtir. Einar segir að minkafitan sé notuð víða um heim í snyrtivörur, leðurfeiti og fleira og því sé í raun ekki verið að finna upp hjólið. „Okkur fannst synd að við værum að henda þessu, svo að við ákváðum að prófa okkur áfram.“

Þau sóttu um styrk til Tækniþróunarsjóðs Rannís og Vaxtasamnings Norðurlands vestra og fengu hann um áramót 2012. Styrkurinn gerði þeim kleift að fara í samstarf við Matís og vinna fyrirtækin saman að vinnsluaðferðinni, hvernig fitan er hreinsuð og hvaða aðferðir eru notaðar. Þá var haldin hönnunarkeppni í Myndlistaskólanum á Akureyri um hönnun á lógói fyrir Gand og varð Berglind Guðmundsdóttir hlutskörpust. 

Fyrir fólk með húðvandamál

Í upphafi var hugmyndin að nota smyrslið við múkki á hestum. Smyrslið virkaði vel og þá fór fólk með psoriasis og önnur húðvandamál að hafa samband og fá prufur. Vegna þessara jákvæðu viðbragða var ákveðið að framleiða smyrslin bæði fyrir menn og skepnur.

Nú selur Gandur þrjár tegundir af smyrslum og eina tegund af leðurfeiti, Sárabót og Hælabót sem ætluð eru mönnum og Sárasmyrsl fyrir dýrin. Fitan er hreinsuð og unnin á Syðra-Skörðugili með tilheyrandi búnaði og jurtirnar einnig tíndar þar. Fyrirtækið Pharmatica á Grenivík sér um að setja kremið á túbur.

Jákvæð viðbrögð

„Viðbrögð fólks hafa verið vonum framar og það er það sem hefur hvatt okkur áfram,“ segir Einar. Fyrirtækið hefur vaxið hægt og rólega en fer nú ört stækkandi. Hægt er að kaupa vörurnar í allmörgum verslunum. Lyfjuapótekin geta öll pantað kremin og svo selja allar helstu búvöruverslanirnar leðurfeitina og Sárasmyrsl fyrir dýr.

Fyrirtækið einbeitir sér nú að íslenska markaðnum, en í sumar verður það einnig með kynningu á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Danmörku. Það hefur verið í samstarfi við dýralækna í Svíþjóð þar sem að Sárasmyrsl sem ætlað er dýrum hefur virkað vel á exem á hestum. Þá segir Einar að hann hafi einnig heyrt reynslusögur frá fólki þar sem Sárabótin virki vel á flugnabit.

Hælabót og Sárabót fyrir mannfólkið.
Hælabót og Sárabót fyrir mannfólkið.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK