Afkoma Samsung versnar

AFP

Suðurkóreski tæknirisinn Samsung Electronics hefur varað við því að afkoma félagsins á öðrum fjórðungi ársins verði líklegast verri en fjármálagreinendur búast við.

Félagið gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður þess frá apríl til júní muni dragast saman um 4% frá því í fyrra og muni nema 6,13 milljörðum dala. Greinendur höfðu áður spáð því að rekstrarhagnaðurinn yrði um tæplega fimm prósentum hærri.

Félagið gerir einnig ráð fyrir því að sala þess dragist saman um 8%. Sagði í tilkynningu frá Samsung að félagið sæi ekki mikla vaxtarmöguleika á snjallsímamarkaðinum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Greinendur hafa bent á að skortur hafi verið á nýjasta snjallsíma Samsung, Galaxy S6, sem hafi haft slæm áhrif á sölu félagsins á ársfjórðunginum. Forsvarsmenn Samsung hafa hins vegar sannfært fjárfesta um að þeir hafi leyst framboðsvandann og að salan muni þar af leiðandi aukast á nýjan leik.

Er búist við því að afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi verði sú besta frá því á sama tímabili í fyrra.

Samsung hefur ekki náð sér á strik í samkeppninni við aðalkeppinautinn Apple og þá hefur samkeppnin við ódýrari framleiðendur, svo sem Xiaomi í Kína, reynst hörð.

Félagið mun birta afkomu sína fyrir ársfjórðunginn í lok mánaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK