Mótmæli hafa ekki áhrif á starfsemina

Tryggvagata 22 og Naustin.Til stendur að fara í framkvæmdir.
Tryggvagata 22 og Naustin.Til stendur að fara í framkvæmdir. Mynd/Google maps

„Það stendur ekki til að opna seríu af lundabúðum þarna,“ segir Steindór Sigurgeirsson, sem á fasteignir á horni Tryggvagötu og Naustsins þar sem nokkrir skemmtistaðir eru til húsa. „Kjarni málsins er að við viljum taka til vegna þess að svæðið er mjög sjoppulegt,“ segir hann.

Líkt og Stundin greindi frá í morgun stendur til að fara í framkvæmdir á reitnum. Málið hefur þegar vakið mikla athygli þar sem m.a. hefur verið stofnuð mótmælasíða á Facebook. Þar segir að nokkrir húseigendur í bænum séu að reyna að „myrða tónlistarsenuna“ með því að loka bestu og stærstu tónleikastöðunum til þess að opna aðra upplýsingamiðstöð fyrir túrista eða minjagripabúð. „Sýnum þeim að við viljum ekki borg án menningar,“ segir þar.

Nýbúinn að opna tónleikastað

Líkt og að framan segir eru skemmtistaðir reknir í þeim húsum sem um ræðir. Í húsnæðinu sem er í eigu þeirra Steindórs og Jason Wittle er Dubliners og Paloma en Gamli Gaukurinn og Húrra eru í Tryggvagötu 22, sem er í eigu Eikar fasteignafélags.

Mögulega yrði farið í framkvæmdir í einhverju samstarfi við Eik. Steindór segist þó aðeins einu sinni hafa fundað með Eik og bætir við að engar sérstakar viðræður séu í gangi. Það gæti hins vegar farið vel ef unnið yrði saman.

Aðspurður segir Steindór að mótmæli muni ekki hafa áhrif á það hvaða starfsemi verður á svæðinu. Þá bendir hann á að hann sé nýbúinn að opna stóran tónleikasal í Gama bíó, sem einnig er í hans eigu, og vísar því gagnrýninni á bug.

Gera húsin falleg

„Það á að laga til í þessu húsi en það er ekki búið að ákveða hvað eigi að vera þar. Við höfum aldrei nefnt lundabúðir og ekki heldur að þetta ætti endilega að vera túristamiðað,“ segir hann. „Það stendur til að endurgera þessi hús, gera þau falleg og hafa í þeim blandaða starfsemi,“ segir Steindór.

Aðspurður um nánari útskýringu á blandaðri starfsemi segist hann að minnsta kosti ekki sjá fyrir sér hreint barsvæði. Inntur eftir því hvort starfsemin verði að einhverju leyti miðuð að ferðamönnum segir Steindór að þeir hljóti að vera stór hluti af allri starfsemi í Reykjavík um þessar mundir. „Þegar ein milljón manna kemur inn í hundrað þúsund manna borg er hlutfallið tíu á móti einum. Ef þú ert ekki að hugsa um ferðamenn ertu ekki á réttri leið,“ segir hann.

Teiknivinna hafin

Steindór segir þá að um margra ára plan sé að ræða. Teiknivinna er hafin en þó ekki komin langt á veg. Til stendur að halda í upprunalegt útlit húsanna.

Þá veltur það á leyfisveitingum hvenær hægt verður að hefja framkvæmdir.

Steindór bendir á að hann sé nýbúinn að útbúa tónleikasvæði …
Steindór bendir á að hann sé nýbúinn að útbúa tónleikasvæði í Gamla bíó. G. Bjarki Gudmundsson
Borgarbúar hafa áhyggjur af tónlistarsenunni í Reykjavík.
Borgarbúar hafa áhyggjur af tónlistarsenunni í Reykjavík. Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK