Grísk áhrif á mörkuðum

AFP

Helstu hlutabréfavísitölur í Asíu og Eyjaálfu lækkuðu í dag í kjölfar þess að Grikkir höfnuðu þeim kjörum sem þeim stóðu til boða af hálfu lánardrottna í gær.

Eftir að fjármálaráðherra Grikklands, Yannis Varoufakis, sagði af sér í morgun rétti evran hins vegar heldur úr kútnum á nýjan leik.

Kínversk hlutabréf hækkuðu gríðarlega, eða um tæp 8%, á einungis nokkrum mínútum eftir að markaðir voru opnaðir í morgun en sú hækkun tengdist boðuðum aðgerðum kínverskra stjórnvalda til þess að styrkja hlutabréfamarkaði á meginlandinu. Hlutabréfavísitölur þar í landi lækkuðu síðan aftur og urðu litlar breytingar á milli daga þar.

Í Tókýó lækkaði Nikkei-hlutabréfavísitalan um 2,08% eða 427,67 stig og er 20.112,12 stig. Í Seúl lækkaði vísitalan um 2,40% og í Sydney nam lækkunin 1,11%.

Hlutabréfavísitalan í Taipei lækkaði um 1,09% og í Wellington nam lækkunin 1,10%.

Í Sjanghaí hækkaði vísitalan um 7,82% fljótlega eftir að viðskipti hófust í morgun og undir lok markaða var hækkun dagsins nánast búin að þurrkast út og var vísitalan 0,80% hærri en við upphaf viðskipta. Í Hong Kong hefur vísitalan lækkað um 4,12% það sem af er degi.

Evran hækkaði í 1,1088 Bandaríkjadali úr 1,1027 dölum eftir að Varoufakis tilkynnti afsögn sína en í New York í nótt hafði evran lækkað í 1,0963 Bandaríkjadali í nótt.

Á olíumarkaði hefur West Texas Intermediate-hráolía til afhendingar í ágúst lækkað um 2,10 Bandaríkjadali í 54,83 dali tunnan og í Evrópu hefur Brent-Norðursjávarolía lækkað um 75 sent og er nú 59,57 Bandaríkjadalir tunnan.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK